Category Archives: Bókakynningar

Hvítir múrar borgarinnar komnir út

hvtucover9Í Hvítum múrum borgarinnar lýsir Einar Leif Nielsen framtíðarsýn þar sem allt er falt fyrir rétt verð, hverfi eru afgirt og ólíkar stéttar aðskildar. Þetta er áhugaverð vísindaskáldaga sem sækir í sama brunn og Cyberpunk og Blade Runner. Bókin kemur út í rafbókaformi í dag!

Í borg framtíðarinnar er allt falt fyrir rétt verð. Hverfi eru girt af með veggjum til að verja borgarana fyrir hvor öðrum og mismunandi stéttir aðskildar. Þeim sem standa ekki við skuldbindingar sínar er vísað úr borginni eða jafnvel teknir af lífi. Lex Absque er starfsmaður Vegarins sem innheimtir skuldir fyrir stórfyrirtækið Mammon. Þegar fjármálastjóri fyrirtækisins er myrtur kemur það í hlut Lex að leysa málið. Morðinginn er auðfundinn en Lex er ósáttur við lyktir málsins og ákveður að leita sannleikans upp á eigin spýtur. Þar með setur hann af stað atburðarás sem mun hafa áhrif á alla borgarbúa.

Smelltu hér til að kaupa bókina hjá Skinna.is

Smelltu hér til að kaupa bókina hjá Emma.is


Stolnar stundir – ný rafbók

Nóvellan Stolnar stundir segir frá nokkrum dögum í lífi ungra hjóna. Hringt er í skakkt númer sem á eftir að hafa ófyrirséðar afleiðingar og leyndarmál er afhjúpað. Stíll sögunnar er einfaldur en undir yfirborðinu leynast margræðar spurningar, meðal annars um sjálfstæði einstaklingsins gagnvart hlutverkunum sem hann leikur í tilverunni og hugarfarið í samfélaginu á nýliðnum góðærisárum. Ágúst Borgþór hefur getið sér gott orð sem smásagnahöfundur og er óhætt að segja að Stolnar stundir séu með hans bestu verkum.

Ágúst Borgþór hefur fengist við sagnagerð árum saman og sent frá sér fimm smásagnasöfn og eina skáldsögu. Næsta bók hans er væntanleg í haust. Ágúst Borgþór starfar ennfremur sem þýðandi og textasmiður hjá Skjal – þýðingastofu ehf. Hann er giftur, tveggja barna faðir og býr í Vesturbænum.

Smelltu hér til að kaupa bókina á Skinna.is


Kall Cthulhu

Vinna er í fullum gangi þessa dagana við að koma nýjum bókum á prent og í rafbókaform. Við erum að fá handritin aftur úr prófarkarlestri, vinna að gerð kápa og ganga frá lausum endum er snerta alla þá þætti sem í huga þarf að hafa fyrir útgáfu sem okkar. Okkur langar hins vegar að sýna ykkur kápuna sem mun verða á Kall Cthulhu, sem inniheldur þýðingu á nokkrum sögum eftir H. P. Lovecraft. Þær sögur sem birtast í þessu safni eru: Vitnisburður Randolps Carters, Hinir guðirnir, Kettirnir í Ulthar, Kall Cthulhu og Við hugarfársins fjöll. Þessar sögur teljum við gefa ágæta mynd af Lovecraft, í safninu má finna sögur frá poeíska tímabilinu hans, dunsaníska tímabilinu og loks tvær sögur sem fjalla um Cthulhu-vættina (e. Cthulhu-Mythos).

Við ráðgerum að klára samninga við vefverslunina Skinna.is, en þar verða seldar íslenskar rafbækur. Samkvæmt vefsíðu þeirra þá stefna þeir á að opna 11. mars og erum við í óða önn að gera efni okkar klárt. Við munum bjóða þar til sölu Myrkfælni í heild sinni, sem og einstaka sögur úr þeirri bók. Einnig verður hægt að kaupa smásögur Jóhanns Þórssonar og Lovecrafts. Svo þegar nýju bækurnar koma út verður hægt að fá þær rafrænt þar einnig, að sjálfsögðu á frábæru verði.

Þannig, góðir tímar framundan og spennandi.


Ný rafbók: Heimkoma

Nú er komin ný rafbók á vefinn okkar. Um er að ræða smásögu eftir Þorstein Mar, en skáldsaga eftir hann kemur út á okkar vegum nú í vor. Smásagan sem um ræðir fjallar um mann sem snýr aftur á æskustöðvar sínar en fortíðin ásækir hann, fortíð sem hann hefur gleymt og reynt að leggja til hliðar. Umhverfi sögunnar er gotneskt og aðstæður mannsins hrollvekjandi. Sagan heitir Heimkoma.

Annars eru góðar fréttir af rafbókamálum. Við erum að ganga frá samningi við söluaðila og munum í framhaldi semja við höfunda okkar. Hugmyndin er að leggja lágmarksgjald á þær sögur sem frá okkur koma í rafbókformi, hvort sem um er að ræða smásögur eða skáldsögur. Við viljum tryggja að höfundar okkar fái greitt fyrir vinnu sína. Hingað til höfum við gefið þær rafbækur sem hér á síðunni hafa birst, en í framtíðinni langar okkur að leggja lágmarksverð á þær, smásögur á 200-400 kr. en skáldsögur á 1400-1700 kr. Við vonum að lesendur taki vel í þetta. Fátt hvetur höfund jafn mikið til dáða og fá greitt fyrir verk sín og við viljum ekki láta okkar eftir liggja.

Endilega leyfið okkur að heyra hvað ykkur finnst um þessar fyrirætlanir okkar. Allar ábendingar og athugasemdir vel þegnar.

 


Ný rafbók – Svartárkot

Í dag kemur út ný rafbók á vegum Rúnatýs. Hana má finna, eins og allar rafbækur útgáfunnar, hér á síðunni. Sagan sem um ræðir er hrollvekja og gerist um miðbik síðustu aldar á norðurlandi. Segir þar maður sögu sína, en hann hefur verið dæmdur fyrir að myrða á hrottafengin hátt dætur sínar tvær. Þó er meira sem liggur að baki sögu hans og ljóst að ekki er allt sem sýnist.

Annars er það að frétta af útgáfunni að handrit eru nú í prófarkarlestri sem og verið er að vinna við hönnun á kápum. Við hlökkum mikið til að sýna ykkur afraksturinn og munum eflaust leyfa ykkur að sjá kápurnar áður en þær fara í prentun, svona upp á að heyra hvað ykkur finnst. Auk þess erum við á fullu við að leita að góðum lausnum, svo við getum einnig selt nýju titlana sem og Myrkfælni sem rafbækur. Við erum, eins og einhverjir hafa eflaust gert sér grein fyrir, mjög spennt fyrir rafbókamarkaðinum en erfiðlega gengur að finna leiðir sem henta okkar litlu útgáfu.

Markmið okkar með rafbókaútgáfu er í senn að gera flott íslenskt genre efni aðgengilegt á rafbókaformi og eins að það sé á ásættanlegu verði.


Myrkfælni

Nýtt íslenskt hrollvekjusafn hefur litið dagsins ljós. Bókin Myrkfælni hefur að geyma ellefu stuttar hrollvekjur sem allar fá hárin til að rísa. Sögurnar eru mjög ólíkar, allt frá þjóðsagnakenndum ævintýrum að fantasíum.

Eins og segir á kápu bókarinnar þá er „Myrkfælni smásagnasafn sem hefur að geyma ellefu hrollvekjur þar sem lesendur rekast á ýmsar furður og fólk, jafnt úr fortíð sem nútíð. Sumt má útskýra, annað ekki. Draugar og hvers kyns óvættir birtast mönnum, leiða þá á villgötur og vekja óhug.“ Þó svo allar sögurnar séu hrollvekjur er þær afar ólíkar, allt frá því að hafa nánast þjóðsagnakenndan ævintýrablæ að því að teljast hreinræktaðar fantasíur.

Myrkfælni er fyrsta bók höfundarins Þorsteins Mars sem þó hefur fengið þónokkrar sögur birtar í tímaritum á undanförnum árum. „Ég hef lengi gengið með þennan draum í maganum og reynt að koma skrifum mínum á framfæri,“ segir Þorsteinn. „Hrollvekjur hafa ekki fengið mikla athygli hér á landi og mér fannst kominn tími til að bæta úr því. Ég hef sjálfur mjög gaman af hrollvekjum, og þá ekki síður að lesa þær en skrifa.“ Hann einskorðar sig þó ekki við þess lags bókmenntir og má nefna að hann bar sigur úr býtum í ástarsagnakeppni Vikunnar síðasta sumar, með sögunni Rósu.

Þorsteinn Mar er 33 ára gamall. Hann er menntaður íslenskufræðingur og kennari og starfaði sem slíkur um nokkurst skeið. Undanfarin ár hefur hann hins vegar sinnt starfi vefstjóra hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni.

Myrkfælni er gefin út af nýrri útgáfu, Rúnatý. Þar er ætlunin að leggja áherslu á útgáfu bókmennta sem alla jafna hafa lítið sést hérlendis. Einkum er um að ræða hrollvekjur, fantasíur og vísindaskáldsögur, svokallaðar genre bókmentir. Þess má geta að Rúnatýr merkir guð rúnanna, eða sá sem valdið hefur yfir rúnum, sem verður að teljast skemmtilegt nafn á bókaútgáfu.