Monthly Archives: December 2011

2 nýjar rafbækur

Í tilefni jólanna ákváðum við að setja tvo kafla í bókum sem verið er að vinna að um þessar mundir. Annars vegar er um að ræða vísindaskáldsögu, sem Einar Leif Nielsen skrifar. Sagan er í anda film noir, minnir á Blade Runner en samt með sín séríslensku einkenni. Mjög spennandi verður að sjá hvernig sögunni vindur fram og vonandi fáum við að sjá þessa sögu á prenti.

Seinni sagan er fantasía, þar sem unnið er með gömlu norrænu goðafræðina. Sagan gerist í bæði Ásgarði og Miðgarði, teikn eru á lofti í Ásheimum um að Fimbulvetur sé í nánd og segir sagan frá nokkrum ungum hetjum sem takast á við þær breytingar. Sagan er ætluð ungum fullorðnum (e. young adult) og sækir í senn í heim klassískra fantasíusagna sem og Íslendinga- og fornsögur.

Birtast 1. kaflar beggja sagna. Endilega leyfið okkur að heyra hvað ykkur finnst.

Smellið hér til að sjá rafbækurnar.


Myrkfælni í jólapakkann

Okkur langar til að minna á hve góð jólagjöf bók er. Í raun er verið að gefa heilan heim út af fyrir sig og fátt betra á jólanótt en að sökkva sér ofan í góða bók. Hið sama gildir um smásögur, sem stundum er lítill gaumur veittur að. Að lesa góða smásögu er í engu síðra en að lesa góða skáldsögu og eflaust mætti gera meira af því að kynna þá bókmenntagrein betur, sérstaklega fyrir unglingum sem nenna kannski ekki að lesa þykkan doðrant. Myrkfælni er safn 11 hrollvekjandi smásagna, þar sem renna saman minni úr ýmsum þjóðsögum og wierd-fiction. Hið yfirnáttúrulega er ríkjandi í mörgum sögum og stutt í hrollinn. Bókin fæst í Hagkaupum og Eymundsson, kostar 2490 kr. en hana er að finna meðal kiljanna í báðum verslunum.

Úr umsögn Rithrings.is:
***
Þorsteinn Mar er hugmyndaríkur og efnilegur höfundur sem á framtíðina fyrir sér…Myrkfælni er fullkomin í sumarbústaðinn, sérstaklega þegar fer að hausta og dimma og mýsnar fara að reyna að koma sér aftur inn. Það má grípa í hana og lesa eina og eina sögu, og þar sem þær eru þeim mikla kosti gæddar að vera tímalausar á bókin eftir að eldast vel. Forðist bara að lesa hana ein.

JÞ/Rithringur

Úr umsögn á Bokmenntir.is:
 Í heildina séð varð ég ekki fyrir vonbrigðum…tekst Þorsteini hvað eftir annað að skapa verulega hrollvekjandi stemningu.
ÚD/Bokmenntir.is

Úr umsögn Morgunblaðsins:
***
Myrkfælni, hrollvekjusafn Þorsteins Mars Gunnlaugssonar, er skemmtileg nýbreytni og höfundur fer vel af stað með sinni fyrstu bók…eru flestar sögurnar vel skrifaðar, vel upp byggðar og spennuþrungnar…Í stuttu máli er Myrkfælni góð tilraun og það er ekki slæmt að lesa draugasögur í björtu, ekki síst fyrir myrkfælna.
SÞ/Morgunblaðið

Á vef Eymundsson fær bókin yfir fjórar stjörnur í umsögn lesenda.

Smelltu hér til að kaupa bókina.


Af komandi misserum

Á þessu ári gaf útgáfan Rúnatýr út sínu fyrsta bók, smásagnasafnið Myrkfælni. Þar sem útgáfan var ung, að mestu einyrkjastarfsemi, þá var reynt að stilla öllum kostnaði í hóf til að að tryggja að útgáfan stæði undir sér. Það ferli var afar lærdómsríkt og voru gerð fjölmörg mistök sem vonandi má læra af. Bókin fékk ágæta dóma, þrjár stjörnur að jafnaði. Var ýmislegt gagnrýnt, öðru hrósað og í heild voru bókadómar jákvæðari en neikvæðari. Markaðssetningu var reynt að sinna, einnig eftir ódýrum leiðum og lögðu margir þar hönd á plóg sem við erum afar þakklát fyrir.

Í sumar fjölgaði í ritstjórnarhópnum. Kjartan Yngvi Björnsson, meistaranemi í bókmenntafræði og ritlist, bættist í hópinn. Hið sama gerði Unnur Heiða Harðardóttir, meistaranemi í útgáfu- og ritstjórnarfræðum. Á fyrsta fundi hópsins var ákveðið að viðhalda þeirri stefnu að gefa út genre-bókmenntir, leggja áherslu á góðar og vandaðar hrollvekjur, fantasíur og vísindaskáldsögur. Var mikið rætt um mikilvægi góðrar ritstjórnar og lögð drög að því, að leggja sérstaklega mikla áherslu á slíka vinnu, gott samband rithöfundar og ritstjóra og reyna að tryggja að sem þeir sem væri efnilegir fengu stuðning, góð ráð og hvatningu til áframhaldandi skrifa. Ætlun ritstjórnarhópsins var, að Rúnatýr myndi marka sig sem útgáfa góðra bóka í þessum bókmenntageirum.

Útgáfan hefur einnig gefið út nokkrar styttri rafbækur. Útgáfan þeirra er með öllu einfaldari og ódýrari en prentaðra bóka, en þó var ætlunin að reyna viðhalda þeirri ritstjórnarstefnu sem ákveðin hafði verið. Við gefum út eina rafbók í mánuði, gildi einu hvort um þýðingu eða frumsamdan texta er að ræða. Lögð er sérstök áhersla á að bækurnar innihaldi sögur sem flokka megi sem hryllingssögu, fantasíu eða vísindaskáldskap og var ætlunin að þessar ókeypis bækur myndu ýta undir lestur slíkra bókmennta en um leið kynna nýja og spennandi höfunda eða klassíska fyrir lesendum.

Í dag er útgáfan að vinna að nokkrum verkum; hrollvekjur, fantasíur, vísindaskáldsaga, smásögur, skáldsögur, þýðingar; og er von okkar að eitthvað af því efni verði klárt fyrir komandi vor. Þar sem við erum lítið útgáfufélag er erfitt fyrir okkur að keppa í markaðssetningu við stóru forlögin, þar sem markaðsfé okkar eru aðeins lítið brot af þeirra, þá viljum við frekar forðast jólabókaflóðið. Einnig treystum við á, að þeir sem á annað borð lesa þess háttar bókmenntir leiti sér þær frekar sjálfir uppi, en að treysta á að fá þær í jólagjöf frá vinum og ættingjum.

Einnig mun tilkoma rafbókaverslana hjálpa okkur enn frekar við dreifingu á góðu efni. Okkur langar að nýta þetta tækifæri og óska emma.is hjartanlega til hamingju og góðs gengis. Rafbókavæðing íslenska bókamarkaðarins mun án nokkurs vafa hjálpa forlögum sem Rúnatý og verður spennandi að fylgjast með hvernig sá markaður þróast á næstu árum.