Tag Archives: Fantasíur

Nexus Furðusagnahátíð

Á föstudag og laugardag fór fram Nexus Furðusagnahátíð, en eins og nafnið gefur til kynna var þar einkum og aðallega fjallað um furðusögur. Skiptist hátíðin í tvennt, annars vegar fræðilega fyrirlestra um íslenskar furðusögur og furðusagnasenuna hérlendis, hins vegar mættu margir höfundar og lásu upp úr nýjum eða væntanlegum verkum. Þar á meðal voru tveir höfundar frá Rúnatý. Var þegar mest lét voru um 50 manns í salnum en að jafnaði vorum um 30 gestir á hverjum fyrir- eða upplestri. Fór hátíðin fram í Norræna húsinu.

Nokkur atriði standa upp úr. Í fyrsta lagi var gaman að heyra hversu fjölbreyttar íslenskar furðusögur eru. Boðið var upp á há-fantasíu, hrollvekjandi fantasíu fyrir börn og unglinga, gufupönk, vísindaskáldsögu og svo mætti lengi telja. Þannig er gróskan í þessum geira umtalsverð, en þó verður að nefna að mikið af sögunum sækja mjög í enska bókmenntahefð. Minna virðist um að íslenskir furðusagnahöfundar sæki í brunn íslenskra þjóðsagna eða Íslendingasagna, sem með sanni má margar kalla furðusögur. Hugsanlega má þar um kenna að enn sem komið er, þá er hefð furðusagna hérlendis ekki mikil, þá einkum er hefð fyrir íslenskum fantasíum og þá fyrir börn og unglinga. Hins vegar er mikilvægt að íslenskir furðusagnahöfundar gleymi ekki íslenskum bókmenntum og lesi þær amk. til jafns við þær erlendu.

Í öðru lagi var skemmtilegt að heyra þær umræður sem spruttu upp í kjölfar fyrir- og upplestra. Var nokkuð rætt um ólíka stöðu karl- og kvenhetja og sýndist sitt hverjum. Þó er ágætt að hafa í huga, að hvort sem höfundur er karl- eða kvenkyns, þá má ekki gleyma að höfða til lesenda af báðum kynjum. Í furðusögum hefur myndast sterk hefð fyrir karlkyns aðalpersónum og er ágætt að furðusagnahöfundar hafi það á bakvið eyrað, þegar verið er að skrifa. Berlega kom fram á hátíðinni að konur eru í miklum meirihluta þeirra sem lesa og kaupa bækur og það er nokkuð sem gott er fyrir höfunda að muna og minna sig reglulega á.

Eins var áhugavert að sjá hversu víðtæk áhrif H. P. Lovecraft virðist hafa á íslenska furðusagnahöfunda. Af upplestrum að dæma og umræðum má ljóst vera að áhrif hans, bæði bein og óbein, eru óumdeilanleg og hugsanlega áhugavert rannsóknarverkefni fyrir einhvern bókmenntafræðinginn.

Í það heila tókst hátíðin ágætlega, þótt gaman hefði verið að sjá fleiri gesti. Umræður voru skemmtilegar, jákvæðar og uppbyggjandi og ljóst að íslenska furðusagan er svo sannarlega að sækja í sig veðrið. Við hlökkum til að taka þátt að ári.


Furðusögunni vex ásmegin

Á undanförnum þremur árum hefur furðusagan orðið sýnilegri í íslenskum bókmenntum. Bækur á borð við Ég man þig, Sögu Eftirlifenda, Meistara hinna blindu og Myrkfælni hafa verið gefnar út og oftast nær markaðssettar sem furðusögur, þ.e. hrollvekjur, vísindaskáldsögur eða fantasíur. Auk þess eru sífellt fleiri höfundar að koma fram sem leggja áherslu á slík skrif og enn fleiri sem skrifa en fá ekki gefið út. En hvað hefur breyst?

Ekki er sérstaklega langt síðan við Íslendingar hófum skáldleg textaskrif af einhverju viti, þó vissulega megi færa rök fyrir skáldskapahneigð í ákveðnum Íslendingasögum, t.d. Hávarðar sögu Ísfirðings. Margir telja að skáldsagnaskrif hefjist hérlendis með Jóni Thoroddsen en í raun hefst hún af einhverju viti í byrjun 20. aldar. Ekki er mikið skrifað af furðusögum framan af öldinni. Þórbergur þýðir örfáar sögur Poes, Gunnar skrifaði Sælir eru einfaldir en í henni má finna ákveðin gotnesk og hrollvekjandi einkenni, Kristmann Guðmundsson skrifaði vísindaskáldsögur sínar og fantasíur, þær fáu sem gefnar voru út, voru aðallega skrifaðar fyrir börn.

Nú eru hins vegar að vaxa úr grasi kynslóðir sem hafa alist upp við að lesa furðusögur. Kynslóðir sem lesið hafa Harry Potter sögurnar, bækur Philips Pullmans, Twilight bækurnar og horft hafa á Hringadróttinssögu í bíóhúsum. Þessar kynslóðir sækja síðan í Hungurleikana, Neil Gaiman, George R. R. Martin og álíka höfunda. Þetta eru framleiðendur sjónvarpsefnis auk þess að uppgötva, því ekki nóg með að Game of Thrones hefur verið framleitt heldur er einnig stefnt á að framleiða þætti sem gerast í Star Wars heiminum, þættir um Merlin hafa verið sýndir á Rúv og svo mætti lengi telja.

Við hjá Rúnatý sjáum þessa þróun einnig verða í íslenskum bókmenntum. Lesendur eru tilbúnir fyrir genre bókmenntir á íslensku. Við höfum gefið út smásögur og stærri verk eftir lítt þekkta höfunda og selt sem rafbækur. Hefur velgengni þeirra komið okkur í opna skjöldu, t.d. hefur smásagan Epli Iðunnar eftir Jóhann Þórsson selst býsna vel á Skinna.is. Við erum auk þess að vinna með tveimur upprennandi höfundum, annars vegar að fantasíu og hins vegar vísindaskáldsögu. Verður mjög spennandi að sjá hvernig þeim verður tekið þegar þær koma út.

Við hlökkum til að sjá hvernig þróunin verður á næstu árum. Rúnatýr mun áfram starfa að því að gefa út furðusögur, bæði á rafbókaformi og prentuðu.


2 nýjar rafbækur

Í tilefni jólanna ákváðum við að setja tvo kafla í bókum sem verið er að vinna að um þessar mundir. Annars vegar er um að ræða vísindaskáldsögu, sem Einar Leif Nielsen skrifar. Sagan er í anda film noir, minnir á Blade Runner en samt með sín séríslensku einkenni. Mjög spennandi verður að sjá hvernig sögunni vindur fram og vonandi fáum við að sjá þessa sögu á prenti.

Seinni sagan er fantasía, þar sem unnið er með gömlu norrænu goðafræðina. Sagan gerist í bæði Ásgarði og Miðgarði, teikn eru á lofti í Ásheimum um að Fimbulvetur sé í nánd og segir sagan frá nokkrum ungum hetjum sem takast á við þær breytingar. Sagan er ætluð ungum fullorðnum (e. young adult) og sækir í senn í heim klassískra fantasíusagna sem og Íslendinga- og fornsögur.

Birtast 1. kaflar beggja sagna. Endilega leyfið okkur að heyra hvað ykkur finnst.

Smellið hér til að sjá rafbækurnar.


Íslenskar fantasíur

Fyrir skemmstu kom út bókin Meistari hinna blindu eftir Elí Freysson en það er Sögur útgáfa sem gefa bókina út. Ekki er ætlunin að fjalla sérstaklega um þá bók, en þó er gaman að sjá svo veglega útgáfu á sögu sem flokkast sem fantasía. Eins er ekki markmiðið að gagnrýna bókina á einn eða annan hátt, heldur langar mig að velta vöngum yfir svolitlu öðru sem þó tengist bókinni, þ.e. forminu og hvort þetta sé fyrsta íslenska fantasían í sinni nútímalegu mynd. Ég fór því aðeins að velta fyrir mér íslensku fantasíunni.

Fantasíubókmenntir fjalla um það sem getur ekki gerst, hefur ekki gerst og mun (líklega) aldrei geta gerst. Flakk á milli heima, sögusvið er annar eða hliðstæður heimur, atburðir gerast sem eru ekki mögulegir. Þannig mætti skilgreina mjög margar bækur sem fantasíur, væri þessi skilgreining túlkuð mjög vítt. Þannig mætti kalla síðklassískar Íslendingasögur margar hverjar fantasíur, t.d. Grettis saga Ásmundssonar. Þar er að finna mjög fantasíukennda atburði, baráttu við drauga o.s.frv. og sterka skáldskaparvitund.Þó er það ekki fantasía þar sem formið sem slíkt varð ekki til fyrr en á rómantíska tímabilinu. Einnig hljótum við líka að skoða hvort tilgangur höfundar hafi verið að skapa fantasíu. Út frá þessum rökum er hægt að líta framhjá t.d. bókum Gunnars Gunnarssonar sem gerast í hliðstæðum veruleika og jafnvel með fantasíukenndum atburðum, þ.e. sögusviðið er ekki raunverulegt heldur hliðstæður heimur.

Í dag horfa flestir til þess, þegar fjallað er um fantasíur, um hvað viðkomandi saga fjallar. Tilkoma Tolkien, Lewis og fleiri höfunda á fyrri hluta 20. aldar setti bókmenntaforminu ákveðin mörk og fjalla margar fantasíur um álíka efni og bækur þessara höfunda, þ.e. um hetjur sem ríða um héruð, vopnaðar sverðum og göldrum og berjast gegn hinu illa. Í sögunum gerist eitthvað sem ævintýra- eða goðsagnakennt, t.d. goðsagnaverur á borð við dreka eða álfa, galdrar og seiðskrattar, og allt vekur þetta furðu og áhuga sögupersóna. Í Tolkiensku fantasíunni, high-fantasy, voru álfar, dvergar, drýslar og hvað eina, en því fer fjarri að hann hafi riðið á vaðið með slíkar sögur, þó svo oft standi Hringadróttinssaga upp úr sem FANTASÍAN þegar fjallað er um slíkar bókmenntir, t.d. voru sögur Robert E. Howard um Conan löngu orðnar þekktar.

George R. R. Martin, Robert Jordan og fleiri álíka höfundar hafa síðan fært þetta form upp á annað plan, sérstaklega sá fyrstnefndi með sögubálki sínum Song of Ice and Fire, sem sjónvarpsþættirnir Game of Thrones eru byggðir á. Í þeim getur verið erfitt að átta sig á hver er hetja og hver andhetja, þar sem allir róa á af kappi sömu mið, þ.e. að öðlast meiri völd. Í raun mætti segja að sú sería hafi brotist í gegnum hugmyndafæðina sem Lewis og Tolkien settu greininni. Einnig mætti týna til höfunda á borð við Terry Pratchett sem hafa skrifað sögur þar sem grín er gert að forminu og öllu snúið á haus.

Hérlendis hafa komið út þó nokkrar bækur sem flokka mætti sem fantasíur. Langflestar þeirra hafa verið skrifaðar fyrir börn en eru engu að síður fantasíur. Eftir því sem ég kemst næst eru bækurnar Fúfu og Fjallakrílin eftir Iðunni Steinsdóttur og Guðmundur Hreinn með gull í nögl eftir Véstein Lúðvíksson fyrstu fantasíurnar gefnar út hérlendis eftir íslenska höfunda. Báðar komu út 1983 og voru hugsaðar fyrir börn. Þó nokkrar slíkar hafa komið út síðan þá, þeirra þekktastar líklega Ert þú Blíðfinnur? eftir Þorvald Þorsteinsson og Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason. Einnig hafa komið út bækur sem eru hugsaðar fyrir eldri lesendur. Iðunn Steinsdóttir hefur skrifað nokkrar þeirra, t.d. Galdur vísdómsbókarinnar sem kom út 2004. Einnig vann þess háttar saga til verðlauna sama ár, Sverðberinn eftir Ragnheiði Gestsdóttur, en það er klassísk milli-heima saga. Vilborg Davíðsdóttir skrifaði bækurnar Nornadóm og Við Urðabrunn sem komu báðar út á 10. áratuginum. Á síðasta ári kom sagan Saga eftirlifenda eftir Emil Hjörvar Petersen. Ekki leikur nokkur vafi á þar er fantasía á ferðinni, þó svo sagan hafi ekki verið markaðssett með þeim hætti. Hins vegar er þar á ferð nútímafantasía þar sem fléttað var saman nútíma og goðsögum, eflaust fyrsta nútímafantasían.

Hér eru dæmi um íslenskar fantasíur (fengið af vef Íslenskuskólans):

Dæmi um íslenskar fantasíur

 • Iðunn Steinsdóttir  Fúfu og fjallakrílin.
 • Vésteinn Lúðvíksson  Guðmundur Hreinn með gull í nögl. 
 • Guðrún Helgadóttir  Gunnhildur og Glói.
 • Heiður Baldursdóttir  Álagadalurinn.
 • Iðunn Steinsdóttir  Drekasaga.
 • Iðunn Steinsdóttir  Gegnum þyrnigerðið.
 • Iðunn Steinsdótir  Þokugaldur.
 • Vigdís Grímsdóttir  Gauti vinur minn.
 • Andri Snær Magnason   Sagan af bláa hnettinum.
 • Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson Brúin yfir Dimmu.
 • Þorvaldur Þorsteinsson  Ert þú Blíðfinnur? : ég er með mikilvæg skilaboð.
 • Elías Snæland Jónsson  Drekagaldur. .
 • Herdís Egilsdóttir Dularfulla dagatalið.
 • Iðunn Steinsdóttir Galdur vísdómsbókarinnar.
 • Ragnheiður Gestsdóttir   Sverðberinn.
 • Þorvaldur Þorsteinsson  Blíðfinnur og svörtu teningarnir : lokaorustan.
 • Þórarinn Leifsson Bókasafn Ömmu Huldar
 • Harpa Dís Hákonardóttir Galdrasteinninn
 • Gunnar Theódór Eggertsson Steindýrin
 • Sigrún Eldjárn Eyjubækurnar
 • Elí Freysson Meistari hinna blindu
 • Rósa Grímsdóttir Lína Descret

Ágætt er að átta sig á að munur er á fantasíum í sinni nútímalegustu mynd og nútímafantasíum.  Nútímafantasíur gerast á sögutíma okkar (hetjurnar ríða ekki um hestum, heldur keyrum á bílum eða fljúga á loftskipum eða flugvélum) en þar sem ævintýra- og goðsagnaverur eru til ásamt göldrum og öllu því sem þeim fylgir. Þannig er Saga eftirlifenda mun frekar nútímafantasía en Meistari hinna blindu. Harry Potter sögurnar og þríleikur Philip Pullmans eru einnig dæmi um nútímafantasíur. Sem sagt, í nútímafantasíunni renna saman okkar heimur og fantasían.

Í raun ef ég ætti að líkja Meistaranum við einhverja af Post-Tolkiensku fantasíunum myndi ég benda á þríleik Donaldsson, The Chronicle of Thomas Covenant, fyrir utan að mér finnst þar meira kafað ofan í aðalpersónuna, þ.e. dekkri hliðar aðalpersónunnar eru sýnilegri.

Hvernig sem á það er litið, þá er gaman að útgefendur skuli vera opna augun fyrir þessu formi sem bókmenntagrein sem fullorðnir hafa einnig gaman að.


Ertu rithöfundur?

Ritstjórnarteymi Rúnatýs vinnur um þessar mundir við að lesa yfir handrit sem senda hafa verið inn til útgáfunnar. Nú þegar er hafin vinna við að ritstýra nokkrum verkum, þ. á m. hrollvekju, vísindaskáldsögum og fantasíum, ásamt því að unnið er að tveimur þýðingum. Verið er að vinna að útgáfulista næsta árs og verður tekið við handritum allt fram til 1. nóvember nk. Hægt er að senda inn handrit á netfangið runatyr_hjá_runatyr.is


Upprisan

Á undanförnum árum hafa íslenskar útgáfur verið tregar til að gefa út efni eftir íslenska höfunda sem fellur ekki að hugmyndum manna um hina íslensku skáldsögu. Spennusagan náði sem betur fer loks í gegn og síðastliðin jól hafa þess háttar bókmenntir verið stór hluti sölunnar. Og sú bylting hefur gert það að verkum, að augu útgefenda eru smátt og smátt að opnast fyrir þeim möguleika að gefa út eitthvað annað en sveitarómansa eða raunsæislegar nútímadramabókmenntir.

Ég veit ekki hvort það er vegna þess að sífellt fleiri og betri höfundar eru farnir að halla sér að genrebókmentum. Kannski er sú raunin. Yrsa Sigurðardóttir skrifaði Ég man þig og seldist sú bók mjög vel. Reyndar var hún markaðssett sem spennubók en ég held að það dyljist engum sem lesi bókina að fyrst og fremst er um hrollvekju að ræða. Auk þess hafa tímarit á borð við Furðusögur gefið ungum höfundum færi á að sjá sögur sínar á prenti, sögur sem falla annars ekki inn í hinn fastmótaða ramma íslensku skáldsögunnar.

Gallinn er að mínu mati sá, að of lengi hefur skuggi Laxness hvílt á íslenskum rithöfundum. Hann var vissulega stórgóður rithöfundur á sínum tíma en ég held að alltof margir hafi reynt annað hvort að líkja eftir honum eða gert sitt best til að vera ekki eins og hann. Þannig hafi Laxness haft gríðarleg áhrif á menningu rithöfunda og það hafi í raun ekki verið fyrr en með tilkomu norrænu spennusögunnar hérlendis að höfundar og útgáfur sáu að hægt að var stíga fram undan skugganum og út í ljósið.

Fyrir nokkrum árum kom hrollvekjan Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson út, svo síðustu jól Ég man þig og nú í vor kom út safn hryllingssagna eftir mig. Ég veit að það eru fleiri sem eru að skrifa hrollvekjur eða spennusögur með hrollvekjandi ívafi. Auk þess hefur fantasíunni vaxið ásmegin, í síðasta sunnudagsblaði Moggans var viðtal við ungan norðlenskan rithöfundum sem hefur skrifað fantasíur og mun fyrsta bók hans verða gefin út af Sögum nú í haust. Rósa Grímsdóttir er auk þess að gefa sjálf út fyrstu bókina í fantasíubókaflokki sínum. Í gegnum tíðina hafa verið gerðar tilraunir með vísindaskáldsöguna, t.d. Lovestar eftir Andra Snæ, en persónulega sakna ég þess að sjá vísindaskáldsögu sem gengur alla leið.

Ég held, að við munum sjá meira af þessu á komandi árum. Þessar genrebókmenntir eru í raun að rísa upp sem gjaldgengar bókmenntir og fyrir vikið munu bæði forlög og lesendur smátt og smátt víkka sjóndeildarhring sinn hvað lestrarefni varðar. Enda sýna sölutölur frá löndunum í kringum okkur að lesendur þar vilja þess háttar efni, t.d. eru Stephen King og Terry Pratchett með mest seldu höfundum í sínum löndum. Upprisa genrebókmennta er fyrir löngu tímabær hérlendis og vonandi mun jólabókaflóðið í ár verða enn fjölbreyttara en áður.

Mig langar því til að hvetja sem flesta að gefa þeim bókum gaum sem út koma og falla ekki í hið klassíska form íslensku skáldsögunnar. Gefa ungum höfundum sem skrifa genre bókmenntir tækifæri. Meiri fjölbreytni í bókaskápnum getur ekki verið af hinu verra.