Category Archives: Fréttir

Með blóði vættan góm

Brother SpiritBókmenntadagskrá, ljósmyndasýning og frítt í bíó í Mögnuðu myrkri á Vetrarhátíð í Reykjavík

Bókmenntaborgin Reykjavík og forlagið Rúnatýr bjóða upp á hrollvekjandi dagskrá um vampírur og aðrar myrkar verur í Bíó Paradís á opnunarkvöldi Vetrarhátíðar í Reykjavík, fimmtudagskvöldið 7. febrúar 2013. Dagskráin hefst kl. 20:30 og henni lýkur með sýningu á kvikmyndinni Nosferatu.

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir bókmenntafræðingur og útvarpskona spjallar um furðusögur, höfundar lesa úr frumsömdum verkum sínum og einnig les Gerður Sif Ingvarsdóttir úr nýrri þýðingu sinni á skáldsögunni Drakúla eftir Bram Stoker. Höfundar sem lesa frumsamið efni eru Þorsteinn Mar sem les úr smásagnasafninu Myrkfælni, Jóhann Þórsson sem les úr ónefndri smásögu og Einar Leif Nielsen, en hann les úr nýútkominni skáldsögu sinni, Hvítir múrar borgarinnar.

Ljósmyndir sem hæfa efninu eftir Guðmund Óla Pálmason (öðru nafni Heldriver) verða á veggjum, en hann sýnir myndir úr seríunni Ghosts of Light. Þar gefur að líta útfrymi, líkamninga og aðrar kynjaverur. Auk þessa að leggja stund á ljósmyndun spilar Guðmundur Óli á trommur með hljómsveitinni Sólstafir.

Þegar bókmenntadagskránni lýkur verður hin fræga vampírumynd F.W. Murnaus frá 1922 um Orlok greifa, Nosferatu, sýnd í sal 2. Kvikmyndasýningin hefst kl. 22 og kostar ekkert inn.

Nosferatu er byggð á skáldsögu Stokers um Drakúla greifa, en nöfnum sögupersóna er þó breytt þar sem ekki náðust samningar um aðlögun bókarinnar. Orlok greifi er leikinn af Max Schreck og með önnur hlutverk fara m.a. Greta Schröder og Gustav von Wangenheim. Nosferatu er ein þekktasta mynd þýska expressjónismans og hér gefst sjaldgæft tækifæri til að upplifa þetta meistaraverk í sögu hrollvekjumynda á stóru tjaldi.

Dagskráin í Bíó Paradís er opin og aðgangur ókeypis, en vart þarf að taka fram að hún er ekki við hæfi barna.

Meðfylgjandi er ljósmynd eftir Guðmund Óla. Titill myndarinnar er „Brother spirit“.


Grein í Morgunblaðinu svarað

Við hjá Rúnatý ákváðum að svara blaðamanni vegna greinar um rafbækur, sem birt var á mbl.is um helgina. Þar var m.a. gefið í skyn að allar íslenskar rafbækur séu aðeins fáanlegar á epub-sniði. Við viljum benda á að það er ekki rétt og um sé að ræða pólitíska ákvörðun hvers forlags fyrir sig, hvort gefið sé út efni fyrir Kindle notendur eða ekki.

Komdu sæl, Anna Lilja.

Það var áhugavert að lesa grein þína um rafbækur nú um helgina á mbl.is. Mikið hefur nú þegar verið skrifað um þetta áhugaverða málefni og sýnist sitt hverjum, sérstaklega þegar kemur að verðlagningu þeirra annars vegar og hins vegar ólíka nálgun forlaga á aðgengi notenda að rafbókum.

Eins og þú bendir á í greininni eru nokkrar íslenskar rafbókaverslanir sem selja íslenska titla. Það sem kemur hins vegar ekki fram í grein þinni er að fjölmargar útgáfur gefa nú þegar út fyrir Kindle lesbrettið, við í Rúnatý á meðal þeirra. Við höfum gefið út rafbækur frá því seint á síðasta ári, í fyrstu gáfum við út smásögur í rafbókaformi á heimasíðu okkar en með tilkomu emma.is og skinna.is hafa allar okkar bækur verið fáanlegar í rafbókaformi, bæði epub og mobi (skráarsnið sem Kindle les). Við erum langt frá því eina forlagið sem gerir svo, einnig Bókabeitan, Ugla, Urður bókafélag, Vestfirska forlagið, Salka, Sögur útgáfa og svo mætti lengi telja (þetta er auðvelt að sjá með því að skoða úrval rafbóka á skinna.is og emma.is).

Amazon bannar engum að gefa út fyrir Kindle lesbrettið. Hægt er að nálgast rafbækur fyrir Kindle t.d. á vef Gutenberg project, Gutenberg.org. Hins vegar hefur Amazon gefið það út að þeir hafi ekki áhuga á að taka örmarkaði inn í sína eigin vefverslun, á borð við íslenska markaðinn. Þó er íslenskum forlögum og bókaútgáfum ekkert til vanbúnaðar að gefa út bækur fyrir Kindle og selja í íslenskum rafbókaverslunum, rétt eins við minni forlögin gerum. Ef verið er að leita eftir afritunarvörn þá býður Skinna.is upp á ákveðna lausn í þeim málum. Þetta er því í raun lítið annað en geðþótta ákvörðun hvers forlags fyrir sig og mikilvægt að neytendur viti það.

Ég hvet þig eindregið til að halda áfram umfjöllun þinni um rafbækur og rafbókavæðinguna. Það er heilmargt í henni sem er afar áhugavert og þarfnast rýni fjölmiðla við.

Fyrir hönd Rúnatýs útgáfu,
Þorsteinn Mar


Fjallað um Þoku í Morgunblaðinu

Skáldsagan Þoka var tekin til umfjöllunar í Morgunblaðinu og fékk þar hálfa þriðju stjörnu.

Segir svo í umfjölluninni:

[…]
Persónusköpun er fín og vel tekst til við að gefa mynd af persónum sögunnar, bæði með með gerðum þeirra sem og lýsingum. Auðvelt er að tengjast þeim enda raunsæjar annað en söguþráðurinn, enda um yfirnáttúrulega sögu að ræða. Söguheimurinn er að sama skapi skemmtilegur og Reykjavík á níunda áratugnum sjaldan verið jafn nöturleg.
[…]
Þoka er ágætis afþreying og auðvelt að lesa hana í einum rykk.
Bendir gagnrýnandinn á helstu galla sögunnar, sem felast að hans mati í að sagan mætti vera frumlegri og dulúðin ekki nægilega öflug.

Fjallað um Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur í Víðsjá

Í gær var fjallað um H.  P. Lovecraft og þýðinguna á sögum hans, Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur, í Víðsjá á Rúv. Umfjöllunin var í senn afar fróðleg og skemmtileg og kom Björn Þór Vilhjálmsson inn á marga áhugaverða fleti er tengjast höfundinum sjálfum, áhrifum hans á rithöfunda 20. aldar en auk þess gagnrýndi hann þýðinguna og sagði m.a.:

Og nú hafa valdar sögur Lovecrafts birst í íslenskri þýðingu Þorsteins Mar undir nafninu Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur, en í safninu er að finna, auk titilsögunnar, þrjár stuttar sögur og eina nóvellu, sú síðastnefnda nefnist Við hugarfársins fjöll, en þessi prýðilega þýðing á titlinum, en á ensku nefnist sagan At the Mountains of Madness, gefur tóninn fyrir það sem mér sýnist, eftir að hafa borið frumtexta saman við þýðingu á nokkrum vel völdum stöðum, vera afskaplega vel unnar þýðingar.

Fyrir lítið forlag sem Rúnatý vegur þungt að fá umfjöllun sem þessa og þá sem Árni Matthíasarson birti í Morgunblaðinu. Að auka veg og efla virðingu fyrir furðusögum væri erfitt, ef ekki óhugsandi, án aðkomu fjölmiðla og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir að taka bækur okkar til rýni.

Hægt er að hlýða á umfjöllunina í heild sinni með því að smella hér.


Þoka og Kall Cthulhu á Hópkaupstilboði

Næstu vikur verður hægt að fá Þoku og Kall Cthulhu & fleiri hrollvekjandi sögur á frábæru tilboði hjá Hópkaupum. Aðeins 2.470 kr. fyrir báðar bækur og er heimsending innifalin í tilboðinu. Smelltu hér til að skoða tilboðið.

Báðar bækur hafa fengið ágæta dóma, Þoka fékk 3 stjörnur í umfjöllun á vefsíðunni Nörd Norðursins og Kall Cthulhu & fleiri hrollvekjandi sögur fékk hálfa fjórðu stjörnu í umfjöllun Morgunblaðsins. Þetta er því upplagt tækifæri til að komast yfir bækurnar á góðu verði.


Fjallað um Kall Cthulhu í Morgunblaðinu

Fjallað var um þýðinguna á sögum Lovecrafts í Morgunblaðinu á fimmtudaginn var og sagði Árni Matthíasson að sögurnar væru ósvikin skemmtilesning. Einnig nefndi hann að Þorsteinn Mar hefði komist alla jafna vel frá þýðingunni, en hún væri á nokkrum stöðum stirðbusaleg og kannski full nálægt stíl Lovecrafts. Í heildina fær bókin þrjár og hálfa stjörnu.


Vegna greinar um rafbækur í Morgunblaðinu

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 4. ágúst síðastliðinn er eftirfarandi haft eftir Kristjáni B. Jónassyni, formanni Félags íslenskra bókaútgefenda: ,,[Það var] kappsmál útgefenda að virðisaukaskattur á rafbókum yrði lækkaður og að almennilega yrði staðið að dreifingu bókanna og þær vistaðar í vöruhúsi eins og því sem snara.is starfrækir.”

Um leið og við hjá Rúnatý fögnum því allri umræðu um rafbækur, þá langar okkur til að benda á eftirfarandi.

Það er ekki kappsmál okkar að allir útgefendur sameinist í einu vöruhúsi, enda teljum við að slíkt þjóni ekki hagsmunum neytenda. Við munum aldrei sætta okkur við að geta ekki boðið upp á rafbækur okkar fyrir alla rafbókalesara. Við teljum að hagsmunir neytenda, krafa þeirra um gott aðgengi, ásættanlega og gegnsæa verðlagningu, vegi þyngra en mikilvægi þess að allir útgefendur standi saman í von um að koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal. Við teljum að besta vopnið til þess sé einmitt að treysta þeim mikla meirihluta neytenda sem kaupir rafbækur og dreifir þeim ekki ólöglega og láta þá þannig ekki líða fyrir hegðun minnihlutans, rétt eins og við treystum kaupendum prentaðra titla til að ljósrita ekki bækur og dreifa þeim til vina, kunningja og ókunnugra.

Orð Kristjáns endurspegla þar af leiðandi ekki afstöðu Rúnatýs, en Rúnatýr útgáfa er ekki í Félagi íslenskra bókaútgefenda, þar sem forlagið uppfyllir ekki kröfur sem gerðar eru til félagsmanna.