Vegna fréttar um rafbækur

Í kvöldfréttum RÚV var fjallað um rafbækur og kom þar forsvarsmaður Forlagsins. Sagði hann að ekki væri hægt að gefa út fyrir Kindle lesbrettið og sjáum við okkur knúin til að svara þessu, enda hefur Rúnatýr gefið út rafbækur í sniðmáti sem Kindle les á nokkurra vandkvæða undanfarið ár eða svo. Sendum við eftirfarandi til fréttamannsins, Jóhanns Hlíðar Harðarsonar.

Komdu sæll, Jóhann!

Ég sá frétt þína um rafbækur og komandi rafbókaflóð í fréttum í kvöld. Það er gaman að sjá aukna umfjöllun um rafbækur, enda þörf á því að upplýsa almenning um þann valkost. Hins vegar þótti mér leiðinlegt að heyra að haft var eftir forsvarsmanni Forlagsins um Amazon og möguleika til að selja íslenskar bækur fyrir Kindle, að ekki væri slíkt í boði þar sem Amazon hefði lokað á íslenskar bækur. Ég tel að þar sé aðeins hálf sagan sögð og spurning hvort verið sé að slá ryki í augu neytenda.

Rétt er að Amazon hefur enn sem komið er aðeins tekið lítið brot af heildarbókamarkaði heimsins inn í Kindle store, enda tekur það langan tíma að laga vefverslunina að kröfum hvers markaðar. Hins vegar er öllum frjálst að gefa út efni fyrir Kindle, hvort sem um er að ræða lesbrettið eða smáforrit hugsað fyrir síma og spjaldtölvur. Við hjá Rúnatý höfum gefið út efni sem Kindle les og selt nú í að verða hálft ár án nokkurra vandræða í vefversluninni Skinna.is. Einnig er hægt að nálgast efni fyrir Kindle í vefversluninni Emma.is fyrir utan allar þær erlendu rafbókaverslanir sem selja rafbækur fyrir þá tækni. Kindle lesbrettið les ákveðnar skráargerðir og er öllum frjálst að gefa út og selja rafbækur í þeim sniðmátum. Hins vegar notast Amazon Kindle store við tvö sérsniðin skráarsnið sem aðeins eru ætluð til sölu þar og þau snið eru aðeins ætluð útvöldum mörkuðum. Sjá http://en.wikipedia.org/wiki/Amazon_Kindle#Document_availability

Þau sniðmát sem Amazon notar eru varin með afritunarvörn, rétt eins og þær rafbækur sem Forlagið er að selja í dag. Hægt er að afritunarverja rafbækur sem seldar eru undir öðrum sniðmátum en þeim sem notuð eru í Amazon Kindle store. Hefur það verið gert með ágætum árangri hjá Skinna.is.

Það er því fyrst og fremst ákvörðun Forlagsins að selja ekki bækur fyrir Kindle lesbrettið eða hugbúnaðinn, því lítið vandamál er að útbúa rafbækur fyrir hvoru tveggja án aðkomu Amazon, eins og gert er á Skinna.is og Emma.is. Því er umhugsunarvert hvað valdi því að stærsta forlag landsins ákveði að sniðganga stóran hluta viðskiptavina með þeim hætti sem þeir gera. Er það gert með hagsmuni neytenda, rithöfunda eða útgáfunnar í huga?

Rúnatýr gefur út, eins og áður segir, rafbækur fyrir Kindle og öll önnur lesbretti. Stærsti hluti sölu okkar eru rafbækur í sniði fyrir Kindle. Þó svo að hentugt sé fyrir okkur að Forlagið skuli ekki vilja selja notendum slíkra lesbretta bækur (við seljum jú líklega meira fyrir vikið) þá teljum við mikilvægt að neytendur séu upplýstir um staðreyndir málsins, því það er okkur ekki til heilla að lesendum rafbóka sé talið í trú um að ekki fáist íslenskar bækur fyrir græjur þeirra, því það er langt frá hinu sanna. Fjöldi forlaga (flest í minni kantinum) selja nú þegar rafbækur fyrir Kindle, hægt er að sjá hvaða forlög á Skinna.is og Emma.is.

Við teljum því mikilvægt að neytendur séu upplýstir um að ekkert standi okkur íslenskum útgefendum fyrir þrifum í útgáfu á efni fyrir Kindle, heldur sé það ákvörðun hvers forlags fyrir sig hvort notast er við þau opnu skráarsnið sem standa til boða. Aðkoma Amazon Kindle Store og sú stefna þeirra að vera aðeins með allra stærstu markaði þar inni hefur þar lítið að segja, að okkar mati.

Fyrir hönd Rúnatýs útgáfu,
Þorsteinn Mar


Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: