Monthly Archives: September 2012

Skáldskapur er aldrei pólitískt réttur

Þegar fyrstu skáldsögurnar komu út voru það fyrst og fremst afbakanir og satýrur á riddarasögur fyrri alda. Cervantes skrifaði t.d. Don Kíkóta í þeim anda. Skáldsögur hafa síðan þá þróast og dafnað, en þetta einkenni sem rekja má til upphafs skáldsagna má enn finna í nútímaskáldsögum, þó svo kannski ekki á sama hátt og í sögu Cervantes.

Þó vissulega megi finna skáldsögur sem afbaka skáldskap fyrri tíma, sögur á borð við Gerplu eftir Halldór Kiljan Laxness, þá birtist þessi afbökun á annan hátt í nútímanum og hugsanlega má rekja hluta þess til raunsæisstefnunnar. Þeir rithöfundar sem einna helst skrifuðu undir merkjum hennar litu margir hverjir á sig sem nokkurs konar lækna samfélagsins, þ.e. þeir bentu á þau mein sem þar er að finna. Margir höfundar skrifa í dag með þetta í huga, t.d. mætti lesa skandinavísku spennusögurnar út frá samfélagsrýni þeirra. Þannig getur skáldskapur opnað augu lesenda fyrir misrétti, hinu óréttláta og því sem er ekki í lagi, hvort sem um samskipti manna, viðmið samfélags eða hvaða annað er að ræða.

Oft hefur verið reynt að setja skáldskapnum skorður, oftar en ekki fyrir þær sakir sem hér að ofan eru nefndar. Yfirvöld, gagnrýnendur og allir þeir sem láta sig mál varða líkar oft ekki við hversu hreinskilinn og gagnrýninn skáldskapur getur verið. Þannig voru ákveðnir rithöfundar fangelsaðir í Sovétríkjunum á sínum tíma. Málið er bara, að skáldskapur er aldrei pólitískt réttur og má aldrei verða það. Alvöru rithöfundar láta ekki yfirvöld eða aðra þá sem gagnrýna þá halda aftur af sér, heldur halda áfram vegna þeirrar knýjandi þarfar að segja sögur.

It is impossible to discourage the real writers – they don’t give a damn what you say, they’re going to write. ~Sinclair Lewis

Ódysseifur eftir James Joyce er gott dæmi um svona sögu. Sagan sem kallast á við Ódysseifskviðu Hómers segir frá Leopold Bloom í Dublin og deginum sem hann fer á sitt fyrsta stefnumót með konunni sem hann giftist síðar. Í sögunni segir frá ýmsu sem er langt frá því upphafið enda kom á daginn að sagan var bönnuð í bæði Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem hún þótti of klámfengin. Sagan varð síðar meir leyfð og í dag held ég að fáir neiti því að Ódysseifur Joyce sé eitt af stórverkum 20. aldar.

Þetta á við um furðusögur sem annan skáldskap. Mikilvægi þess fyrir rithöfunda að vera trúir sjálfum sér, hafa trú á því sem þeir eru að gera og láta ekki hneppa hugsun sína í fjötra tísku, pólítísks rétttrúnaðar eða annarra viðmiða en sinna eigin er algjört. Um leið og þeir fara eltast við það sem yfirvöld, gagnrýnendur eða aðrir segja, þá er hættan sú að þeir séu í raun að berjast við vindmyllur.


Skiptir lengd rafbóka máli?

Bækur hafa lengst mjög á undanförnum árum. Hvort sem það er fyrir sakir hinnar þýsku epísku sögu eða hvaða annarra áhrifa, þá er þetta sérstaklega merkjanlegt í kringum jólin hérlendis. Söluhæstu bækurnar telja nokkur hundruð blaðsíður, eru vandlega innbundnar og með pappírskápu sem er jafnvel með upphleyptri mynd. Sem sagt, eigulegur hlutur sem gaman er að gefa og þiggja.

Að vori koma svo oft bækurnar frá liðnu jólabókaflóði út sem kiljur, en ásamt þeim eru gefnar út nýjar sögur í sama formi. Lesendur margir njóta þess að lesa þessa doðranta og sökkva sér ofan í þá heima sem í bókunum er að finna. Fyrir nokkru þótti góð lengd á skáldsögu vera um 250-300 blaðsíður prentaðar og voru ekki margar sögur sem fóru langt umfram þá lengd. Nærtækast er að benda á muninn á lengd fyrstu og síðustu Harry Potter bókanna. Í dag hika höfundar ekki við að skila af sér 400-600 blaðsíðna verkum.

En skiptir lengd máli þegar um rafbækur er að ræða?

Það gerir svo að vissu leyti. Þegar lesendur notast við lesbretti á borð við Kindle, iPad eða álíka tæki, þá missa þeir oft tilfinningu fyrir því hversu þeim gengur í lestrinum, hversu langt þeir eru komnir inn í bókina enda hafa þeir ekki blaðsíður prentaða eintaksins sem viðmið fyrir framan sig. Hins vegar hafa þeir t.d. mælistikuna neðst á skjá Kindle og hættan er sú, sé bók mjög löng, að stikan færist afar hægt þrátt fyrir ítrekaðar flettingar. Þá geta sumir lesendur upplifað lesturinn sem kvöð og verður hann þá fyrir vikið ekki jafn gefandi og áður.

Auðvitað er það misjafnt milli einstaklinga hvernig þeir upplifa þetta, en þetta er engu að síður nokkuð sem rithöfundar ættu að hafa í huga. Langar rafbækur geta verið lýjandi í lestri, þrátt fyrir að vera áhugaverðar engu að síður.

Reynsla okkar af því að gefa út stakar smásögur og nóvellur er sú, að áhugi rafbókalesenda fyrir slíku efni er talsverður. Selst hvort form fyrir sig ágætlega enda þægilegt að geta gripið í eina smásögu eða stutta skáldsögu, stikan færist hratt yfir skjáinn og hugsanlega má spyrja, hvort rafbókavæðingin feli í sér að form sem hingað til hafa verið í jaðri útgáfustarfsemi forlaga (smásögur, ljóð, nóvellur), bókmenntaform sem allajafna henta ekki vel í jólabókaflóðið, eigi sér bjargvætt í rafbókinni?


Þoka og Kall Cthulhu á Hópkaupstilboði

Næstu vikur verður hægt að fá Þoku og Kall Cthulhu & fleiri hrollvekjandi sögur á frábæru tilboði hjá Hópkaupum. Aðeins 2.470 kr. fyrir báðar bækur og er heimsending innifalin í tilboðinu. Smelltu hér til að skoða tilboðið.

Báðar bækur hafa fengið ágæta dóma, Þoka fékk 3 stjörnur í umfjöllun á vefsíðunni Nörd Norðursins og Kall Cthulhu & fleiri hrollvekjandi sögur fékk hálfa fjórðu stjörnu í umfjöllun Morgunblaðsins. Þetta er því upplagt tækifæri til að komast yfir bækurnar á góðu verði.


Fjallað um Kall Cthulhu í Morgunblaðinu

Fjallað var um þýðinguna á sögum Lovecrafts í Morgunblaðinu á fimmtudaginn var og sagði Árni Matthíasson að sögurnar væru ósvikin skemmtilesning. Einnig nefndi hann að Þorsteinn Mar hefði komist alla jafna vel frá þýðingunni, en hún væri á nokkrum stöðum stirðbusaleg og kannski full nálægt stíl Lovecrafts. Í heildina fær bókin þrjár og hálfa stjörnu.