Monthly Archives: October 2012

Notendur eða útgefendur?

Í gær fór fram ansi áhugaverð umræða á Facebooksíðu Rafbókavefsins um streymislausn Rafbókalagersins. Í stuttu máli gengur hugmyndin út á að notendur geti skráð sig inn á heimasíðu og keypt sér aðgang að bókum, sem þeir lesa síðan í vafra. Þessi lausn hentar vel þeim sem eru með spjaldtölvur, snjallsíma eða finnst gott að lesa af skjám borðtölva. Hugmyndin reiðir sig á að notandi sé nettengdur en þó gaf Egill, framkvæmdastjóri Forlagsins, því undir fótinn að verið væri að vinna að lausn sem vistar hluta efnisins í minni vafrans, þannig að þörfin á nettengingu væri ekki alger. Þessi hugmynd er um margt góð og ber að hrósa Forlaginu fyrir framtakssemina og áhugann sem þeir sýna rafbókum. Sá galli er þó á gjöf Njarðar, að þessi lausn hentar ekki fyrir notendur Kindle Wifi og eldri gerða Kindle, sem og að notendur eiga þannig séð ekki bækurnar og geta ekki skipst á bókum. Vonandi verður þó hægt að finna lausn á því.

Nokkuð margir notendur höfðu áhyggjur af nálgun forsvarsmanna Forlagsins og Rafbókalagersins að Kindle lesbrettinu og notendum þess. Var nokkuð rætt um hvers vegna Rafbókalagerinn styður ekki mobi skráarsniðið, þar sem margar rafbókaverslanir hérlendis gera það (emma.is, skinna.is og rafbokavefur.is). Því var svarað með því að ekki væri hægt að afritunarverja slíkar rafbækur, nema með félagslegri afritunarvörn, eins og Marínó, forsvarsmaður Rafbókalagersins komst að orði. Vildi hann meina að útgefendur treystu ekki slíkri afritunarvörn.Við getum ekki svarað fyrir aðrar útgáfur en okkar eigin, en við teljum að mikilvægast að notendur séu sáttir og eigi auðvelt með að nálgast rafbókina á þeim lesbrettum sem þeir kjósa að nota.

Við hjá Rúnatý lítum svo á, að afritunarvörn sé fyrst og fremst hugsuð fyrir útgefendur, svo við sofum betur á næturnar, þannig skapa þær ákveðna öryggiskennd hjá okkur. Ef við skoðum þær afritunarvarnir sem notaðar eru hérlendis þá eru þær eftirfarandi:

  • Rafbókavefur.is  notast ekki við afritunarvörn.
  • Emma.is notast ekki við afritunarvörn, treystir viðskiptavinum sínum fyrir því að dreifa ekki verkum ólöglega.
  • Skinna.is notast við félagslega afritunarvörn, þ.e. hver rafbók er merkt kaupanda sínum og viðkomandi er treyst fyrir því að dreifa ekki verkunum ólöglega. Einnig notast Skinna.is við þá afritunarvörn sem fylgir rafbókum af vef Rafbókalagersins, Adobe DRM, og þurfa notendur að hafa aðgang að Adobe ID.
  • Ebækur.is notast við sömu afritunarvörn og Rafbókalagerinn.
  • Eymundsson.is notast við sömu afritunarvörn og Rafbókalagerinn.
  • Forlagid.is notast við sömu afritunarvörn og Rafbókalagerinn.

Adobe DRM kallar á að settur sé upp sérstakur vefþjónn, sem kostar nokkur þúsund dollara auk árlegs gjalds, sem er um fjórðungur af upphaflegum kostnaði. Fyrir hvert niðurhal þarf síðan útgefandi að greiða nokkur sent. Við höfum ekki fengið reikning vegna félagslegrar afritunarvarnar Skinna.is en reiknum með að sá kostnaður sé hluti af álagningu þeirra. Eðli málsins samkvæmt kostar engin afritunarvörn Emma.is ekkert. Hjá Skinna.is er óverulegt skráningargjald, en ekkert hjá Emma.is, hins vegar munar lítillega á álagningu þessara aðila og þar er Skinna.is lægri. Hvað varðar skráningargjöld og kostnað hjá Rafbókalagernum, þá erum við ekki í viðskiptum við þá, þannig við getum ekki fjölyrt um þann kostnað. Hugsanlega getur einhver frætt okkur um það?

Félagslega afritunarvörnin er vatnsmerki. Hver sá sem kann að slá inn leitarorð í leitarvélar og hefur grunnþekkingu á tölvum og uppsetningu hugbúnaðar á þær (sem sagt, getur smellt á Accept o.s.frv.) getur auðveldlega fjarlægt nokkurn veginn hvaða afritunarvörn sem er. Það gildir um Adobe DRM, auðvelt er að finna hugbúnað sem fjarlægir afritunarvörnina, og á við um allar afritunarvarnir, líka þær sem eru á skjölum frá Amazon. Gallinn við afritunarvarnir er nefnilega sá, að fyrir suma virka þær bara eins og krefjandi heimaverkefni í skóla, þeim finnst þeir þurfa að dírka upp lásinn og búa til hugbúnað sem getur gert það. Sumar afritunarvarnir miðast auk þess við að þú notir ákveðinn hugbúnað til að lesa viðkomandi skjal, t.d. er ekki hægt að opna bækur varðar með Adobe ID í Kindle og iBooks. Bækur varðar með Amazon afritunarvörninni er bara hægt að opna í Kindle og svo mætti áfram lengi telja. Þannig eru notendur skikkaðir til að nota ákveðinn hugbúnað umfram að þeir kjósi sjálfir hvaða tæki eða hugbúnað þeir noti. Afritunarvörnin skapar hugsanlega þannig óþægindi hjá notendum.

Ef afritunarvarnir er hægt að fjarlægja með auðveldum hætti, hvað geta þá útgefendur gert? Í raun ósköp lítið. Þegar við setjum nýja bók á markað þá treystum við því að hún sé ekki ljósrituð og henni dreift þannig til fólks. Setjum jafnvel yfirlýsingu um að slíkt sé bannað nema með leyfi höfundar eða útgefanda á fyrstu síðurnar. Að öðru leyti treystum við lesendum. Við getum ekki fylgst með öllum sem kaupa bækurnar okkar, getum ekki séð til þess síður bóka séu ekki ljósritaðar. Hins vegar, líklega vegna þeirrar umræðu sem hefur verið um ólöglega dreifingu hugverka, vilja margar útgáfur, skiljanlega, koma í veg fyrir ólöglega dreifingu á rafbókum þeirra. Ef allt fer á versta veg, þá getur ólögleg dreifing kostað útgáfur umtalsverða fjármuni og því er ekkert óeðlilegt við að þær leiði hugann að og hafi áhyggjur af þessu vandamáli.

Við hjá Rúnatý erum í sömu sporum og margar útgáfur hvað þetta varðar. Við höfum þó reynt að gera okkar besta til að treysta notendum. Við teljum Íslendinga upp til hópa heiðarlega og trúum því að unnendur íslenskra bókmennta vilji efla veg þeirra, að höfundar fái greitt fyrir vinnu sína og að íslenskar útgáfur hafi starfsgrundvöll. Við höfum engu að síður áhyggjur af því að titlunum frá okkur sé dreift ólöglega, en vonum að gott verð og auðvelt aðgengi sporni gegn því.

Íslenskar útgáfur nálgast þetta vandamál hver með sínum hætti. Sum forlög selja bæði bækur með og án afritunarvarna, önnur bara án afritunarvarna og enn önnur aðeins með afritunarvörnum. Aðeins íslenskir notendur geta dæmt til um hvað hentar þeim best, við í útgáfugeiranum getum skipst á skoðunum út í hið óendanlega án þess að komast að niðurstöðu. Þannig er reynsla okkar hjá Rúnatý sú, að ef við værum með stífar afritunarvarnir, þá hefðum við líklega misst af um helming allrar sölu á rafbókum okkar. Eins og gefur að skilja, þá viljum við ekki fórna því, enda lítið forlag og hvert selt eintak skiptir okkur máli. Hvað finnst þér skipta máli? Hvernig telur þú að hægt sé að tryggja bæði útgefendur og notendur séu sáttir?

Advertisements

Grein í Morgunblaðinu svarað

Við hjá Rúnatý ákváðum að svara blaðamanni vegna greinar um rafbækur, sem birt var á mbl.is um helgina. Þar var m.a. gefið í skyn að allar íslenskar rafbækur séu aðeins fáanlegar á epub-sniði. Við viljum benda á að það er ekki rétt og um sé að ræða pólitíska ákvörðun hvers forlags fyrir sig, hvort gefið sé út efni fyrir Kindle notendur eða ekki.

Komdu sæl, Anna Lilja.

Það var áhugavert að lesa grein þína um rafbækur nú um helgina á mbl.is. Mikið hefur nú þegar verið skrifað um þetta áhugaverða málefni og sýnist sitt hverjum, sérstaklega þegar kemur að verðlagningu þeirra annars vegar og hins vegar ólíka nálgun forlaga á aðgengi notenda að rafbókum.

Eins og þú bendir á í greininni eru nokkrar íslenskar rafbókaverslanir sem selja íslenska titla. Það sem kemur hins vegar ekki fram í grein þinni er að fjölmargar útgáfur gefa nú þegar út fyrir Kindle lesbrettið, við í Rúnatý á meðal þeirra. Við höfum gefið út rafbækur frá því seint á síðasta ári, í fyrstu gáfum við út smásögur í rafbókaformi á heimasíðu okkar en með tilkomu emma.is og skinna.is hafa allar okkar bækur verið fáanlegar í rafbókaformi, bæði epub og mobi (skráarsnið sem Kindle les). Við erum langt frá því eina forlagið sem gerir svo, einnig Bókabeitan, Ugla, Urður bókafélag, Vestfirska forlagið, Salka, Sögur útgáfa og svo mætti lengi telja (þetta er auðvelt að sjá með því að skoða úrval rafbóka á skinna.is og emma.is).

Amazon bannar engum að gefa út fyrir Kindle lesbrettið. Hægt er að nálgast rafbækur fyrir Kindle t.d. á vef Gutenberg project, Gutenberg.org. Hins vegar hefur Amazon gefið það út að þeir hafi ekki áhuga á að taka örmarkaði inn í sína eigin vefverslun, á borð við íslenska markaðinn. Þó er íslenskum forlögum og bókaútgáfum ekkert til vanbúnaðar að gefa út bækur fyrir Kindle og selja í íslenskum rafbókaverslunum, rétt eins við minni forlögin gerum. Ef verið er að leita eftir afritunarvörn þá býður Skinna.is upp á ákveðna lausn í þeim málum. Þetta er því í raun lítið annað en geðþótta ákvörðun hvers forlags fyrir sig og mikilvægt að neytendur viti það.

Ég hvet þig eindregið til að halda áfram umfjöllun þinni um rafbækur og rafbókavæðinguna. Það er heilmargt í henni sem er afar áhugavert og þarfnast rýni fjölmiðla við.

Fyrir hönd Rúnatýs útgáfu,
Þorsteinn Mar


Rafbækur, ebækur, netskinnur og tölvuskruddur

Um síðustu helgi var opnuð ný rafbókaverslun, ebækur.is, og auglýsir hún sig sem stærstu rafbókaverslun landsins. Gaman er að sjá að meira fjör er að færast í þennan markað og óhætt að segja, að þegar forráðamenn tónlist.is taka sig til og fara inn á einhvern markað þá er það gert með látum. Hins vegar hefur það leitt til þess að enn kemur upp umræða um rafbækur, þá sérstaklega um verðlagningu þeirra en eins um aðgengi.

Þessi stærsta rafbókaverslun landsins býður upp á fjölbreytt úrval erlendra titla, yfir 200 þúsund titlar og eftir því sem við komumst næst, allt á ePub sniði. Hins vegar eru notendum færð rausnarleg gjöf stofni þeir aðgang á vefnum. Enn er þó úrval íslenskra titla hjá þeim heldur fáborið (aðeins tæplega 80 íslenskar rafbækur), miðað við emma.is og skinna.is, og einhverra króna verðmunur, sem sjaldnast er nógu mikill að það skipti í raun einhverju máli.

Við hjá Rúnatý stöndum fast á stefnu okkar. Við viljum bjóða upp á rafbækur á eins hagstæðum kjörum og mögulegt er, sem og að aðgengi að þeim sé með besta móti. Í dag kosta nær allir titlar okkar um og undir þúsund krónum í rafbókaformi og eru fáanlegir fyrir alla rafbókalesara. Við treystum lesendum okkar, rétt eins og við treystum þeim til að fjölfalda ekki prentuð eintök þeirra bóka sem við höfum gefið út.

Um verðlagningu og kostnað við gerð rafbóka hefur nokkuð verið skrifað. Gísli Ásgeirsson hefur skrifað um þetta málefni tvær greinar (sjá hér og hér). Óli Gneisti Sóleyjarson fjallaði um sama mál (sjá hér) og af ummælum og svörum við færslum þeirra að dæma þá sýnist sitt hverjum. Hvert forlag verður að svara fyrir sig, en við hjá Rúnatý leggjum okkur fram við að halda kostnaði við gerð rafbóka lágum.

Við erum í óða önn að vinna að fleiri rafbókum og væntanlegar frá okkur á næstu mánuðum eru amk. tvær sögur, annars vegar vísindaskáldsaga og hins vegar gufupönksaga eftir tvo unga og efnilega höfunda. Hvort tveggja eru spennandi verkefni sem eru vel á veg komin og við hlökkum til að segja ykkur nánar frá þeim á komandi vikum og mánuðum.

Í síðustu viku settum við annars vegar Stolnar stundir eftir Ágúst Borgþór Sverrisson og smásöguna Rósu á sölu hjá rafbókabúðinni Skinna.is. Stolnar stundir er eitt af allra bestu verkum Ágústs og fékk góða dóma þegar hún kom út í prenti á sínum tíma. Við vonum að hægt verði að koma fleiri smásögum eftir Ágúst í rafbókaform og höfum auk þess heyrt í fleiri rithöfundum sem vilja gera efni sitt aðgengilegt á þessu formi. Smásagan Rósa eftir Þorstein Mar er ástarsaga og vann ástarsagnakeppni Vikunnar 2010. Stolnar stundir kosta 799 kr en Rósa 329 kr.


Fjallað um Þoku í Morgunblaðinu

Skáldsagan Þoka var tekin til umfjöllunar í Morgunblaðinu og fékk þar hálfa þriðju stjörnu.

Segir svo í umfjölluninni:

[…]
Persónusköpun er fín og vel tekst til við að gefa mynd af persónum sögunnar, bæði með með gerðum þeirra sem og lýsingum. Auðvelt er að tengjast þeim enda raunsæjar annað en söguþráðurinn, enda um yfirnáttúrulega sögu að ræða. Söguheimurinn er að sama skapi skemmtilegur og Reykjavík á níunda áratugnum sjaldan verið jafn nöturleg.
[…]
Þoka er ágætis afþreying og auðvelt að lesa hana í einum rykk.
Bendir gagnrýnandinn á helstu galla sögunnar, sem felast að hans mati í að sagan mætti vera frumlegri og dulúðin ekki nægilega öflug.

Fjallað um Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur í Víðsjá

Í gær var fjallað um H.  P. Lovecraft og þýðinguna á sögum hans, Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur, í Víðsjá á Rúv. Umfjöllunin var í senn afar fróðleg og skemmtileg og kom Björn Þór Vilhjálmsson inn á marga áhugaverða fleti er tengjast höfundinum sjálfum, áhrifum hans á rithöfunda 20. aldar en auk þess gagnrýndi hann þýðinguna og sagði m.a.:

Og nú hafa valdar sögur Lovecrafts birst í íslenskri þýðingu Þorsteins Mar undir nafninu Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur, en í safninu er að finna, auk titilsögunnar, þrjár stuttar sögur og eina nóvellu, sú síðastnefnda nefnist Við hugarfársins fjöll, en þessi prýðilega þýðing á titlinum, en á ensku nefnist sagan At the Mountains of Madness, gefur tóninn fyrir það sem mér sýnist, eftir að hafa borið frumtexta saman við þýðingu á nokkrum vel völdum stöðum, vera afskaplega vel unnar þýðingar.

Fyrir lítið forlag sem Rúnatý vegur þungt að fá umfjöllun sem þessa og þá sem Árni Matthíasarson birti í Morgunblaðinu. Að auka veg og efla virðingu fyrir furðusögum væri erfitt, ef ekki óhugsandi, án aðkomu fjölmiðla og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir að taka bækur okkar til rýni.

Hægt er að hlýða á umfjöllunina í heild sinni með því að smella hér.


Stolnar stundir – ný rafbók

Nóvellan Stolnar stundir segir frá nokkrum dögum í lífi ungra hjóna. Hringt er í skakkt númer sem á eftir að hafa ófyrirséðar afleiðingar og leyndarmál er afhjúpað. Stíll sögunnar er einfaldur en undir yfirborðinu leynast margræðar spurningar, meðal annars um sjálfstæði einstaklingsins gagnvart hlutverkunum sem hann leikur í tilverunni og hugarfarið í samfélaginu á nýliðnum góðærisárum. Ágúst Borgþór hefur getið sér gott orð sem smásagnahöfundur og er óhætt að segja að Stolnar stundir séu með hans bestu verkum.

Ágúst Borgþór hefur fengist við sagnagerð árum saman og sent frá sér fimm smásagnasöfn og eina skáldsögu. Næsta bók hans er væntanleg í haust. Ágúst Borgþór starfar ennfremur sem þýðandi og textasmiður hjá Skjal – þýðingastofu ehf. Hann er giftur, tveggja barna faðir og býr í Vesturbænum.

Smelltu hér til að kaupa bókina á Skinna.is