Monthly Archives: August 2012

Var Lovecraft rasisti?

Við þessu er til einfalt svar: Já!

H. P. Lovecraft trúði því að hvíti kynþátturinn væri best til þess fallinn að leiða hina kynþættina, enda væru þeir ekki jafn þróaðir og sá hvíti. Fordómar hans náðu þó lengra, því hann var líka þess fullviss að aríar væru betri en gyðingar og konur ekki jafnar körlum. Og hann gekk enn lengra, því hann trúði því að enskumælandi fólk, sér í lagi þeir sem áttu sér enska forfeður, væru öðrum fremri. Þó vissulega hafi margir í Bandaríkjunum við og áratugina eftir aldamótin 1900 verið svipaðrar skoðunar og Lovecraft, þá ganga skoðanir hans í mörgu lengra en hefðbundið var og er hægt að afsaka með tíðaranda.

Séu sögur hans skoðaðar með þetta í huga má reka augun í margt sem kemur nútímalesendum spánskt fyrir sjónir, t.d. er fjallað með afskaplega niðrandi hætti um þá sem voru í sértrúarsöfnuðinum í fenunum í kringum New Orleans í þekktustu sögu hans, Kall Cthulhu.

Eftir langa og stranga ferð úr feninu var styttan rannsökuð í aðalstöðvum lögreglunnar, en fangarnir reyndust allir vera af lágt settu, blönduðu og andlega brengluðu kyni. Flestir voru sjómenn. Hópurinn samanstóð af negrum og múlötum, að stærstum hluta frá eyjum í Karabíahafinu eða Brava-Portúgalar frá Cape Verde eyjum, sem óneitanlega setti ákveðinn voodoo-blæ á þennan einkynja söfnuð karlmanna. Ekki þurfti að spyrja margra spurninga til að komast að því, að eitthvað mun eldra og myrkara en hefðbundin negratrú ætti í hlut. Á óvart kom hve staðfastir þeir voru og héldu dauðataki í hugmyndafræði hinnar fyrirlitlegu trúar sinnar, enda fáfróðir og siðspilltir.

Má rekast á fleiri slíkar lýsingar og einna lengst gengur hann í lýsingu sinni á svarta hnefaleikamanninum Buck Robinson í sögunni Herbert West, Reanimator.

Hins vegar má velta því fyrir sér hvort að skoðanir hans sem einstaklings skipti máli þegar sögur hans eru metnar eða lesnar. Fordómar Lovecrafts geta vissulega komið við kaunin á okkur sem lesum sögur hans í dag, meira en 70 árum eftir að þær voru skrifaðar og myndum við sætta okkur við slíkt hjá nútímahöfundum? En ef við horfum ekki í gegnum fingur okkar með svona lýsingar, skoðanir höfunda eða persóna í sögum, þá er hættan sú að við kynnum að verða af býsna mörgum stórverkum sem skrifuð hafa verið í gegnum tíðina. Ætli jafnréttissinnar myndu taka Hemingway fagnandi kæmi hann fram með sögur sínar af alpa-karlinum í dag? Ætli Ezra Pound fengi góðar viðtökur við and-semítískum hugleiðingum í verkum sínum í dag? Hvað með Kafka, Poe, Blackwood og svo mætti lengi telja?

Nú er ekki verið að mæla fordómum Lovecrafts bót, þvert á móti sýna þeir einmitt ákveðna fávisku og ótta. Lovecraft sagði hins vegar að sterkasta og rótgrónasta tilfinning mannsins væri ótti, sterkasti og rótgrónasti óttinn væri við hið ókunna. Og mætti ekki segja að hugsanlega hafi það einnig átt við um hann og ótta hans við aðra kynþætti?

Advertisements

Vegna fréttar um rafbækur

Í kvöldfréttum RÚV var fjallað um rafbækur og kom þar forsvarsmaður Forlagsins. Sagði hann að ekki væri hægt að gefa út fyrir Kindle lesbrettið og sjáum við okkur knúin til að svara þessu, enda hefur Rúnatýr gefið út rafbækur í sniðmáti sem Kindle les á nokkurra vandkvæða undanfarið ár eða svo. Sendum við eftirfarandi til fréttamannsins, Jóhanns Hlíðar Harðarsonar.

Komdu sæll, Jóhann!

Ég sá frétt þína um rafbækur og komandi rafbókaflóð í fréttum í kvöld. Það er gaman að sjá aukna umfjöllun um rafbækur, enda þörf á því að upplýsa almenning um þann valkost. Hins vegar þótti mér leiðinlegt að heyra að haft var eftir forsvarsmanni Forlagsins um Amazon og möguleika til að selja íslenskar bækur fyrir Kindle, að ekki væri slíkt í boði þar sem Amazon hefði lokað á íslenskar bækur. Ég tel að þar sé aðeins hálf sagan sögð og spurning hvort verið sé að slá ryki í augu neytenda.

Rétt er að Amazon hefur enn sem komið er aðeins tekið lítið brot af heildarbókamarkaði heimsins inn í Kindle store, enda tekur það langan tíma að laga vefverslunina að kröfum hvers markaðar. Hins vegar er öllum frjálst að gefa út efni fyrir Kindle, hvort sem um er að ræða lesbrettið eða smáforrit hugsað fyrir síma og spjaldtölvur. Við hjá Rúnatý höfum gefið út efni sem Kindle les og selt nú í að verða hálft ár án nokkurra vandræða í vefversluninni Skinna.is. Einnig er hægt að nálgast efni fyrir Kindle í vefversluninni Emma.is fyrir utan allar þær erlendu rafbókaverslanir sem selja rafbækur fyrir þá tækni. Kindle lesbrettið les ákveðnar skráargerðir og er öllum frjálst að gefa út og selja rafbækur í þeim sniðmátum. Hins vegar notast Amazon Kindle store við tvö sérsniðin skráarsnið sem aðeins eru ætluð til sölu þar og þau snið eru aðeins ætluð útvöldum mörkuðum. Sjá http://en.wikipedia.org/wiki/Amazon_Kindle#Document_availability

Þau sniðmát sem Amazon notar eru varin með afritunarvörn, rétt eins og þær rafbækur sem Forlagið er að selja í dag. Hægt er að afritunarverja rafbækur sem seldar eru undir öðrum sniðmátum en þeim sem notuð eru í Amazon Kindle store. Hefur það verið gert með ágætum árangri hjá Skinna.is.

Það er því fyrst og fremst ákvörðun Forlagsins að selja ekki bækur fyrir Kindle lesbrettið eða hugbúnaðinn, því lítið vandamál er að útbúa rafbækur fyrir hvoru tveggja án aðkomu Amazon, eins og gert er á Skinna.is og Emma.is. Því er umhugsunarvert hvað valdi því að stærsta forlag landsins ákveði að sniðganga stóran hluta viðskiptavina með þeim hætti sem þeir gera. Er það gert með hagsmuni neytenda, rithöfunda eða útgáfunnar í huga?

Rúnatýr gefur út, eins og áður segir, rafbækur fyrir Kindle og öll önnur lesbretti. Stærsti hluti sölu okkar eru rafbækur í sniði fyrir Kindle. Þó svo að hentugt sé fyrir okkur að Forlagið skuli ekki vilja selja notendum slíkra lesbretta bækur (við seljum jú líklega meira fyrir vikið) þá teljum við mikilvægt að neytendur séu upplýstir um staðreyndir málsins, því það er okkur ekki til heilla að lesendum rafbóka sé talið í trú um að ekki fáist íslenskar bækur fyrir græjur þeirra, því það er langt frá hinu sanna. Fjöldi forlaga (flest í minni kantinum) selja nú þegar rafbækur fyrir Kindle, hægt er að sjá hvaða forlög á Skinna.is og Emma.is.

Við teljum því mikilvægt að neytendur séu upplýstir um að ekkert standi okkur íslenskum útgefendum fyrir þrifum í útgáfu á efni fyrir Kindle, heldur sé það ákvörðun hvers forlags fyrir sig hvort notast er við þau opnu skráarsnið sem standa til boða. Aðkoma Amazon Kindle Store og sú stefna þeirra að vera aðeins með allra stærstu markaði þar inni hefur þar lítið að segja, að okkar mati.

Fyrir hönd Rúnatýs útgáfu,
Þorsteinn Mar


Ólögleg dreifing hugverka á internetinu

Í gær mátti sjá auglýsingu frá SMÁÍS í Fréttablaðinu þar sem íslenskir notendur eru hvattir til að kaupa efni eftir löglegum leiðum á netinu. Ýmislegt mætti ræða um framsetningu auglýsingarinnar, þá slæmu stereótýpu sem dregin er þar upp og eins um skilaboðin sem í auglýsingunni felast, að ekki leikur nokkur vafi á að setja hefði átt skilaboðin fram með betri og skynsamlegri hætti og þó svo að þetta sé líklega gert til að vekja enn meiri athygli, þá má ekki gleyma því að hin raunverulegu skilaboð týnast í þeirri umræðu sem sprettur upp vegna framsetningarinnar. Þannig verður auglýsingin sjálf að umræðuefni en ekki skilaboðin.

Ólögleg dreifing hugverka er vandamál, flestir ættu að geta verið sammála um það. Hugverkum er stolið á hverju ári fyrir miklar upphæðir, þó vissulega megi ræða hversu mikið raunverulegt tap hugverkaiðnaðarins er. Hins vegar eru langflestir notendur á netinu heiðarlegir og reyna að finna leiðir til að fá efni eftir löglegum leiðum. Við Íslendingar erum svolítið sér á báti, því við megum ekki eiga í viðskiptum við margar af stærstu tónlistar- og kvikmyndaveitum eða vefverslunum á netinu, t.d. iTunes, Sky, Netflix o.s.frv. Samt birtast þær upplýsingar ekki þegar notendur skrá sig inn, að vegna lagaumhverfis á Íslandi sé niðurhal þeirra ekki löglegt, þrátt fyrir að þessar veitur séu með samninga við rétthafa verkanna sem í boði eru.

Hið sama gildir um rafbækur. Ólöglega dreifing er af mörgum útgefendum talið mikið vandamál og grípa því til þess að afritunarverja rafbækur sínar. Því miður leiðir það til þess að notendur geta hvorki lesið þær bækur á Kindle eða í gegnum iBooks rafbókahugbúnaðinn, sem fylgir öllum iPad spjaldtölvum. Eflaust hefur hver sína skoðun á slíkum vörnum, þær geta verið gagnlegar en því miður er auðvelt að fjarlægja þær og margar virka þær hvetjandi á þá sem hafa gaman af því að aflæsa slíkum vörnum.

Við hjá Rúnatý höfum tekið sömu afstöðu og þeir sem reka emma.is og skinna.is. Við treystum notendum og treystum því að gott aðgengi og gegnsæ verðlagning sé letjandi fyrir notendur að dreifa hugverkum ólöglega. Hjá emma.is er engin afritunarvörn sett á rafbækur en þeir hjá skinna.is merkja hverja keypta rafbók þeim sem keypti eintakið. Hvor aðferðin er góð og gild, þar sem áhersla er lögð á að notandinn þurfi ekki að stunda einhverjar æfingar við að opna skjöl eða sé skyldaður til að nota annan hugbúnað en þann sem hann kýs sjálfur. Þannig er gott aðgengi og gott verð besta afritunarvörnin.

Við hvetjum alla okkar lesendur til að deila ekki hugverkum og kynna sér vandlega hvaða leiðir eru löglegar til að ná sér í efni á netinu. Hugverk, hvort sem um tónlist, ritlist, kvikmyndir eða hvað annað er að ræða, eru útbúin og gerð af einhverjum og mikilvægt að tryggja að viðkomandi fái tekjur af sinni vinnu. Öll viljum við að listamenn hafi tekjur af vinnu sinni, sérstaklega þegar við njótum þeirra gæða sem þeir framleiða.

Að því sögðu langar okkur til að láta ykkur vita af ofurtilboðinu sem í gangi er á rafbókaversluninni skinna.is. Þar er hægt að fá skáldsöguna Þoku og þýðinguna á smásögum Lovecraft, Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur, á aðeins 490 kr. fram til 18. ágúst. Báðar bækurnar henta fyrir alla rafbókalesara.


Vegna greinar um rafbækur í Morgunblaðinu

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 4. ágúst síðastliðinn er eftirfarandi haft eftir Kristjáni B. Jónassyni, formanni Félags íslenskra bókaútgefenda: ,,[Það var] kappsmál útgefenda að virðisaukaskattur á rafbókum yrði lækkaður og að almennilega yrði staðið að dreifingu bókanna og þær vistaðar í vöruhúsi eins og því sem snara.is starfrækir.”

Um leið og við hjá Rúnatý fögnum því allri umræðu um rafbækur, þá langar okkur til að benda á eftirfarandi.

Það er ekki kappsmál okkar að allir útgefendur sameinist í einu vöruhúsi, enda teljum við að slíkt þjóni ekki hagsmunum neytenda. Við munum aldrei sætta okkur við að geta ekki boðið upp á rafbækur okkar fyrir alla rafbókalesara. Við teljum að hagsmunir neytenda, krafa þeirra um gott aðgengi, ásættanlega og gegnsæa verðlagningu, vegi þyngra en mikilvægi þess að allir útgefendur standi saman í von um að koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal. Við teljum að besta vopnið til þess sé einmitt að treysta þeim mikla meirihluta neytenda sem kaupir rafbækur og dreifir þeim ekki ólöglega og láta þá þannig ekki líða fyrir hegðun minnihlutans, rétt eins og við treystum kaupendum prentaðra titla til að ljósrita ekki bækur og dreifa þeim til vina, kunningja og ókunnugra.

Orð Kristjáns endurspegla þar af leiðandi ekki afstöðu Rúnatýs, en Rúnatýr útgáfa er ekki í Félagi íslenskra bókaútgefenda, þar sem forlagið uppfyllir ekki kröfur sem gerðar eru til félagsmanna.