Monthly Archives: May 2012

Íslenskar hrollvekjur

Við Íslendingar eigum okkur langa bókmenntahefð, þó svo útgáfustarfsemi sem slík sé ekki ýkja gamalt fyrirbæri hérlendis. Og hrollvekjur hafa löngum verið sagðar hérlendis, enda skemmtileg bókmenntagrein. Við höfum frásagnir í Íslendingasögum sem eru af yfirskilvitlegum og hryllilegum atburðum, t.d. á borð við Fróðárundrin í Eyrbyggju. Þjóðsögur fjalla auk þess margar um þjóðsagnakenndar verur, á borð við drauga og uppvakninga, nykra og umskiptinga, og flokka mætti margar slíkar sögur sem hrollvekjandi. Á 20. öld hefur hrollvekjan svo sem ekki farið hátt í íslenskum bókmenntum og fæstir sem hafa tileinkað sér að skrifa þess háttar bókmenntir, ekkert frekar en þeir sem hafa tileinkað sér að skrifa fantasíur eða vísindaskáldsögur.

Nútímahrollvekjuna má rekja til gotneskra bókmennta. Talið er að fyrsta alvöru gotneska sagan hafi verið Castle of Otranto eftir Horace Walpole sem kom út 1764. Í kjölfar hennar fylgdu margar áþekkar sögur, t.d. The Monk eftir Lewis og Mysteries of Udolpho eftir Ann Radcliffe. Í gotneskum bókmenntum var oft hið forboðna kannað, hvort sem það var forboðin ást eða svartigaldur, sem og hið yfirskilvitlega. Komu fram svipaðar bókmenntir víða um Evrópu á þessum tíma og voru slíkar sögur kallaðar Schauerroman (hryllingssögur) í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið. The Monk hafði sérstaklega mikil áhrif á nútímahrollvekjuna, enda fjallar sagan um sadíska munka, afturgengnar nunnur og forboðnar ástir. Mikið af gotneskum bókum og hryllingssögum voru skrifaðar af kvenkyns rithöfundum og voru markaðssett fyrir þær.

Hrollvekjur sem komu fram á 19. öld sóttu mjög til gotneskra bókmennta. Á þeirri öld komu fram þrjár stærstu hrollvekjurnar, þ.e. Drakúla eftir Bram Stoker, Frankenstein eftir Mary Shelley og Dr. Jekyll og Mr. Hyde eftir Robert L. Stevenson. Enn er verið að gefa þessar sögur út, Drakúla er t.a.m. sú skáldsaga sem hefur hvað oftast verið endurprentuð. Ásamt þessum höfundum kom Edgar Allan Poe fram á sjónarsviðið og höfðu smásögur hans gríðarleg áhrif. Á 20. öld hafa margir höfundar komið fram, m.a. H. P. Lovecraft, M. R. James, Stephen King, Clive Barker og Shirley Jackson.

Nútímahrollvekjan sækir enn mjög í það form sem henni var sniðið strax á 18. öld. Hrollvekjum er ætlað að vekja ugg eða hroll með lesendum sínum, þar er skapað andrúmsloft furða og undra. Hið hryllilega getur verið bæði af þessum heimi eða yfirskilvitlegt. Ann Radcliffe skilgreindi hrollvekjur í byrjun 19. aldar og sagði m.a. að hryllingssögur þyrftu að vera annað hvort að vekja með lesanda sínum ugg eða ótta, eða hroll. Nema hvort tveggja sé. Uggur getur snúið að því að lesandinn óttast um þá atburði sem á eftir koma eða framundan eru. Hrollur getur komið fram vegna viðbjóðs eða viðurstyggðar á þeim atburðum sem hafa gerst. Þannig eru sumar hrollvekjur afar uggvekjandi og maður nagar neglur af eftirvæntingu um það sem gæti hent aðalpersónur, á meðan aðrar vekja með manni óhug vegna þeirra atburða sem hafa gerst. Dæmi um sögur sem falla í fyrri flokkinn er Ég man þig eftir Yrsu, en margar sagna Clive Barker fjalla í þann seinni. Sögur sem nota hvoru tveggja eru mýmargar, t.d. eftir Stephen King.

Íslenskar hrollvekjur eru ekki margar. Þær hafa flestar komið fram á síðari hluta 20. aldar. Vissulega má finna ákveða gotneska þætti í ýmsum sögum, t.d. í skáldsögu Gunnar Gunnarssonar Sælir eru einfaldir. Drakúla var þýdd lauslega í byrjun 20. aldar, kom þá út undir heitinu Makt myrkanna, en þýðingin var endurútgefin á síðasta ári. Flestar hryllingssögur sem hafa verið gefnar út hérlendis hafa þó verið smásögur, sögur eftir höfunda á borð við Þóri Bergsson, Þórberg Þórðarson og Ástu Sigurðardóttur. Þær hrollvekjur hafa þó verið nokkuð íslenskar, þ.e.a.s. að sótt er í íslenskan raunveruleika í bland við íslenskar þjóðsögur. Þannig fjalla margar þær hryllingssögur sem fram koma á 20. öld um þekkt minni í íslenskum bókmenntum, t.d. drauga.

Á 21. öld fara að koma fram rithöfundar sem opna nokkuð form íslenskra hryllingssagna. Sagan Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson kom út snemma á öldinni og Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur nokkrum árum síðar. Börnin í Húmdölum sækja í brunn Lovecrafts, þar sem óvætturin er framandlegur, ekki af þessum heimi og óskiljanlegur. Í sögu Yrsu er frekar sótt í íslensku hefðina. Hið sama má segja um Hálendi Steinars Braga og margar smásögurnar í safninu Myrkfælni. Eins eru margar sögurnar sem birtust í tímaritinu Furðusögum í ritstjórn Alexanders Dans skrifaðar undir áhrifum frá þessum íslenska skóla, ef svo mætti kalla.

Hrollvekjan er í sókn hérlendis og verður spennandi að sjá hvernig hún þróast á næstu árum. Við munum halda áfram að vinna að því að koma þeim á framfæri, ásamt vísindaskáldsögum og fantasíum.

Advertisements

Viðtal við Þorstein Mar í Morgunblaðinu


Furðusögunni vex ásmegin

Á undanförnum þremur árum hefur furðusagan orðið sýnilegri í íslenskum bókmenntum. Bækur á borð við Ég man þig, Sögu Eftirlifenda, Meistara hinna blindu og Myrkfælni hafa verið gefnar út og oftast nær markaðssettar sem furðusögur, þ.e. hrollvekjur, vísindaskáldsögur eða fantasíur. Auk þess eru sífellt fleiri höfundar að koma fram sem leggja áherslu á slík skrif og enn fleiri sem skrifa en fá ekki gefið út. En hvað hefur breyst?

Ekki er sérstaklega langt síðan við Íslendingar hófum skáldleg textaskrif af einhverju viti, þó vissulega megi færa rök fyrir skáldskapahneigð í ákveðnum Íslendingasögum, t.d. Hávarðar sögu Ísfirðings. Margir telja að skáldsagnaskrif hefjist hérlendis með Jóni Thoroddsen en í raun hefst hún af einhverju viti í byrjun 20. aldar. Ekki er mikið skrifað af furðusögum framan af öldinni. Þórbergur þýðir örfáar sögur Poes, Gunnar skrifaði Sælir eru einfaldir en í henni má finna ákveðin gotnesk og hrollvekjandi einkenni, Kristmann Guðmundsson skrifaði vísindaskáldsögur sínar og fantasíur, þær fáu sem gefnar voru út, voru aðallega skrifaðar fyrir börn.

Nú eru hins vegar að vaxa úr grasi kynslóðir sem hafa alist upp við að lesa furðusögur. Kynslóðir sem lesið hafa Harry Potter sögurnar, bækur Philips Pullmans, Twilight bækurnar og horft hafa á Hringadróttinssögu í bíóhúsum. Þessar kynslóðir sækja síðan í Hungurleikana, Neil Gaiman, George R. R. Martin og álíka höfunda. Þetta eru framleiðendur sjónvarpsefnis auk þess að uppgötva, því ekki nóg með að Game of Thrones hefur verið framleitt heldur er einnig stefnt á að framleiða þætti sem gerast í Star Wars heiminum, þættir um Merlin hafa verið sýndir á Rúv og svo mætti lengi telja.

Við hjá Rúnatý sjáum þessa þróun einnig verða í íslenskum bókmenntum. Lesendur eru tilbúnir fyrir genre bókmenntir á íslensku. Við höfum gefið út smásögur og stærri verk eftir lítt þekkta höfunda og selt sem rafbækur. Hefur velgengni þeirra komið okkur í opna skjöldu, t.d. hefur smásagan Epli Iðunnar eftir Jóhann Þórsson selst býsna vel á Skinna.is. Við erum auk þess að vinna með tveimur upprennandi höfundum, annars vegar að fantasíu og hins vegar vísindaskáldsögu. Verður mjög spennandi að sjá hvernig þeim verður tekið þegar þær koma út.

Við hlökkum til að sjá hvernig þróunin verður á næstu árum. Rúnatýr mun áfram starfa að því að gefa út furðusögur, bæði á rafbókaformi og prentuðu.


Alvöru hrollvekjur á íslensku

Tvær nýjar hrollvekjur komnar í verslanir. Annars vegar er það þýðing á hinu þekkta verki H.P. Lovecraft, Call of Cthulhu. Hins vegar ný íslensk skáldsaga, Þoka, eftir hinn efnilega Þorstein Mar.

Margir hrollvekjuunnendur þekkja verk H. P. Lovecrafts sem er einn af áhrifamestu höfundum hryllingsbókmennta samtímans. Hann er talinn vera einn af sporgöngumönnum furðusagna og í sögum hans mætast hrollvekjan og fantasían á skemmtilegan hátt. Núna hafa fimm af sögum hans verið þýddar á íslensku og eru fáanlegar, allar saman, í bókinni Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi smásögur sem gefin var út á dögunum.

Áhrif Lovecrafts ótvíræð

Í bókinni eru m.a. þýðingar á sögunum Call of Cthulhu og At the Mountains of Madness sem eru meðal þekktustu verka Lovecraft. „Ég hef alltaf dáðst að Lovecraft en ég byrjaði að lesa hann á unglingsárunum. Það sem gerir sögurnar hans góðar er sá veruleiki sem hann býr til, þar sem manneskjan er aðeins hverful tilviljun í ógnarstórum veruleika. Þetta hafa margir reynt að leika eftir en fáum tekist jafn vel upp að mínu mati,“ segir Þorsteinn Mar sem þýddi sögurnar. „Margir höfundar hafa leitað til Lovecrafts og nefna margir af helstu genre-rithöfundum samtímans hann sem einn helsta áhrifavald sinn, höfundar á borð við Stephen King, Brian Lumley og Neil Gaiman.“

Íslensk hrollvekja sem gerist í Reykjavík

En Þorsteinn skrifar líka sjálfur og var að gefa út sína aðra bók, skáldsöguna Þoku. „Sagan er hrollvekja, en þó ekki í anda Lovecraft þó í henni séu ákveðin einkenni weird-fiction,“ segir Þorsteinn. Í bókinni segir frá því þegar mannlaust skip finnst á Faxaflóa. Enginn veit hvaðan það kom, hvers lenskt það er eða hvernig það endaði við Íslandsstrendur. Eftir að lögreglan hefur rannsóknir á skipinu hefst hrina hryllilegra morða í Reykjavík og undarleg þoka leggst yfir borgina við Sundin.

Í fyrra sendi Þorsteinn frá sér smásagnasafnið Myrkfælni og fékk hún ágæta dóma gagnrýnenda. „Myrkfælni… er skemmtileg nýbreytni og höfundur fer vel af stað með sinni fyrstu bók.“ (SG/Morgunblaðið) „…tekst Þorsteini hvað eftir annað að skapa verulega hrollvekjandi stemningu.“ (ÚD/Bókmenntir.is).