Monthly Archives: October 2011

Allra heilagra messa eða Hrekkjavaka

Þann 31. október er venjulega haldin Hrekkjavaka í Bandaríkjunum. Börn klæða sig upp í búninga og hlaupa milli húsa, þar sem íbúum er boðið að kaupa sig undan því að vera hrekkt með því að gefa börnunum sælgæti. Má rekja þennan sið til þess er fátækir fóru á miðöldum á milli húsa eða bæja og báðust ölmusu gegn því að biðja fyrir sálum hinna látnu. Hátíðin sjálf er hins vegar mun eldri og á sér jafnvel örlítið dekkri hlið, sem oft er vísað til í hrollvekjum.

Orðið Hrekkjavaka er í raun frekar slæm þýðing á enska orðinu Halloween. Upphaflega var þetta Hallow evening, eða Hallow e’en, en upphaflega var þetta kvöld fyrir Allra heilagra messu kallað All hallow evening. Þannig væri kannski réttara að kalla þetta kvöld á íslensku Heilagravaka. Þessa hátíð má rekja til keltnesku hátíðarinnar Samhain (orðið þýðir sumarlok). Þetta kvöld var notað til að fagna sumarlokum, að hey og uppskera væri komin í hús og kaldir vetrarmánuðir framundan. Einnig var það trú Kelta að þetta kvöld væru skilin á milli raunheima og þeirra yfirnáttúrulega hvað þynnst og því gætu djöflar, andar hvers konar og forynjur ferðast á milli. Til halda frá þeim illu reistu þeir mikla bálkesti og ákölluðu guðina með fórnum hvers konar, t.d. með því að fórna dýrum og hugsanlega líka mönnum.

Þaðan er fengin þessi dökka hlið Hrekkjavökunnar. Mörgum finnst þetta kvöld fullkomið til að lesa eða horfa á hrollvekjur og hefur þessi tími verið margnýttur af rithöfundum og kvikmyndagerðafólki. Ef þú trúir því að skilin séu þunn milli heima, þá mætti hugsanlega benda þér á að skv. kristnum útskýringum þá ættu skilin að vera hvað þynnst klukkan 3 eftir miðnætti, en þá telja þeir nóttina vera hvað dekksta. Ástæða þess er sú, að Kristur er talinn hafa látist á krossinum klukkan 15 og því eiga djöflar og þeirra afkvæmi hvað greiðasta leið inn í okkar heim þegar klukkan er hvað lengst frá þeirri tímasetningu.

Púrítanar og mótmælendur tóku ekki vel í þessa hátíð til að byrja með, þótti hún barbarísk með vísun til upphafs hennar, kaþólsk með vísun í ölmusuferðir fátækra og er Hrekkjavöku ekki að finna sem hátíðisdag á bandarískum almanaökum frá 18. öld og fyrri hluta 19. aldar. Hins vegar virðast Írar og Skotar hafa haldið fast í þennan sið og báru hann með sér þegar fólksflutningar þeirra hófust af krafti yfir Atlantshafið. Til eru ritaðar heimildir um þessa hátíð þarlendis allt frá 16. öld og virðist kirkjan þar hafa litið á hátíðina sem hluta af menningu þeirra.

Í dag er hrekkjavöku fagnað víða. Við Íslendingar höfum á undanförnum árum tekið upp þann sið að halda Hrekkjavökupartý, þar sem gestir koma klæddir í búninga og skemmta sér saman. Oftar en ekki er nokkuð dökkt þema í búningagerðinni, t.d. eru uppvakningar og vampírur algengar. Við eigum okkur þó búningadag, þ.e. Öskudag, þar sem börn klæða sig í búninga og hrekkja fólk með því að festa öskupoka á það. Öskudagur er venjulega við upphaf Lönguföstu. Sá dagur á sér einnig langa sögu en verður ekki fjallað nánar um hana hér. Hrekkjavakan virðist hins vegar komin til að vera og spurning hvenær börn klæða sig í búninga og hlaupa milli húsa, rétt eins og gert er í Bandaríkjunum.


Gotneskar og hrollvekjandi bókmenntir

Árið 1764 kom út skáldsagan Otranto-kastalinn, gotnesk saga eftir Horace Walpole. Jafnan er talið að hún sé fyrsta gotneska sagan sem gefin var út. Gotneskar sögur fjölluðu öðrum þræði um hnignun, oftar en ekki á sögusviði miðalda, og rann saman hið hryllilega og hið rómantíska í þess háttar sögum. Komu auk þess við sögu furður hvers konar og hrollvekjur, t.d. draugar og afturgöngur, sem ýttu enn frekar undir hinn gotneska blæ. Þó saga Walpole sé í raun frekar vanþróað verk, þá hafði það þau áhrif að aðrir rithöfundar tóku að spreyta sig á efninu. Gamlir kastalar, hús þar sem var reimt, myrkur, dauði, tvífarar, launhelgar og hnignun voru aðalsmerki slíkra sagna. Í kjölfar Walpole stigu fram höfundar á borð við Ann Radcliffe (The Mysteries of Udolpho) og Charles Maturin (Melmoth the Wanderer). Allar þessar bækur eru það sem kalla má hefðbundnar gotneskar bókmenntir.

Þegar líða tók á 19. öld kom fram hin viktoríanska gotneska saga. Á margan hátt er það tímabil mjög áhugavert. Þar var hnignunina ekki lengur að finna sjónrænt eða áþreifanlega, eins og í rykugum kastölum eða húsarústum, heldur varð hún sálrænni og persónulegri. Meðal höfunda sem komu fram voru Edgar Allan Poe, Brönte systur, Ambrose Pierce, Rober Louis Stevenson og Bram Stoker, en Drakúla er líklega ein þekktasta gotneska saga allra tíma. Fall Usher ættarinnar (Fall of House Usher) þykir einnig enn þann dag í dag með merkilegri smásögum sem skrifaðar hafa verið. Auk þessara höfunda mætti benda á að gotnesk áhrif var að finna í skrifum margra höfunda á þessum tíma, t.d. Charles Dickens og Nikolaj Gogol.

Á 20. öld kom loks fram póst-viktoríanska gotneska sagan. Þar er hin sálræna hnignun vissulega enn til staðar, kastalarnir eru ekki lengur til staðar en þess í stað myrk háhýsi stórborga, yfirgefin hús mitt í stórum íbúðahverfum. Hið frumstæða, barbaríska, er enn til staðar en bælt af samfélaginu. Margir höfundar hafa skrifað svona sögur; William Faulkner, Joyce Carol Oates, Alice Munro, H.P. Lovecraft, Robert Bloch og Margaret Atwood. Seinni tíma hrollvekjuhöfundar sækja auk þess margir í þennan brunn, t.d. Stephen King, Ann Rice og Peter Straub.

Íslenskar bókmenntir hafa ekki mikla hefð fyrir hrollvekjum eða gotneskum bókmenntum. Eftir því sem næst verður komist er fyrsta íslenska hrollvekjan eftir Vesturfarann Kristján Ásgeir Benediktsson, sem gaf út söguna „Holdsveikin“ í Eimreiðinni undir dulnefninu Snær Snæland árið 1897. Þórbergur Þórðarson þýddi nokkrar smásögur Poe og má flokka sumar sögur Þórbergs sem hrollvekjur. Einnig hafa sumar sögur Gunnars Gunnarssonar ákveðin einkenni gotneskra bókmennta, t.d. Sælir eru einfaldir. Um miðbik 20. aldar birtu mörg tímarit slíkar sögur, m.a. eftir höfundinn Halla Teits. Margir rithöfundar hafa spreytt sig á forminu, t.d. Ásta Sigurðardóttir og Þórir Bergsson.

Undanfarin ár hafa þó komið út nokkrar skáldsögur sem hafa verið hrollvekjur og jafnvel gotneskar. Sumar sögur Stefáns Mána innihalda mjög hrollvekjandi þætti, t.d. Skipið. Hið sama gildir um sum verka Guðrúna Evu Mínervudóttur, Gyrðis Elíasarsonar, Sjóns, Gerði Kristnýju og Svövu Jakobs. Jökull Valsson skrifaði Börnin í Húmdölum, sem kom út fyrir nokkrum árum. Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur verður varla talin annað en hrollvekja. Nú um jólin kemur svo út skáldsagan Hálendið eftir Steinar Braga, sem sögð er sálfræðilega hrollvekja.


Íslenskar fantasíur

Fyrir skemmstu kom út bókin Meistari hinna blindu eftir Elí Freysson en það er Sögur útgáfa sem gefa bókina út. Ekki er ætlunin að fjalla sérstaklega um þá bók, en þó er gaman að sjá svo veglega útgáfu á sögu sem flokkast sem fantasía. Eins er ekki markmiðið að gagnrýna bókina á einn eða annan hátt, heldur langar mig að velta vöngum yfir svolitlu öðru sem þó tengist bókinni, þ.e. forminu og hvort þetta sé fyrsta íslenska fantasían í sinni nútímalegu mynd. Ég fór því aðeins að velta fyrir mér íslensku fantasíunni.

Fantasíubókmenntir fjalla um það sem getur ekki gerst, hefur ekki gerst og mun (líklega) aldrei geta gerst. Flakk á milli heima, sögusvið er annar eða hliðstæður heimur, atburðir gerast sem eru ekki mögulegir. Þannig mætti skilgreina mjög margar bækur sem fantasíur, væri þessi skilgreining túlkuð mjög vítt. Þannig mætti kalla síðklassískar Íslendingasögur margar hverjar fantasíur, t.d. Grettis saga Ásmundssonar. Þar er að finna mjög fantasíukennda atburði, baráttu við drauga o.s.frv. og sterka skáldskaparvitund.Þó er það ekki fantasía þar sem formið sem slíkt varð ekki til fyrr en á rómantíska tímabilinu. Einnig hljótum við líka að skoða hvort tilgangur höfundar hafi verið að skapa fantasíu. Út frá þessum rökum er hægt að líta framhjá t.d. bókum Gunnars Gunnarssonar sem gerast í hliðstæðum veruleika og jafnvel með fantasíukenndum atburðum, þ.e. sögusviðið er ekki raunverulegt heldur hliðstæður heimur.

Í dag horfa flestir til þess, þegar fjallað er um fantasíur, um hvað viðkomandi saga fjallar. Tilkoma Tolkien, Lewis og fleiri höfunda á fyrri hluta 20. aldar setti bókmenntaforminu ákveðin mörk og fjalla margar fantasíur um álíka efni og bækur þessara höfunda, þ.e. um hetjur sem ríða um héruð, vopnaðar sverðum og göldrum og berjast gegn hinu illa. Í sögunum gerist eitthvað sem ævintýra- eða goðsagnakennt, t.d. goðsagnaverur á borð við dreka eða álfa, galdrar og seiðskrattar, og allt vekur þetta furðu og áhuga sögupersóna. Í Tolkiensku fantasíunni, high-fantasy, voru álfar, dvergar, drýslar og hvað eina, en því fer fjarri að hann hafi riðið á vaðið með slíkar sögur, þó svo oft standi Hringadróttinssaga upp úr sem FANTASÍAN þegar fjallað er um slíkar bókmenntir, t.d. voru sögur Robert E. Howard um Conan löngu orðnar þekktar.

George R. R. Martin, Robert Jordan og fleiri álíka höfundar hafa síðan fært þetta form upp á annað plan, sérstaklega sá fyrstnefndi með sögubálki sínum Song of Ice and Fire, sem sjónvarpsþættirnir Game of Thrones eru byggðir á. Í þeim getur verið erfitt að átta sig á hver er hetja og hver andhetja, þar sem allir róa á af kappi sömu mið, þ.e. að öðlast meiri völd. Í raun mætti segja að sú sería hafi brotist í gegnum hugmyndafæðina sem Lewis og Tolkien settu greininni. Einnig mætti týna til höfunda á borð við Terry Pratchett sem hafa skrifað sögur þar sem grín er gert að forminu og öllu snúið á haus.

Hérlendis hafa komið út þó nokkrar bækur sem flokka mætti sem fantasíur. Langflestar þeirra hafa verið skrifaðar fyrir börn en eru engu að síður fantasíur. Eftir því sem ég kemst næst eru bækurnar Fúfu og Fjallakrílin eftir Iðunni Steinsdóttur og Guðmundur Hreinn með gull í nögl eftir Véstein Lúðvíksson fyrstu fantasíurnar gefnar út hérlendis eftir íslenska höfunda. Báðar komu út 1983 og voru hugsaðar fyrir börn. Þó nokkrar slíkar hafa komið út síðan þá, þeirra þekktastar líklega Ert þú Blíðfinnur? eftir Þorvald Þorsteinsson og Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason. Einnig hafa komið út bækur sem eru hugsaðar fyrir eldri lesendur. Iðunn Steinsdóttir hefur skrifað nokkrar þeirra, t.d. Galdur vísdómsbókarinnar sem kom út 2004. Einnig vann þess háttar saga til verðlauna sama ár, Sverðberinn eftir Ragnheiði Gestsdóttur, en það er klassísk milli-heima saga. Vilborg Davíðsdóttir skrifaði bækurnar Nornadóm og Við Urðabrunn sem komu báðar út á 10. áratuginum. Á síðasta ári kom sagan Saga eftirlifenda eftir Emil Hjörvar Petersen. Ekki leikur nokkur vafi á þar er fantasía á ferðinni, þó svo sagan hafi ekki verið markaðssett með þeim hætti. Hins vegar er þar á ferð nútímafantasía þar sem fléttað var saman nútíma og goðsögum, eflaust fyrsta nútímafantasían.

Hér eru dæmi um íslenskar fantasíur (fengið af vef Íslenskuskólans):

Dæmi um íslenskar fantasíur

 • Iðunn Steinsdóttir  Fúfu og fjallakrílin.
 • Vésteinn Lúðvíksson  Guðmundur Hreinn með gull í nögl. 
 • Guðrún Helgadóttir  Gunnhildur og Glói.
 • Heiður Baldursdóttir  Álagadalurinn.
 • Iðunn Steinsdóttir  Drekasaga.
 • Iðunn Steinsdóttir  Gegnum þyrnigerðið.
 • Iðunn Steinsdótir  Þokugaldur.
 • Vigdís Grímsdóttir  Gauti vinur minn.
 • Andri Snær Magnason   Sagan af bláa hnettinum.
 • Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson Brúin yfir Dimmu.
 • Þorvaldur Þorsteinsson  Ert þú Blíðfinnur? : ég er með mikilvæg skilaboð.
 • Elías Snæland Jónsson  Drekagaldur. .
 • Herdís Egilsdóttir Dularfulla dagatalið.
 • Iðunn Steinsdóttir Galdur vísdómsbókarinnar.
 • Ragnheiður Gestsdóttir   Sverðberinn.
 • Þorvaldur Þorsteinsson  Blíðfinnur og svörtu teningarnir : lokaorustan.
 • Þórarinn Leifsson Bókasafn Ömmu Huldar
 • Harpa Dís Hákonardóttir Galdrasteinninn
 • Gunnar Theódór Eggertsson Steindýrin
 • Sigrún Eldjárn Eyjubækurnar
 • Elí Freysson Meistari hinna blindu
 • Rósa Grímsdóttir Lína Descret

Ágætt er að átta sig á að munur er á fantasíum í sinni nútímalegustu mynd og nútímafantasíum.  Nútímafantasíur gerast á sögutíma okkar (hetjurnar ríða ekki um hestum, heldur keyrum á bílum eða fljúga á loftskipum eða flugvélum) en þar sem ævintýra- og goðsagnaverur eru til ásamt göldrum og öllu því sem þeim fylgir. Þannig er Saga eftirlifenda mun frekar nútímafantasía en Meistari hinna blindu. Harry Potter sögurnar og þríleikur Philip Pullmans eru einnig dæmi um nútímafantasíur. Sem sagt, í nútímafantasíunni renna saman okkar heimur og fantasían.

Í raun ef ég ætti að líkja Meistaranum við einhverja af Post-Tolkiensku fantasíunum myndi ég benda á þríleik Donaldsson, The Chronicle of Thomas Covenant, fyrir utan að mér finnst þar meira kafað ofan í aðalpersónuna, þ.e. dekkri hliðar aðalpersónunnar eru sýnilegri.

Hvernig sem á það er litið, þá er gaman að útgefendur skuli vera opna augun fyrir þessu formi sem bókmenntagrein sem fullorðnir hafa einnig gaman að.


Ný rafbók

Nýjasta rafbók okkar inniheldur tvær sögur eftir H. P. Lovecraft. Annars vegar er það sagan Kettirnir í Ulthar, en Lovecraft sjálfur hélt mjög upp á þá sögu. Hún var skrifuð í júní 1920 og fjallar um atburði sem gerast í ímynduðum heimi, í þorpi sem heitir Ulthar. Á þessum tíma var Lovecraft mjög undir áhrifum írska rithöfundarins Lord Dunsanny og telja margir bókmenntafræðingar sig sjá skýr tengsl við sögur hans í skrifum Lovecrafts frá þessum tíma. Segir sagan frá því þegar undarleg vagnalest kemur til þorpsins Ulthar og ástæðu þess að lög gegn kattadrápum voru sett þar.

Seinni sagan heitir Hinir guðirnir og gerist í sama heimi og Kettirnir frá Ulthar. Hún var skrifuð í ágúst 1921 og segir frá Barzai hinum vísa, en hann þráði mjög að berja guðina augum. Hann leggur því í ferðalag og fjallgöngu en hún á eftir að hafa skelfilegar afleiðingar. Í þessari sögu kemur fyrst fyrir fjallið Kadath, en frá því er sagt í sögunni The Dream-Quest for Unknown Kadath. 

Í báðum þessum sögum kemur fyrir sama aukapersónan, Atal, en hann kemur einnig fyrir í síðastnefndu sögunni. Atal þessi er lítill drengur í Kettirnir í Ulthar en er að lærisveinn Barzais í seinni sögunni. Í The Dream-Quest of Unknown Kadath er hann orðinn æðstiprestur, 300 ára gamall og vís eftir því, og leiðbeinir Randolph Carter í leit sinni að guðunum.

Allar þessar sögur gerast, eins og áður segir, í ímynduðum heimi Lovecrafts, hinum svokölluðu Draumlöndum (e. Dreamlands). Hann skrifaði þó nokkrar sögur sem gerast í þessum heimi, t.d. Celephais og The Doom that came to Sarnath, en skv. sumum sögum átti að vera hægt að komast til þessa heims í draumum sínum. Eftir því sem næst verður komist koma Draumlöndin fyrir í 28 sögum eftir Lovecraft, hvort sem vísað er til þeirra eða sögusviðið er þar.

Smelltu hér til að lesa Kettirnir í Ulthar og Hinir guðirnir. 


Drakúla

Forsíða 1. útgáfu

Eins og flestir hrollvekjuunnendur vita, þá er gjarnan talað um hinar þrjár stóru sögur; Frankenstein, Dr. Jekyll & Mr. Hyde og loks Drakúla. Sú síðastnefnda hefur verið margendurútgefin og er jafnan sagt að allt frá fyrstu útgáfu hennar, árið 1897, hafi hún alltaf verið til í prenti, jafnvel margar útgáfur á sama tíma. Sagan kynnir til söguna líklega einhvern eftirminnilegasta erkifjanda bókmenntasögunnar, vampíruna Drakúla greifa, og hvernig hann reynir að komast til Englands og baráttu nokkurra einstaklinga gegn fyrirætlunum hans. Sagan hefur verið sett í marga bókmenntaflokka; vampírusögur, hrollvekja, gotneskur hryllingur og innrásarskáldskapur. Sagan er sögð í dagbókarstíl; þ.e. við lesum dagbókarfærslur, bréfaskipti, dagblaðafréttir og þess háttar; en aðeins þá hetjanna og kynnumst því greifanum í gegnum frásögn og upplifun þeirra.

Drakúla er þó langt frá því fyrsta bókin sinnar tegundar, þó vissulega hafi hún hlotið hvað mesta hylli. Sheridan La Fanu skrifaði Carmilla 1871, J.M. Rymer um Varney the vampire eitthvað fyrr og síðast en ekki síst, John Polidori skrifaði The Vampyre 1819 (hann dvaldi einmitt með Mary Shelley, Lord Byron og Percy Shelley sumarið 1816 og skrifaði þá sögu á sama tíma og M. Shelley skrifaði Frankenstein, en þau fjögur voru í keppni um hver gæti skrifað bestu hrollvekjuna). Líklega hefur The Vampyre haft mest áhrif á hvernig persóna Dracula þróaðist, þ.e. er af aðalsættum en einnig er talið að fyrrum yfirmaður Stokers hjá Lyceum leikhúsinu í London sé fyrirmynd greifans.

Stoker eyddi mörgum árum í að skrifa þessa sögu og alla þá rannsóknarvinnu sem hann lagði í verkið. Í gegnum þá vinnu heyrði hann sögu Vlad Tepes II. Vlad þessi var af aðalsættum og bjó í Wallachia. Árið 1431 var hann tekinn inn í Reglu Drekans og tók þá upp nafnið Dracul. Sonur hans, Vlad III, tók upp nafnið Dracula (sem þýðir sonur drekans) og fór það orð af Vlad III að hann þótti einstaklega grimmlyndur og lét jafnan stjaksetja óvini sína. Fékk hann því viðurnefnið Stjaksetjarinn.

Þegar bókin kom fyrst út varð hún ekki samstundis metsölubók, ekkert frekar en margar af þeim bókum sem við þekkjum í dag sem slíkar (t.d. Harry Potter). Gagnrýnendur voru þó yfir sig hrifnir og settu bókina samstundir á stall með helstu verkum Poe, Emily Brunte og Mary Shelley. Það er í raun ekki fyrr en á 20. öld, sér í lagi eftir að kvikmyndir ryðja sér til rúms, að sagan fer að njóta mikilla vinsælda. Eflaust má rekja það til þess hversu gríðarlega margar tilraunir hafa verið gerðar til að koma sögunni í kvikmyndaform. Misvel hefur það þó tekist upp og oftar hefur persónan Drakúla verið notuð, en sögunni endilega fylgt. Francis Ford Coppola gerði það þó á 10. áratug 20. aldar, lék Gary Oldman þá Drakúla greifa. Sá leikari sem hefur þó oftast leikið illmennið Drakúla er líklega Christopher Lee, en hann lék greifann í myndaflokki Hammer Horror fyrirtækisins.

Sagan er þó enn jafn sterk í dag og hún var fyrir góðri öld, þegar hún kom fyrst út. Barátta van Helsings og Jonathan Harkers við vampíruna er áhugaverð og skemmtileg lesning, svo ekki sé nú minnst á spennandi.


Ertu rithöfundur?

Ritstjórnarteymi Rúnatýs vinnur um þessar mundir við að lesa yfir handrit sem senda hafa verið inn til útgáfunnar. Nú þegar er hafin vinna við að ritstýra nokkrum verkum, þ. á m. hrollvekju, vísindaskáldsögum og fantasíum, ásamt því að unnið er að tveimur þýðingum. Verið er að vinna að útgáfulista næsta árs og verður tekið við handritum allt fram til 1. nóvember nk. Hægt er að senda inn handrit á netfangið runatyr_hjá_runatyr.is


Myrkfælni

Nýtt íslenskt hrollvekjusafn hefur litið dagsins ljós. Bókin Myrkfælni hefur að geyma ellefu stuttar hrollvekjur sem allar fá hárin til að rísa. Sögurnar eru mjög ólíkar, allt frá þjóðsagnakenndum ævintýrum að fantasíum.

Eins og segir á kápu bókarinnar þá er „Myrkfælni smásagnasafn sem hefur að geyma ellefu hrollvekjur þar sem lesendur rekast á ýmsar furður og fólk, jafnt úr fortíð sem nútíð. Sumt má útskýra, annað ekki. Draugar og hvers kyns óvættir birtast mönnum, leiða þá á villgötur og vekja óhug.“ Þó svo allar sögurnar séu hrollvekjur er þær afar ólíkar, allt frá því að hafa nánast þjóðsagnakenndan ævintýrablæ að því að teljast hreinræktaðar fantasíur.

Myrkfælni er fyrsta bók höfundarins Þorsteins Mars sem þó hefur fengið þónokkrar sögur birtar í tímaritum á undanförnum árum. „Ég hef lengi gengið með þennan draum í maganum og reynt að koma skrifum mínum á framfæri,“ segir Þorsteinn. „Hrollvekjur hafa ekki fengið mikla athygli hér á landi og mér fannst kominn tími til að bæta úr því. Ég hef sjálfur mjög gaman af hrollvekjum, og þá ekki síður að lesa þær en skrifa.“ Hann einskorðar sig þó ekki við þess lags bókmenntir og má nefna að hann bar sigur úr býtum í ástarsagnakeppni Vikunnar síðasta sumar, með sögunni Rósu.

Þorsteinn Mar er 33 ára gamall. Hann er menntaður íslenskufræðingur og kennari og starfaði sem slíkur um nokkurst skeið. Undanfarin ár hefur hann hins vegar sinnt starfi vefstjóra hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni.

Myrkfælni er gefin út af nýrri útgáfu, Rúnatý. Þar er ætlunin að leggja áherslu á útgáfu bókmennta sem alla jafna hafa lítið sést hérlendis. Einkum er um að ræða hrollvekjur, fantasíur og vísindaskáldsögur, svokallaðar genre bókmentir. Þess má geta að Rúnatýr merkir guð rúnanna, eða sá sem valdið hefur yfir rúnum, sem verður að teljast skemmtilegt nafn á bókaútgáfu.