Monthly Archives: November 2011

Ný rafbók

Nýverið settum við nýja rafbók á vefinn okkar. Þar eru á ferðinni tvær smásögur eftir þá Jóhann Þórsson og Kjartan Yngva Björnsson, báðar stórgóðar.

Fyrri sagan, Epli Iðunnar, er urban fantasía, þar sem goðafræði rennur saman við nútímalegar aðstæður. Sagan segir frá tveimur rannsakendum á vegum Fimbulversla, sem er sérstök stofnun og sér um að rannsaka það sem myndi flokkast sem yfirnáttúruleg fyrirbæri. Ekki er allt sem sýnist og kemur endirinn á óvart. Sagan er spennandi allt frá upphafi til enda og er sögusviðið einnig skemmtilegt. Jóhann er 33 ára gamall, faðir búsettur í Kópavogi en hefur í gegnum tíðina búið víðsvegar um heiminn. Hann skrifar smásögur bæði á ensku og íslensku og hafa nokkrar þeirra birst í blöðum hérlendis. Einnig hefur hann fengið birtar sögur á erlendum vefsíðum, t.d. á everydayfiction.com .

Seinni sagan, Hylur, er öllu óhugnanlegri. Segir þar frá manni sem þarf að kljást við fortíð sína. Í senn er sagan draumkennd og hrollvekjandi, er óhætt að segja að manni renni kalt vatn milli skinns og hörunds við lestur hennar. Kjartan er 27 ára meistaranemi í bókmenntafræði.

Góða skemmtun!

Smelltu hér til að skoða rafbækur Rúnatýs. 


Hvers vegna valdirðu þessa bók?

Við Íslendingar erum með svolítið sérstaka útgáfumenningu. Við stærrum okkur jafnan að því hversu mikil bókaþjóð við erum og miðað við hina sívinsælu höfðatölu gefum við út svo og svo margar bækur per haus. Margfaldast sala bóka um hver jól og er eins og stór hluti þjóðarinnar hafi ekki áttað sig á að bókabúðir séu opnar árið um kring. Hins vegar þegar við skoðum nánar út á hvað jólabókamarkaðurinn gengur, þá virðast flestir ekki vera kaupa bækur handa sjálfum sér, heldur sem jólagjafir. Og því hlýtur sú spurning að vakna, hvað stjórnar því hvað við lesum?

Metsölulistar

Birting metsölulista hlýtur að hafa áhrif. Margir lesendur vilja lesa það sem aðrir hafa lesið og bækur sem eru í umræðunni. Metsölulistar eru þannig mótandi fyrir áframhaldandi sölu þeirra bóka sem þangað rata. Hins vegar segir sala bókar ekkert til um gæði hennar, heldur aðeins um hvernig sala hennar hefur verið. Margar útgáfur nýta sér þessa staðreynd í markaðssetningu sinni, því þær auglýsa að bók sé í þessu eða hinu sæti á metsölulistum.

Gagnrýni

Neytendur líta oft til þess hvernig bók hefur verið gagnrýnd. Þannig getur þáttu eins og Kiljan eða bókmenntarýni í blöðum og öðrum miðlum haft afgerandi áhrif á sölu bókar. Við treystum því að þeir sem gagnrýna bækur hafi til þess þekkingu og viti um hvað þeir eru að tala. Hins vegar er ekki jafn oft fjallað um gagnrýnendurna sjálfa, hvaða fyrirfram mótuðu skoðanir þeir hafa. Þó hefur sú umræða komið upp nú þetta haustið og þá sérstaklega með tilliti til Páls og Bergþóru í Kiljunni. Gott er að hafa í huga að stjörnugjöf sú sem finna má í blöðum, birta skoðanir gagnrýnenda fyrst og fremst. Ekki má heldur gleyma að gagnrýnendur hafa mjög oft hagsmuna að gæta, stórar útgáfur eru oft öflugir auglýsingakaupendur hjá þeim miðlum þar sem gagnrýnendurnir starfa. Líklega er því best að treysta á algjörlega óháðar umfjallanir sem finna má m.a. á netinu, t.d. Druslubækur og doðrantar eða stjörnugjöf í vefverslun Eymundssonar.

Með hverju mæla fjölskylda, vinir og kunningjar?

Líklega er þetta einn öflugasti hvati til lestrar. Mæli einhver nákominn manni með bók, aukast jú líkurnar á því að maður lesi viðkomandi verk. Við treystum jú þessu fólki best og það ætti að vita hvers lags bókmenntir við viljum lesa. Vinir hafa oft svipaðan smekk og maður sjálfur og því getur það eitt að fá að vita hvaða bækur eru á náttborði viðkomandi haft áhrif á hvaða bækur maður sjálfur velur að lesa.

Framstilling og útlit

Þegar við erum að kaupa bækur þá skiptir vissulega framstilling máli sem og útlit. Við dæmum mjög oft bækur út frá kápunni. Við hjá Rúnatý fórum mjög sérstaka leið við hönnun á kápu Myrkfælni, höfum hana einfaldlega kolsvarta með hvítum stöfum. Hafði það áhrif á söluna? Eflaust hafa einhverjir dæmt bókina út frá kápunni, sem og hvar hún var í hillu og hvort mörg eintök af henni voru til. Allt hefur þetta áhrif. Eins þegar fram líða stundir og bókin stendur í bókahillunni.

Gjafir

Um jólin fá flestir að minnsta kosti eina bók í jólagjöf. Það eitt og sér er stýrandi í sjálfu sér, því ekki er ólíklegt að maður sé spurður um hvernig manni hafi þótt viðkomandi bók.

Bókaflokkar, bókmenntagreinar, höfundar

Margir legga það á sig að lesa heilu bókaflokkanna, t.d. Ísfólkið. Þannig kallar ný bók í flokknum á það að vera lesin. Eins hafa bókmenntagreinar áhrif, sumir keppast við að vera sem víðlesnastir í ákveðinni bókmenntagrein. Hið sama gildir um höfunda.

Verðlaun

Við tökum alltaf eftir því ef bók fær verðlaun. Einhverra hluta vegna eiga þau að vera staðfesting á gæði skáldverka. Í raun endurspegla verðlaun oftar en ekki mikið meira en gildismat þeirra sem sátu í dómnefnd. Þannig er oft lítill munur á þeim sögum sem koma til greina sem sigurvegarar í slíkum keppnum, enda bókmenntir þannig úr garði gerðar að þegar allt kemur til alls þá stýrir huglægt mat vali okkar.

Auðvitað er þetta ekki tæmandi upptalning. Hins vegar er ágætt að hafa þetta í huga. Sérstaklega í ljósi þess að það eru margar útgáfur sem eru að reyna brjótast undan oki jólabókaflóðsins. Hvað er það sem stýrir því hvað þú lest?


Mörk skáldskapar

Í umfjöllun um nýútkomna bók Hallgríms Helgasonar, Konan við 1000°, hefur verið bent á að nær allir þeir atburði sem gerast í sögunni eigi sér stoð í raunveruleikanum. Hið eina sem ekki sem ekki sé í raun sagnfræði er annars vegar nafn aðalpersónunnar og feðrun annarrar persónu, en jafnvel allar aukapersónur bera sama nafn og í raunveruleikanum. Ekki er langt síðan svipuð bók kom út, Enn er morgun, eftir Böðvar Guðmundsson en sú skáldsaga var byggð á ævi fyrrverandi eiginkonu hans, Helgu Kress. Báðar sögurnar eru ágætlega stílaðar og er ekki markmiðið að gagnrýna þær sérstaklega eða skoða.

Það sem óneitanlega kemur hins vegar upp í hugann er hvar mörk skáldskaparins liggja. Nægir að höfundur kalli verk sitt skáldsögu? Er nóg að breyta einu, tveimur nöfnum?

Í bandarískum kvikmyndum er hefðin sú að láta áhorfendur vita í upphafi að saga tiltekinna kvikmynda er byggð á sönnum atburðum. Ættu rithöfundar að gera slíkt hið sama eða myndi það draga úr listinni?

Við Íslendingar eigum okkur langa hefð ritunar samtíma- og ættarsagna. Í raun höfum við verið að segja slíkar sögur allt frá landnámi og þegar við tökum að skrifa sögur á skinn þá eru þær sem eru helst skráðar. Við höfum Íslendingasögurnar, sögur af biskupum og samtímasögur. Hugmyndir okkar um Sturlungaöldina væru líklega mjög ólíkar þeim sem við höfum í dag ef ekki væri fyrir Íslendingasögu Sturlu Þórðarssonar. Þegar líða tók á seinni hluta þess tímabils þegar verið var að skrifa Íslendingasögur fóru ritarar smátt og smátt að skálda meira og hefur verið sýnt fram á að töluverð skáldskaparhneigð sé að finna í t.d. Grettlu og Hávarðar sögu Ísfirðings. Sem sagt, skáldskapur var orðinn hluti af sögunum og fyrir vikið lítum við örlítið öðrum augum á þær sögur sem voru skrifaðar á þeim tíma.

Sögulegar skáldsögur hafa verið skrifaðar alla 20. öld, þar sem stuðst er við sögulega atburði, t.d. hafa Einar Kárason og Ólafur Gunnarsson báðar skrifað frábærar þess háttar sögur. Einar Már hefur skrifað sögu fjölskyldu sinnar í nokkrum bókum, þar ríst eflaust hæst Englar alheimsins, þar sem hann nýtir þekkta atburði og skáldar í kringum þá. Mörkin er því ekki ljós, hvar skáldskapurinn hefst og sagnfræðinni lýkur. Hins vegar hljótum við að staldra við þegar hið skáldlega er gott sem þurrkað út en þó er viðkomandi verk kynnt sem skáldsaga. Er verið að ögra lesendum eða vernda þá sem fjallað er um í bókinni? Myndum við kalla ljósmynd sem búið væri að mála lítið gult strik í eitt horn málverk?

Líklega skiptir þetta lesendur ekki öllu máli hvort útgefendur flokki eitthvað verk með ákveðnum hætti svo lengi sem þeir hafa gaman af lestrinum.

 


Sögumaður

Í gærdag átti ég í mjög áhugaverðum samræðum við nokkra einstaklinga um hvort kyn sögumanns skipti máli í frásögnum. Komu fram margar ágætar hugleiðingar og rök um efnið. Var bent á margar skáldsögur og sumar hverjar ræddar sérstaklega og sýndist sitt hverjum.

Sögumaður vs. höfundur

Sögumaður í epík, og jafnvel lyrík einnig, er í raun ímynduð persóna. Allir sem setjast niður og skrifa búa sér til sögumann, einhvers konar frásagnarrödd, sem virkar á margan hátt eins og sía á frásögnina. Sögumaður stýrir því hvernig sagt er frá atburðum, frá hvaða atburðum er sagt og með hvaða hætti frásögnin er, t.d. eru sögumenn Íslendingasagna yfirleitt hlutlægir og halda sér til hlés á meðan margir sögumenn 20. aldar voru hlutdrægir, nálægir og ágengir við lesendur. Þannig getur höfundur ákveðið að sögumaður sé með guðdómlega sýn á atburðina, sjái og lesi hugsanir persóna og hafi almennt alla þá þekkingu á því sem frásögnin fjallar um eða hann getur takmarkað vitneskjuna, jafnvel sett sögumann í miðja frásögnina, þá sem þátttakanda, hvort sem um aðalpersónu eða aukapersónu er að ræða. Þessi sjónarhorn sögumanns eru vel þekkt og hefur m.a. Njörður P. Njarðvík fjallað um þau í bók sinni Saga, leikrit, ljóð.

Sögumaður þarf ekki endilega að vera höfundur. Það er sérstaklega augljóst í sögum þar sem um 1p. frásögn er að ræða. Þá er alveg ljóst frá upphafi hver sögumaður er, við fáum upplýsingar um kyn, stöðu, hugleiðingar osfrv. og getum lagt mat á allt saman. Fyrir vikið er oft auðveldara að meta trúverðugleika sögumanns í þess háttar sögum. Í sögum þar sem notast er við 3p. sjónarhorn er það flóknara. Þar er sögumaður oft ekki sýnilegur og erfiðara að meta af hvoru kyni, hver staða hans sé og hvort hugleiðingar hans og framsetning sé rétt, ef svo mætti að orði komast, t.d. hvort þeir atburðir sem valdir voru til frásagnar gefi rétta mynd af því sem gerðist eða á að hafa gerst.

Svo geta sögur haft fleiri en einn sögumann, sérstaklega þegar sögur verða marglaga. Hins vegar verður maður að gæta að því að þar stjórnar fyrsti sögumaður í raun því sem kemur fram hjá öðrum sögumanni, t.d. getur hann ákveðið að birta orðrétt frásögn að hluta en endursegja aðra þætti og þá með eigin áherslum.

Annað sem stýrir mjög hvernig sögumann höfundur kýs er hinn ímyndaði lesandi. Allir sögumenn tala til ákveðins lesanda eða lesandahóps, sem er af ákveðnum aldri, jafnvel ákveðnum þroska, kominn með ákveðna stöðu í samfélaginu, ákveðna menntun og ákveðið kyn.

Skiptir þetta máli?

Auðvitað skiptir sögumaður máli. Það getur breytt sögu heilmikið hvort sögumaður haldi sig til hlés og leyfi lesandanum að draga sínar eigin ályktanir, eða hvort hann er sífellt að leggja eigin dóm á það sem kemur fram í sögunni og reyni þannig að hafa áhrif á lesandann. Þannig getur samúð sögumanns með einni persónu haft mikil áhrif á það hvernig lesandi upplifir viðkomandi persónu, t.d. ef sögumaður í Dýrasögu eftir Ástu Sigurðardóttur hefði samúð með föðurnum vegna þess hve barnið er óþægt og vitlaust, þá væri þar allt önnur saga á ferðinni.

Skiptir kyn sögumanns máli? Af hverju ætti það ekki að skipta máli? Eru sögumenn nokkurn tíma kynlausir? Ég held að höfundar, hvort sem þeir gera það meðvitað eða ómeðvitað, þá setja þeir ákveðin kynbundin formerki á sögumenn skáldverka sinna. Það er kannski ekki alltaf augljóst, sérstaklega í 3p. frásögnum. Flestir lesendur gefa kannski lítinn gaum að því þegar sögumaður er þeim að skapi eða skoðanir hans stangast ekki á við upplifun þeirra. Í sögunni Sælir eru einfaldir eftir Gunnar Gunnarsson er sögumaður þátttakandi í atburðarrásinni, þ.e. 1p frásögn en hann hefur samt ekki áhrif á hana, þar sem hann er aukapersóna. Hann leggur eigið gildismat ítrekað á þá atburði sem eru að gerast en síðan kemur á daginn að allt það sem hann hafði lagt upp með, allt það sem hann áleit traust og hafið yfir gagnrýni, hrynur til grunna. Lesendur er hins vegar líklega flesta farið að gruna hvernig muni fara að lokum löngu áður en sögumaður áttar sig á því.

Þar sem sögumenn teyma lesendur í gegnum frásögnina, þá hlýtur að skipta máli hvert sjónarhorn okkar er, hvers gildismat er lagt á atburði og hvernig valið er að segja frá atburðum, sem og hvernig þeir atburðir eru valdir, t.d. ef við höldum okkur við Dýrasögu og lesendum hefði verið sagt frá þó nokkrum skiptum þar sem barnið óhlýðnast föðurnum, þá hefði það enn og aftur breytt upplifun okkar af sögunni, samúðin með barninu hefði ekki verið jafn mikil eða ekki jafn sjálfsögð, hvað þá ef sögumaður hefði látið sem hegðun föðursins væri eðlileg refsing barnsins.

Eins og áður segir, þá stýrir hinn ímyndaði lesandi því einnig hvernig sögumaður er. Í auglýsingum er oft reynt að hafa sögumenn af svipuðu toga og sá markhópur sem á að ná til, vegna þess að það hefur sýnt sig að virka. Hið sama gildir í öðrum frásögnum. Ef við skoðum t.d. Twilight bækurnar (nú mun eflaust einhvern hengja mig fyrir að nefna þær), þá höfða þær mjög vel til stelpna á ákveðnum aldri, því aðalpersóna þeirra (sem er sögumaður) talar mjög til þeirra og þær geta þannig auðveldlega sett sig í hennar spor.

Geta höfundar búið til sögumenn af sér gagnstæðu kyni?

Fyrir skemmstu átti ég í samræðum við unga konu háttsetta innan Sjálfstæðisflokksins, þar sem við ræddum um hvort karlmenn gætu komið fram með sjónarmið kvenna og öfugt. Hún var þeirrar skoðunar að karlar gætu ekki komið með kvenleg sjónarmið í samfélagslegum umræðum. Í umræðunni í gær nefndi einn þátttakandi að sér hefði verið sagt að konur ættu auðveldara með að sjá heiminn með augum karlmanna en karlar að sjá hann með augum kvenmanna.

Þetta vekur mig til umhugsunar, því ef svo er, getum við höfundar þá búið okkur til sögumenn af gagnstæðu kyni? Sérstaklega við sem erum karlkyns?

Ég held að þarna komi tvennt til. Annars vegar hversu fær höfundur er (eins og Alexander Dan benti á í gær), því færari sem höfundur er því betri og trúverðugari sögumenn skapar hann. Á því leikur enginn vafi. En lesandinn skiptir líka máli. Hann þarf að sannfæra sjálfan sig um að þetta kynflakk gangi upp, t.d. höfðu útgefendur Harry Potter upphaflega áhyggjur af því að ungir drengir myndu ekki vilja lesa þær sögur af því að höfundur bar of kvenlegt nafn (Joanne Rowling) og báðu því um að höfundarnafninu væri breytt (J.K. Rowling) í kynlausara eða karllægara nafn.

 


Bókaþjóðin mikla

Við Íslendingar teljum okkur trú um að við séum mikil bókaþjóð, enda blundar rithöfundur í að minnsta kosti hálfri þjóðinni. Svona meira eða minna. Hins vegar kemst ég ekki hjá því stundum að hugsa um hversu mikið þessi ágæta þjóð les í raun og veru, og þá sérstaklega þær kynslóðir sem eru að vaxa nú úr grasi. Auðvitað eru einhverjar bókmenntir, valdar af kostgæfni sem aðeins gæðir bókmennta- og íslenskufræðinga, lesnar í grunn- og menntaskólum, en bók sem þú lest af skyldurækni, er hún jafn ítarlega lesin og bók sem þú velur þér sjálfur eða þér einfaldlega finnst þú þurfa að lesa? Er kannski formið, þ.e. prentuð bók, að deyja og mun nýtt form rafbóka og netbóka taka yfir?

Ég hef nefnilega á tilfinningunni að lestur bóka fari minnkandi, hef reyndar ekkert fyrir mér í þeim efnum, engar sölutölur eða þannig (enda er vart hægt að segja að seld bók sé lesin bók). Ástæðan fyrir þessari upplifun, tilgátu eða hvað menn vilja kalla það, er tvíþætt. Annars vegar er sú hneigð fjölmiðla að matreiða hlutina sífellt einfaldar og knappar, helst þannig að hægt sé að segja fréttir í 140 stafabilum (sem mér skilst að sé meðal SMS lengd og passar á twitter) og hins vegar sú, eftir að hafa starfað sem kennari í grunnskóla í nokkur ár, þá sýnist mér tilfinning fólks fyrir texta fara versnandi. Og það sem verra er, ekki bara ungs fólks, heldur líka þeirra sem eldri eru (ég undanskil ekki sjálfan mig).

Ef við byrjum á fyrra atriðinu, þessari SMS hneigð, þá hafa samfélagsmiðlarnir fært okkur margt ágætt, en þar hafa líka orðið ákveðin vatnaskil er varða samskipti fólks. Nær allir af þessum nýju miðlum; SMS, Facebook, Twitter, osfrv.; eru með staðlaða lengd á skilaboðum, t.d. stöðuuppfærslum. Fyrir fólk sem er ekki endilega að skrifa mikið meira á hverjum degi, en þá texta sem það lætur inn á slíka vefi eða í smáskilaboð, þá mótast mjög hugsunin og tilfinningin fyrir texta af því. Sér í lagi, ef það er einnig þeir nær einu textarnir sem lesnir eru. Þetta er farið að birtast manni í ýmsum myndum, t.d. eru leiðbeiningar orðnar mjög knappar oft á tíðum. Sem dæmi mætti nefna leiðbeiningar með spilinu Alias, þar er sérstaklega haft fyrir því að setja fram leiðbeiningarnar í styttri útgáfu og mér sýnist að þær myndu passa nokkurn veginn inn í Facebook status, eins undarlega og það hljómar. Ef framleiðendur þessa spils hefðu gengið út frá því, að tilvonandi leikmenn myndu lesa reglurnar, þá væri engin þörf á þessari styttu útgáfu af reglunum. Þess má til gamans geta, að reglurnar, sem eru mjög einfaldar, rúmast á hálfri annarri A4 blaðsíðu. Hið sama gildir um leiðbeiningar með hugbúnaði, t.d. bandarískum hugbúnaði, og maður finnur á netinu. Textinn er knappur og mjög einfaldur. Það er sem sagt í raun verið að venja málnotendur á þess háttar texta.

Þá er það seinna atriðið (hér kemur stutt heimur-versnandi-fer raus). Tilfinning okkar fyrir málinu fer versnandi. Ég held að flestir geti verið sammála um, að kröfurnar um hraðan fréttaflutning, sífelldar uppfærslur og meira krassandi fréttaefni í upphrópanastíl geri það að verkum, að þeir sem skrifa inn á vefi og í tímarit gæta oft ekki að því, að það sem þeir skrifa sé málfræðilega rétt. Og þetta á ekkert bara við um fréttavefi eða tímarit. Þó margt megi segja ágætt um marga þá vefi er prófarkarlestri þar tilfinnanlega ábótavant. Orðatiltæki, málshættir og blæbrigði málsins eru einhvern veginn að hverfa ofan í pitt meðalmennsku og ég hef áhyggjur af því, ef fram heldur sem horfir muni vaxa upp kynslóðir Íslendinga sem hafa orðaforða upp á kannski 3000-4000 orð. Til dæmi hefur nokkuð verið rætt um á undanförnum misserum um það, hvort viðtengingarháttur sé að hverfa úr málinu. Hvernig ætlar kynslóð sem ekki hefur tök á viðtengingarhætti að lesa bókmenntir frá okkar tímum eða eldri?

Og hvað verður þá um bókaþjóðina miklu? Munu einstaklingar sem hafa afar fábreyttan orðaforða nenna að lesa bækur þar sem þeir skilja ekki þriðja hvert orð? Bækur þar sem þeim líður eins og þeir séu að lesa annað tungumál? Mig grunar nefnilega, að það sé upplifun margra unglinga í dag er þeir lesa Íslendingasögurnar, þrátt fyrir að orðaforði þeirra sagna sé frekar takmarkaður. Ég get ekki séð hvernig það sé jákvætt. Auðvitað þarf tungumálið að fá að þróast, auðvitað þarf það að fá að dafna og vaxa eftir því sem samfélagið breytist, en ég fæ ekki séð hvernig það getur verið góð þróun þegar við erum hætt að geta lesið bækur sökum skilningsleysis og skorts á orðaforða. Það hlýtur þá að hafa í för með sér að annað hvort verða bækur skrifaðar með þetta litlum orðaforða eða að ör- og smásögur verði ríkjandi form sagnalistarinnar.

Ég er kannski bara forn í hugsun eða svona gamaldags, en ég vil vernda íslensku. Mér finnst ég verða of oft var við áhrif frá ensku, jafnvel þó að verið sé að reyna halda sig við okkar ylhýra, þá skín ensk hugsun, jafnvel ensk máltæki, í gegn. Um daginn var ég að ræða við mann sem hafði verið að gelta upp í rangt tré. Í starfi mínu fæ ég alltof oft að sjá afleitar þýðingar á enskum slagorðum og sannast sagna, hryggir það mig að sjá hversu lítil tilfinning virðist sitja eftir hjá okkur fyrir tungumálinu okkar. Af þessum sökum hef ég áhyggjur, ég held að þetta sé ekki góð þróun. Mér finnst, að við ættum að gefa gaum að þeim breytingum sem eru að verða á tungumálinu og ef fram heldur sem horfir, þá munu barnabörn okkar hafa yfir mun fábreyttari orðaforða að skipa.

Ég held að til að tryggja að bækur séu enn lesnar þá þurfi útgefendur að fara hugsa á nýjan hátt. Ekki gengur lengur að einblína á hið prentaða form bókmennta, enda hefur komið á daginn að notkun og framleiðsla á hljóðbókum fer vaxandi. Eins fer þeim sífellt fjölgandi sem lesa rafbækur, enda er tilkoma spjaldtölva og snjallsíma upplagt tækifæri fyrir bókaútgefendur að ná til yngri markhópa. Hins vegar hefur eitthvað minna verið að gerast í þeim efnum, sem bæði má rekja til þess að Alþingi er nýbúið að samþykkja breytingar á lögum um skattlagningu rafbóka en eins skilst mér að ekki hafi legið fyrir samkomulag milli rithöfunda og forlaga um skiptingu tekna (endilega leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál).

Hugsanlega þarf að endurhugsa þetta allt frá grunni. Eftir því sem spjaldtölvum fer fjölgandi, þær verða ódýrari þá er í raun ekkert því til fyrirstöðu að við förum að sjá þær kröfur koma frá grunn- og framhaldsskólum að nemendur hafi aðgang að slíkum tækjum. Og af hverju ekki? Það er umhverfisvænna og ódýrara þegar á heildina er litið að beina nemendum í þá átt. Rafbækur eru að mínu mati framtíðin og hún er komin erlendis. Hvenær tökum við þátt í henni?