Tag Archives: emma.is

Ólögleg dreifing hugverka á internetinu

Í gær mátti sjá auglýsingu frá SMÁÍS í Fréttablaðinu þar sem íslenskir notendur eru hvattir til að kaupa efni eftir löglegum leiðum á netinu. Ýmislegt mætti ræða um framsetningu auglýsingarinnar, þá slæmu stereótýpu sem dregin er þar upp og eins um skilaboðin sem í auglýsingunni felast, að ekki leikur nokkur vafi á að setja hefði átt skilaboðin fram með betri og skynsamlegri hætti og þó svo að þetta sé líklega gert til að vekja enn meiri athygli, þá má ekki gleyma því að hin raunverulegu skilaboð týnast í þeirri umræðu sem sprettur upp vegna framsetningarinnar. Þannig verður auglýsingin sjálf að umræðuefni en ekki skilaboðin.

Ólögleg dreifing hugverka er vandamál, flestir ættu að geta verið sammála um það. Hugverkum er stolið á hverju ári fyrir miklar upphæðir, þó vissulega megi ræða hversu mikið raunverulegt tap hugverkaiðnaðarins er. Hins vegar eru langflestir notendur á netinu heiðarlegir og reyna að finna leiðir til að fá efni eftir löglegum leiðum. Við Íslendingar erum svolítið sér á báti, því við megum ekki eiga í viðskiptum við margar af stærstu tónlistar- og kvikmyndaveitum eða vefverslunum á netinu, t.d. iTunes, Sky, Netflix o.s.frv. Samt birtast þær upplýsingar ekki þegar notendur skrá sig inn, að vegna lagaumhverfis á Íslandi sé niðurhal þeirra ekki löglegt, þrátt fyrir að þessar veitur séu með samninga við rétthafa verkanna sem í boði eru.

Hið sama gildir um rafbækur. Ólöglega dreifing er af mörgum útgefendum talið mikið vandamál og grípa því til þess að afritunarverja rafbækur sínar. Því miður leiðir það til þess að notendur geta hvorki lesið þær bækur á Kindle eða í gegnum iBooks rafbókahugbúnaðinn, sem fylgir öllum iPad spjaldtölvum. Eflaust hefur hver sína skoðun á slíkum vörnum, þær geta verið gagnlegar en því miður er auðvelt að fjarlægja þær og margar virka þær hvetjandi á þá sem hafa gaman af því að aflæsa slíkum vörnum.

Við hjá Rúnatý höfum tekið sömu afstöðu og þeir sem reka emma.is og skinna.is. Við treystum notendum og treystum því að gott aðgengi og gegnsæ verðlagning sé letjandi fyrir notendur að dreifa hugverkum ólöglega. Hjá emma.is er engin afritunarvörn sett á rafbækur en þeir hjá skinna.is merkja hverja keypta rafbók þeim sem keypti eintakið. Hvor aðferðin er góð og gild, þar sem áhersla er lögð á að notandinn þurfi ekki að stunda einhverjar æfingar við að opna skjöl eða sé skyldaður til að nota annan hugbúnað en þann sem hann kýs sjálfur. Þannig er gott aðgengi og gott verð besta afritunarvörnin.

Við hvetjum alla okkar lesendur til að deila ekki hugverkum og kynna sér vandlega hvaða leiðir eru löglegar til að ná sér í efni á netinu. Hugverk, hvort sem um tónlist, ritlist, kvikmyndir eða hvað annað er að ræða, eru útbúin og gerð af einhverjum og mikilvægt að tryggja að viðkomandi fái tekjur af sinni vinnu. Öll viljum við að listamenn hafi tekjur af vinnu sinni, sérstaklega þegar við njótum þeirra gæða sem þeir framleiða.

Að því sögðu langar okkur til að láta ykkur vita af ofurtilboðinu sem í gangi er á rafbókaversluninni skinna.is. Þar er hægt að fá skáldsöguna Þoku og þýðinguna á smásögum Lovecraft, Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur, á aðeins 490 kr. fram til 18. ágúst. Báðar bækurnar henta fyrir alla rafbókalesara.

Advertisements

Af komandi misserum

Á þessu ári gaf útgáfan Rúnatýr út sínu fyrsta bók, smásagnasafnið Myrkfælni. Þar sem útgáfan var ung, að mestu einyrkjastarfsemi, þá var reynt að stilla öllum kostnaði í hóf til að að tryggja að útgáfan stæði undir sér. Það ferli var afar lærdómsríkt og voru gerð fjölmörg mistök sem vonandi má læra af. Bókin fékk ágæta dóma, þrjár stjörnur að jafnaði. Var ýmislegt gagnrýnt, öðru hrósað og í heild voru bókadómar jákvæðari en neikvæðari. Markaðssetningu var reynt að sinna, einnig eftir ódýrum leiðum og lögðu margir þar hönd á plóg sem við erum afar þakklát fyrir.

Í sumar fjölgaði í ritstjórnarhópnum. Kjartan Yngvi Björnsson, meistaranemi í bókmenntafræði og ritlist, bættist í hópinn. Hið sama gerði Unnur Heiða Harðardóttir, meistaranemi í útgáfu- og ritstjórnarfræðum. Á fyrsta fundi hópsins var ákveðið að viðhalda þeirri stefnu að gefa út genre-bókmenntir, leggja áherslu á góðar og vandaðar hrollvekjur, fantasíur og vísindaskáldsögur. Var mikið rætt um mikilvægi góðrar ritstjórnar og lögð drög að því, að leggja sérstaklega mikla áherslu á slíka vinnu, gott samband rithöfundar og ritstjóra og reyna að tryggja að sem þeir sem væri efnilegir fengu stuðning, góð ráð og hvatningu til áframhaldandi skrifa. Ætlun ritstjórnarhópsins var, að Rúnatýr myndi marka sig sem útgáfa góðra bóka í þessum bókmenntageirum.

Útgáfan hefur einnig gefið út nokkrar styttri rafbækur. Útgáfan þeirra er með öllu einfaldari og ódýrari en prentaðra bóka, en þó var ætlunin að reyna viðhalda þeirri ritstjórnarstefnu sem ákveðin hafði verið. Við gefum út eina rafbók í mánuði, gildi einu hvort um þýðingu eða frumsamdan texta er að ræða. Lögð er sérstök áhersla á að bækurnar innihaldi sögur sem flokka megi sem hryllingssögu, fantasíu eða vísindaskáldskap og var ætlunin að þessar ókeypis bækur myndu ýta undir lestur slíkra bókmennta en um leið kynna nýja og spennandi höfunda eða klassíska fyrir lesendum.

Í dag er útgáfan að vinna að nokkrum verkum; hrollvekjur, fantasíur, vísindaskáldsaga, smásögur, skáldsögur, þýðingar; og er von okkar að eitthvað af því efni verði klárt fyrir komandi vor. Þar sem við erum lítið útgáfufélag er erfitt fyrir okkur að keppa í markaðssetningu við stóru forlögin, þar sem markaðsfé okkar eru aðeins lítið brot af þeirra, þá viljum við frekar forðast jólabókaflóðið. Einnig treystum við á, að þeir sem á annað borð lesa þess háttar bókmenntir leiti sér þær frekar sjálfir uppi, en að treysta á að fá þær í jólagjöf frá vinum og ættingjum.

Einnig mun tilkoma rafbókaverslana hjálpa okkur enn frekar við dreifingu á góðu efni. Okkur langar að nýta þetta tækifæri og óska emma.is hjartanlega til hamingju og góðs gengis. Rafbókavæðing íslenska bókamarkaðarins mun án nokkurs vafa hjálpa forlögum sem Rúnatý og verður spennandi að fylgjast með hvernig sá markaður þróast á næstu árum.