Tag Archives: afritunarvarnir

Rafbókaárið 2012

Rafbækur hafa svo sannarlega vakið athygli á árinu. Fjölmargar útgáfur og forlög hafa gefið út titla í því formi og er óhætt að segja að það hafi komið umræðunni vel af stað, eins og sjá má í fjölmörgum bloggum og blaðagreinum. Hins vegar er eins og ákveðnir þættir umræðunnar komist ekki til skila og virðist sama hversu oft umræðan fer í gang, oftast snýst hún um sömu atriðin, þ.e. verðlagningu, aðgengi eða afritunarvarnir og svo loks Kindle.

Verðlagning

Mörgum finnst rafbækur dýrar. Séu vinsælustu titlar jólabókaflóðsins skoðaðir þá kosta þeir á milli 3.000 og 4.000 kr. í rafbókaformi. Í prentuðu formi kosta þeir frá 3.500 kr og upp undir 6.000 kr. Í sumum tilfellum munar ekki nema nokkrum hundrað körlum á rafbók og innbundnu eintaki.

Það er hverjum útgefanda í sjálfsvald sett hvert heildsöluverð hann ákveður, með því ákveður hann í raun hvert útsöluverð bókar sé, hvort sem um rafbók er að ræða eða prentaða, því flestar verslanir eru með ákveðna prósentu sem þær leggja ofan á heildsöluverðið. Álagning rafbókaverslanna er oftast nær um helmingur af álagningu hefðbundinna bókaverslanna.

Oft er kvartað yfir of háu verðlagi, í ljósi þess að ekki leggist prentkostnaður á rafbókina. Það er alveg rétt, en þó er ágætt að hafa í huga, að annar kostnaður gerir það engu að síður og oftast nær er hlutur höfunda stærri af sölu rafbóka, t.d. þarf að markaðssetja og prófarkarlesa rafbækur. Vissulega má segja að sá kostnaður dreifist jafnt milli prentaða eintaksins og rafbókarinnar, en kostnaðurinn er engu að síður til staðar.

Hins vegar nálgast útgáfur verðlagningu rafbóka hver á sinn hátt og höfum við hjá Rúnatý nálgast hana á þann hátt, að við viljum frekar vera í neðri mörkunum og selja þá hugsanlega eilítið fleiri eintök, en að vera við efstu þolmörk notenda og missa þannig þá af sölu.

Aðgengi eða afritunarvarnir

Eins og flestir unnendur rafbóka ættu að vita, þá hafa nokkrar útgáfur hérlendis ákveðið að notast við afritunarvarin ePub skjöl, sem sniðmát fyrir rafbækur sínar. Slíkt er gert fyrst og fremst til að verja útgáfurnar fyrir mögulegu tapi af ólöglegri dreifingu verka þeirra. Ólögleg dreifing er, sama hvað fólki kann að finnast, raunverulegt vandamál á netinu og nokkuð sem allir útgefendur hugverka hafa áhyggjur af, enda getur hún kostað þá háar fjárhæðir.

Hins vegar hefur þetta leitt til þess, að aðgengi notenda, t.d. notenda Kindle, er ekki sem best og því miður hefur umræðu verið haldið á lofti sem er í senn villandi og röng, bæði af hálfu forsvarsmanna stórra forlaga og rafbókasala. Mikilvægt er að rangfærslur sem fram koma hjá viðkomandi aðilum séu leiðréttar, þannig þeir notendur sem ekki eru vel upplýstir fái sem réttastar upplýsingar í hendur hverju sinni.

Afritunarvarnir eru þannig hugsaðar fyrst og fremst til að verja hag útgefenda og rithöfunda. Hins vegar er ágætt að hafa í huga, að á öllum stærstu íslensku deilisíðum er stranglega bannað með öllu að dreifa íslensku efni. Auk þess verðum við títt vör við það hugarfar, að íslenskir notendur vilji ekki dreifa íslensku efni, einfaldlega af því viðkomandi vill styðja íslenska listamenn. Við reiknum með að svo sé í miklum meirihluta tilfella og ákváðum að líta á það sem ásættanlegan fórnarkostnað, væri verkum okkar dreift lítilllega ólöglega, ef tryggt væri að aðgengi væri með allra besta móti og notendur þannig ánægðir.

Afritunarvörnin og skilmálar sumra rafbókaverslanna eru hins vegar þannig úr garði gerð, að efast má um hvort löglegt sé að kalla það kaup, þegar rafbók er keypt eftir þeim leiðum. Það er nokkuð sem við teljum vera áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þess að hægt er að loka aðgangi notenda og loka þannig á að þeir geti notað rafbækur eða skjölin sem voru varin með þeim hætti. Þannig hefur notandinn ekki lengur fulla stjórn á eign sinni og er spurning hversu eðlilegt sé að kalla slíkt kaup. Hvetjum við notendur til að kynna sér vel í hverju afritunarvörn og skilmálar viðkomandi rafbókaverslana felast, áður en fest eru kaup á rafbók.

Kindle

Eftirfarandi spurningu eða svipaða sjáum við oft á spjallsíðum og samfélagsmiðlum og okkur er ljúft að svara þeim eftir bestu þekkingu okkar: Af hverju get ég ekki fengið íslenskar bækur á Kindle’inn minn?

Það er hægt og í dag selja emma.is og skinna.is rafbækur á mobi sniði. Nokkur af stærstu forlögum landsins hafa ákveðið að gefa ekki efni út á því sniði, því erfitt er að afritunarverja það. Það svar er oft gefið, að Amazon framleiðir og selur Kindle lesbrettin fyrst og fremst til að selja bækur á læstu Mobi sniði og hafi ákveðið að hafa kerfi sitt lokað utanaðkomandi aðilum. Það er í senn villandi og rangt, Amazon hefur gefið það út að öllum sé frjálst að gefa út efni fyrir Kindle. Hins vegar styðst Kindle Store við ákveðin skráarformöt (AZW, Mobi, PRC og KF8) sem eru afritunarvarin af þeirra hálfu, með afritunarvarnarkerfi Amazon, sem útgefendur bóka sem seldar eru í Kindle Store, ráða hvort notuð sé á rafbækur þeirra. Í raun er sú krafa, að hvaða rafbókasala sem er geti notað afritunarvörn Amazon álíka undarleg og ef við myndum ætlast til að geta selt rafbækur okkar með afritunarvörn Skinna.is á ebækur.is. Afritunarvarnir téðra fyrirtækja eru einkaeign þeirra og getur Amazon, líkt og Skinna, skilyrt notkun þeirra við eigin verslanir.

Það er því í raun lítið annað en pólitísk ákvörðun hvers forlags fyrir sig, hvort gefið sé út efni fyrir Kindle eða ekki. Svarið við þeirri spurningu endurspeglar, að okkar mati, hvaða augum útgáfurnar líta lesendur og notendur rafbóka. Það er vissulega erfiðara að afritunarverja rafbækur fyrir Kindle og kallar það því eftir að útgáfur leggi meira traust á notendur en ella. Sumar útgáfur gera það, m.a. Rúnatýr, og gefum við út allt okkar efni fyrir alla rafbókalesara, því við teljum að besta leiðin til að koma í veg fyrir ólöglega dreifingu er að tryggja að notendur eigi auðvelt með að nálgast efnið eftir löglegum leiðum.

Hins vegar er leiðinlegt að sjá, hvernig útgefendur hafa vísað ábyrgðinni á þessu vali yfir á Amazon, sem hefur ekki annað til sakar unnið en að neita að taka örmarkaði á borð við þann íslenska inn í Kindle store. Enn leiðinlegra er að sjá forsvarsmenn stórra rafbókaverslanna ítreka það í eyru notenda sinna en á sama tíma tala um að þeir vildu glaðir gefa út efni fyrir Kindle. Glöggir notendur sjá hins vegar fljótlega í gegnum slíkt, því marga þá titla sem fáanlegir eru á einum stað aðeins í afritunarvörðu ePub formi, eru fáanlegir á þeim næsta í Mobi formi. Þannig er eitt í orði en annað á borði og ljóst að sumar rafbókaverslanir ganga erinda útgefenda í stað þess að bera hag notenda fyrir brjósti.

Að lokum langar okkur til að þakka ykkur kærlega fyrir viðskiptin og samskiptin á árinu sem nú er að líða. Á næsta ári munum enn sækja fram og stefnum á að gefa út fleiri furðusögur, vonandi þær fyrstu strax á fyrstu mánuðum nýs árs. Eigið gleðileg áramót og farsælt komandi ár.

Advertisements

Notendur eða útgefendur?

Í gær fór fram ansi áhugaverð umræða á Facebooksíðu Rafbókavefsins um streymislausn Rafbókalagersins. Í stuttu máli gengur hugmyndin út á að notendur geti skráð sig inn á heimasíðu og keypt sér aðgang að bókum, sem þeir lesa síðan í vafra. Þessi lausn hentar vel þeim sem eru með spjaldtölvur, snjallsíma eða finnst gott að lesa af skjám borðtölva. Hugmyndin reiðir sig á að notandi sé nettengdur en þó gaf Egill, framkvæmdastjóri Forlagsins, því undir fótinn að verið væri að vinna að lausn sem vistar hluta efnisins í minni vafrans, þannig að þörfin á nettengingu væri ekki alger. Þessi hugmynd er um margt góð og ber að hrósa Forlaginu fyrir framtakssemina og áhugann sem þeir sýna rafbókum. Sá galli er þó á gjöf Njarðar, að þessi lausn hentar ekki fyrir notendur Kindle Wifi og eldri gerða Kindle, sem og að notendur eiga þannig séð ekki bækurnar og geta ekki skipst á bókum. Vonandi verður þó hægt að finna lausn á því.

Nokkuð margir notendur höfðu áhyggjur af nálgun forsvarsmanna Forlagsins og Rafbókalagersins að Kindle lesbrettinu og notendum þess. Var nokkuð rætt um hvers vegna Rafbókalagerinn styður ekki mobi skráarsniðið, þar sem margar rafbókaverslanir hérlendis gera það (emma.is, skinna.is og rafbokavefur.is). Því var svarað með því að ekki væri hægt að afritunarverja slíkar rafbækur, nema með félagslegri afritunarvörn, eins og Marínó, forsvarsmaður Rafbókalagersins komst að orði. Vildi hann meina að útgefendur treystu ekki slíkri afritunarvörn.Við getum ekki svarað fyrir aðrar útgáfur en okkar eigin, en við teljum að mikilvægast að notendur séu sáttir og eigi auðvelt með að nálgast rafbókina á þeim lesbrettum sem þeir kjósa að nota.

Við hjá Rúnatý lítum svo á, að afritunarvörn sé fyrst og fremst hugsuð fyrir útgefendur, svo við sofum betur á næturnar, þannig skapa þær ákveðna öryggiskennd hjá okkur. Ef við skoðum þær afritunarvarnir sem notaðar eru hérlendis þá eru þær eftirfarandi:

  • Rafbókavefur.is  notast ekki við afritunarvörn.
  • Emma.is notast ekki við afritunarvörn, treystir viðskiptavinum sínum fyrir því að dreifa ekki verkum ólöglega.
  • Skinna.is notast við félagslega afritunarvörn, þ.e. hver rafbók er merkt kaupanda sínum og viðkomandi er treyst fyrir því að dreifa ekki verkunum ólöglega. Einnig notast Skinna.is við þá afritunarvörn sem fylgir rafbókum af vef Rafbókalagersins, Adobe DRM, og þurfa notendur að hafa aðgang að Adobe ID.
  • Ebækur.is notast við sömu afritunarvörn og Rafbókalagerinn.
  • Eymundsson.is notast við sömu afritunarvörn og Rafbókalagerinn.
  • Forlagid.is notast við sömu afritunarvörn og Rafbókalagerinn.

Adobe DRM kallar á að settur sé upp sérstakur vefþjónn, sem kostar nokkur þúsund dollara auk árlegs gjalds, sem er um fjórðungur af upphaflegum kostnaði. Fyrir hvert niðurhal þarf síðan útgefandi að greiða nokkur sent. Við höfum ekki fengið reikning vegna félagslegrar afritunarvarnar Skinna.is en reiknum með að sá kostnaður sé hluti af álagningu þeirra. Eðli málsins samkvæmt kostar engin afritunarvörn Emma.is ekkert. Hjá Skinna.is er óverulegt skráningargjald, en ekkert hjá Emma.is, hins vegar munar lítillega á álagningu þessara aðila og þar er Skinna.is lægri. Hvað varðar skráningargjöld og kostnað hjá Rafbókalagernum, þá erum við ekki í viðskiptum við þá, þannig við getum ekki fjölyrt um þann kostnað. Hugsanlega getur einhver frætt okkur um það?

Félagslega afritunarvörnin er vatnsmerki. Hver sá sem kann að slá inn leitarorð í leitarvélar og hefur grunnþekkingu á tölvum og uppsetningu hugbúnaðar á þær (sem sagt, getur smellt á Accept o.s.frv.) getur auðveldlega fjarlægt nokkurn veginn hvaða afritunarvörn sem er. Það gildir um Adobe DRM, auðvelt er að finna hugbúnað sem fjarlægir afritunarvörnina, og á við um allar afritunarvarnir, líka þær sem eru á skjölum frá Amazon. Gallinn við afritunarvarnir er nefnilega sá, að fyrir suma virka þær bara eins og krefjandi heimaverkefni í skóla, þeim finnst þeir þurfa að dírka upp lásinn og búa til hugbúnað sem getur gert það. Sumar afritunarvarnir miðast auk þess við að þú notir ákveðinn hugbúnað til að lesa viðkomandi skjal, t.d. er ekki hægt að opna bækur varðar með Adobe ID í Kindle og iBooks. Bækur varðar með Amazon afritunarvörninni er bara hægt að opna í Kindle og svo mætti áfram lengi telja. Þannig eru notendur skikkaðir til að nota ákveðinn hugbúnað umfram að þeir kjósi sjálfir hvaða tæki eða hugbúnað þeir noti. Afritunarvörnin skapar hugsanlega þannig óþægindi hjá notendum.

Ef afritunarvarnir er hægt að fjarlægja með auðveldum hætti, hvað geta þá útgefendur gert? Í raun ósköp lítið. Þegar við setjum nýja bók á markað þá treystum við því að hún sé ekki ljósrituð og henni dreift þannig til fólks. Setjum jafnvel yfirlýsingu um að slíkt sé bannað nema með leyfi höfundar eða útgefanda á fyrstu síðurnar. Að öðru leyti treystum við lesendum. Við getum ekki fylgst með öllum sem kaupa bækurnar okkar, getum ekki séð til þess síður bóka séu ekki ljósritaðar. Hins vegar, líklega vegna þeirrar umræðu sem hefur verið um ólöglega dreifingu hugverka, vilja margar útgáfur, skiljanlega, koma í veg fyrir ólöglega dreifingu á rafbókum þeirra. Ef allt fer á versta veg, þá getur ólögleg dreifing kostað útgáfur umtalsverða fjármuni og því er ekkert óeðlilegt við að þær leiði hugann að og hafi áhyggjur af þessu vandamáli.

Við hjá Rúnatý erum í sömu sporum og margar útgáfur hvað þetta varðar. Við höfum þó reynt að gera okkar besta til að treysta notendum. Við teljum Íslendinga upp til hópa heiðarlega og trúum því að unnendur íslenskra bókmennta vilji efla veg þeirra, að höfundar fái greitt fyrir vinnu sína og að íslenskar útgáfur hafi starfsgrundvöll. Við höfum engu að síður áhyggjur af því að titlunum frá okkur sé dreift ólöglega, en vonum að gott verð og auðvelt aðgengi sporni gegn því.

Íslenskar útgáfur nálgast þetta vandamál hver með sínum hætti. Sum forlög selja bæði bækur með og án afritunarvarna, önnur bara án afritunarvarna og enn önnur aðeins með afritunarvörnum. Aðeins íslenskir notendur geta dæmt til um hvað hentar þeim best, við í útgáfugeiranum getum skipst á skoðunum út í hið óendanlega án þess að komast að niðurstöðu. Þannig er reynsla okkar hjá Rúnatý sú, að ef við værum með stífar afritunarvarnir, þá hefðum við líklega misst af um helming allrar sölu á rafbókum okkar. Eins og gefur að skilja, þá viljum við ekki fórna því, enda lítið forlag og hvert selt eintak skiptir okkur máli. Hvað finnst þér skipta máli? Hvernig telur þú að hægt sé að tryggja bæði útgefendur og notendur séu sáttir?