Monthly Archives: January 2013

Hvítir múrar borgarinnar komnir út

hvtucover9Í Hvítum múrum borgarinnar lýsir Einar Leif Nielsen framtíðarsýn þar sem allt er falt fyrir rétt verð, hverfi eru afgirt og ólíkar stéttar aðskildar. Þetta er áhugaverð vísindaskáldaga sem sækir í sama brunn og Cyberpunk og Blade Runner. Bókin kemur út í rafbókaformi í dag!

Í borg framtíðarinnar er allt falt fyrir rétt verð. Hverfi eru girt af með veggjum til að verja borgarana fyrir hvor öðrum og mismunandi stéttir aðskildar. Þeim sem standa ekki við skuldbindingar sínar er vísað úr borginni eða jafnvel teknir af lífi. Lex Absque er starfsmaður Vegarins sem innheimtir skuldir fyrir stórfyrirtækið Mammon. Þegar fjármálastjóri fyrirtækisins er myrtur kemur það í hlut Lex að leysa málið. Morðinginn er auðfundinn en Lex er ósáttur við lyktir málsins og ákveður að leita sannleikans upp á eigin spýtur. Þar með setur hann af stað atburðarás sem mun hafa áhrif á alla borgarbúa.

Smelltu hér til að kaupa bókina hjá Skinna.is

Smelltu hér til að kaupa bókina hjá Emma.is


Forlög stór og smá

bigsmallEitt af því sem gerir litlum forlögum erfitt fyrir er samkeppni við stóru útgáfufélögin. Ólíkt er að bera saman t.d. markaðsfé lítilla útgáfna á borð við okkur eða Bókabeituna annars vegar og hins vegar Forlagsins eða Bjarts. Auðvitað er það ójafn leikur og hafa margir farið flatt á því að reiða of hátt til höggs í baráttunni við Golíat. Sem dæmi um á hve ólíkum grundvelli útgáfur eru, mætti nefna að einhver af stærri félögunum hafa efni á að vera með fólk í vinnu við að stilla fram bókum í búðum ásamt því að geta ráðstafað heilu eða hálfu stöðugildi í að hafa samband við fjölmiðla. Vissulega er mikið munur á fjölbreytni og fjölda titla sem koma út hjá þessum útgáfum, Forlagið gefur út tugi titla árlega á meðan við erum með örfáa. Einnig eru þessi minni forlög oft rekin af meiri hugsjón en hreinræktaðri ósk um hagnað, þó vissulega sé alltaf markmiðið að koma út í lokin réttu megin við núllið.

Mikil vinna býður því þeirra sem vilja hasla sér völl í útgáfuheiminum hérlendis. Sem betur fer taka flestar bókabúðir vel á móti nýjum titlum og stilla þeim fram, en skiljanlega, getur verið erfitt að mæla gegn því þegar sölumenn stóru útgáfanna vilja færa sínar bækur framar, þá á kostnað bóka minni forlaganna. Þannig mætti segja að nokkuð sé ójafnt skipt í liðin á leikvellinum, en það er nokkuð sem við getum alveg sæst á. Við vissum það þegar við lögðum af stað í þessa vegferð að við værum lítill aðili og að við værum ekki endilega alltaf með efni í höndunum sem ætti greiða leið að neytendum.

Það sem er hins vegar gagnrýni vert, að okkar mati, er Félag íslenskra bókaútgefenda. Eins og nafnið gefur til kynna þá er um að ræða félag sem gætir að hagsmunum bókaútgefenda. Við höfðum samband við félagið snemma á síðasta ári til að sækja um inngöngu, en skv. reglum félagsins þarf að hafa gefið út fjóra titla á einu ári til að öðlast rétt til að sækja um inngöngu, eins og sjá má í 3. grein laga félagsins:

3. grein
Félagar geta orðið allir sjálfstæðir lögaðilar, einstaklingar eða fyrirtæki, sem gefið hafa út að minnsta kosti fjóra bókatitla á undangengnu útgáfuári. […]

Þessi grein tryggir að smærri útgáfur, á borð við okkur, geta ekki sótt um aðild og hafa þannig ekki málsvara í félaginu. Samkvæmt upplýsingum á síðu félagsins þá voru þessi lög síðast uppfærð og samþykkt á aðalfundi þann 29. apríl 2010. Hvaða tilgangi þessi grein þjónar, öðrum en að tryggja ítök stærri útgáfnanna, vitum við ekki og væri áhugavert að heyra hvers vegna útgáfur sem gefa út 1-3 titla á ári þykja minna verð inngöngu en útgáfur sem gefa út 4 titla á ári.

Annað sem hefur verið áhugavert að fylgjast með, er aðkoma félagsins í umræðuna um rafbækur og afritunarvarnir. Í stuttu máli sagt, þá má það skilja á talsmönnum félagsins að sú lausn sem Rafbókalagerinn (sem er að hluta til í eigu Forlagsins) sé ákjósanleg. Við höfum margsinnis farið yfir hver okkar afstaða er í þeim málum en hins vegar er áhugavert að bera saman þá sem sitja í stjórn félagsins annars vegar og hins vegar þau forlög sem hafa farið þá leið sem Rafbókalagerinn býður upp á.

Þrátt fyrir það ber að taka fram að félagið hefur staðið fyrir fjölmörgum góðum verkum, starfi sem við vildum gjarnan taka þátt í. Félagið hefur barist fyrir auknum lestri og veitir verðlaun til rithöfunda, auk þess að styrkja skólabókasöfn og svo mætti lengi telja. Það er alls ekki ætlunin að draga úr því starfi sem unnið er í félaginu, þó svo að reglur þess og nálgun á rafbókavæðinguna mætti endurskoða, að okkar mati.

Í ljósi þessara reglna er spurning hvort minni forlög taki höndum saman. Eigi slík forlög sér ekki málsvara í Félagi íslenskra bókaútgefenda, er hættan sú að rödd þeirra heyrist síður og hagsmunir verði fyrir borð bornir. Sé litið til hvaða forlögum meðlimir stjórnar félagsins tilheyra leikur enn minni vafi á að litlu útgáfurnar eiga þar sér fáa málssvara, þrátt fyrir góðan vilja stjórnar. Kannski er þörf á því að minni aðilar á þessum markaði myndi með sér félag, þannig að hagsmunir þeirra gleymist ekki. Kannski er þörf á því að Félag íslenskra bókaútgefenda breyti lagagreinum þannig að minni útgáfur sjái sér fært að sækja um aðild og taka þátt í félagskapnum af fullum hug.