Tag Archives: hrollvekjur

Nexus Furðusagnahátíð

Á föstudag og laugardag fór fram Nexus Furðusagnahátíð, en eins og nafnið gefur til kynna var þar einkum og aðallega fjallað um furðusögur. Skiptist hátíðin í tvennt, annars vegar fræðilega fyrirlestra um íslenskar furðusögur og furðusagnasenuna hérlendis, hins vegar mættu margir höfundar og lásu upp úr nýjum eða væntanlegum verkum. Þar á meðal voru tveir höfundar frá Rúnatý. Var þegar mest lét voru um 50 manns í salnum en að jafnaði vorum um 30 gestir á hverjum fyrir- eða upplestri. Fór hátíðin fram í Norræna húsinu.

Nokkur atriði standa upp úr. Í fyrsta lagi var gaman að heyra hversu fjölbreyttar íslenskar furðusögur eru. Boðið var upp á há-fantasíu, hrollvekjandi fantasíu fyrir börn og unglinga, gufupönk, vísindaskáldsögu og svo mætti lengi telja. Þannig er gróskan í þessum geira umtalsverð, en þó verður að nefna að mikið af sögunum sækja mjög í enska bókmenntahefð. Minna virðist um að íslenskir furðusagnahöfundar sæki í brunn íslenskra þjóðsagna eða Íslendingasagna, sem með sanni má margar kalla furðusögur. Hugsanlega má þar um kenna að enn sem komið er, þá er hefð furðusagna hérlendis ekki mikil, þá einkum er hefð fyrir íslenskum fantasíum og þá fyrir börn og unglinga. Hins vegar er mikilvægt að íslenskir furðusagnahöfundar gleymi ekki íslenskum bókmenntum og lesi þær amk. til jafns við þær erlendu.

Í öðru lagi var skemmtilegt að heyra þær umræður sem spruttu upp í kjölfar fyrir- og upplestra. Var nokkuð rætt um ólíka stöðu karl- og kvenhetja og sýndist sitt hverjum. Þó er ágætt að hafa í huga, að hvort sem höfundur er karl- eða kvenkyns, þá má ekki gleyma að höfða til lesenda af báðum kynjum. Í furðusögum hefur myndast sterk hefð fyrir karlkyns aðalpersónum og er ágætt að furðusagnahöfundar hafi það á bakvið eyrað, þegar verið er að skrifa. Berlega kom fram á hátíðinni að konur eru í miklum meirihluta þeirra sem lesa og kaupa bækur og það er nokkuð sem gott er fyrir höfunda að muna og minna sig reglulega á.

Eins var áhugavert að sjá hversu víðtæk áhrif H. P. Lovecraft virðist hafa á íslenska furðusagnahöfunda. Af upplestrum að dæma og umræðum má ljóst vera að áhrif hans, bæði bein og óbein, eru óumdeilanleg og hugsanlega áhugavert rannsóknarverkefni fyrir einhvern bókmenntafræðinginn.

Í það heila tókst hátíðin ágætlega, þótt gaman hefði verið að sjá fleiri gesti. Umræður voru skemmtilegar, jákvæðar og uppbyggjandi og ljóst að íslenska furðusagan er svo sannarlega að sækja í sig veðrið. Við hlökkum til að taka þátt að ári.

Advertisements

Íslenskar hrollvekjur

Við Íslendingar eigum okkur langa bókmenntahefð, þó svo útgáfustarfsemi sem slík sé ekki ýkja gamalt fyrirbæri hérlendis. Og hrollvekjur hafa löngum verið sagðar hérlendis, enda skemmtileg bókmenntagrein. Við höfum frásagnir í Íslendingasögum sem eru af yfirskilvitlegum og hryllilegum atburðum, t.d. á borð við Fróðárundrin í Eyrbyggju. Þjóðsögur fjalla auk þess margar um þjóðsagnakenndar verur, á borð við drauga og uppvakninga, nykra og umskiptinga, og flokka mætti margar slíkar sögur sem hrollvekjandi. Á 20. öld hefur hrollvekjan svo sem ekki farið hátt í íslenskum bókmenntum og fæstir sem hafa tileinkað sér að skrifa þess háttar bókmenntir, ekkert frekar en þeir sem hafa tileinkað sér að skrifa fantasíur eða vísindaskáldsögur.

Nútímahrollvekjuna má rekja til gotneskra bókmennta. Talið er að fyrsta alvöru gotneska sagan hafi verið Castle of Otranto eftir Horace Walpole sem kom út 1764. Í kjölfar hennar fylgdu margar áþekkar sögur, t.d. The Monk eftir Lewis og Mysteries of Udolpho eftir Ann Radcliffe. Í gotneskum bókmenntum var oft hið forboðna kannað, hvort sem það var forboðin ást eða svartigaldur, sem og hið yfirskilvitlega. Komu fram svipaðar bókmenntir víða um Evrópu á þessum tíma og voru slíkar sögur kallaðar Schauerroman (hryllingssögur) í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið. The Monk hafði sérstaklega mikil áhrif á nútímahrollvekjuna, enda fjallar sagan um sadíska munka, afturgengnar nunnur og forboðnar ástir. Mikið af gotneskum bókum og hryllingssögum voru skrifaðar af kvenkyns rithöfundum og voru markaðssett fyrir þær.

Hrollvekjur sem komu fram á 19. öld sóttu mjög til gotneskra bókmennta. Á þeirri öld komu fram þrjár stærstu hrollvekjurnar, þ.e. Drakúla eftir Bram Stoker, Frankenstein eftir Mary Shelley og Dr. Jekyll og Mr. Hyde eftir Robert L. Stevenson. Enn er verið að gefa þessar sögur út, Drakúla er t.a.m. sú skáldsaga sem hefur hvað oftast verið endurprentuð. Ásamt þessum höfundum kom Edgar Allan Poe fram á sjónarsviðið og höfðu smásögur hans gríðarleg áhrif. Á 20. öld hafa margir höfundar komið fram, m.a. H. P. Lovecraft, M. R. James, Stephen King, Clive Barker og Shirley Jackson.

Nútímahrollvekjan sækir enn mjög í það form sem henni var sniðið strax á 18. öld. Hrollvekjum er ætlað að vekja ugg eða hroll með lesendum sínum, þar er skapað andrúmsloft furða og undra. Hið hryllilega getur verið bæði af þessum heimi eða yfirskilvitlegt. Ann Radcliffe skilgreindi hrollvekjur í byrjun 19. aldar og sagði m.a. að hryllingssögur þyrftu að vera annað hvort að vekja með lesanda sínum ugg eða ótta, eða hroll. Nema hvort tveggja sé. Uggur getur snúið að því að lesandinn óttast um þá atburði sem á eftir koma eða framundan eru. Hrollur getur komið fram vegna viðbjóðs eða viðurstyggðar á þeim atburðum sem hafa gerst. Þannig eru sumar hrollvekjur afar uggvekjandi og maður nagar neglur af eftirvæntingu um það sem gæti hent aðalpersónur, á meðan aðrar vekja með manni óhug vegna þeirra atburða sem hafa gerst. Dæmi um sögur sem falla í fyrri flokkinn er Ég man þig eftir Yrsu, en margar sagna Clive Barker fjalla í þann seinni. Sögur sem nota hvoru tveggja eru mýmargar, t.d. eftir Stephen King.

Íslenskar hrollvekjur eru ekki margar. Þær hafa flestar komið fram á síðari hluta 20. aldar. Vissulega má finna ákveða gotneska þætti í ýmsum sögum, t.d. í skáldsögu Gunnar Gunnarssonar Sælir eru einfaldir. Drakúla var þýdd lauslega í byrjun 20. aldar, kom þá út undir heitinu Makt myrkanna, en þýðingin var endurútgefin á síðasta ári. Flestar hryllingssögur sem hafa verið gefnar út hérlendis hafa þó verið smásögur, sögur eftir höfunda á borð við Þóri Bergsson, Þórberg Þórðarson og Ástu Sigurðardóttur. Þær hrollvekjur hafa þó verið nokkuð íslenskar, þ.e.a.s. að sótt er í íslenskan raunveruleika í bland við íslenskar þjóðsögur. Þannig fjalla margar þær hryllingssögur sem fram koma á 20. öld um þekkt minni í íslenskum bókmenntum, t.d. drauga.

Á 21. öld fara að koma fram rithöfundar sem opna nokkuð form íslenskra hryllingssagna. Sagan Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson kom út snemma á öldinni og Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur nokkrum árum síðar. Börnin í Húmdölum sækja í brunn Lovecrafts, þar sem óvætturin er framandlegur, ekki af þessum heimi og óskiljanlegur. Í sögu Yrsu er frekar sótt í íslensku hefðina. Hið sama má segja um Hálendi Steinars Braga og margar smásögurnar í safninu Myrkfælni. Eins eru margar sögurnar sem birtust í tímaritinu Furðusögum í ritstjórn Alexanders Dans skrifaðar undir áhrifum frá þessum íslenska skóla, ef svo mætti kalla.

Hrollvekjan er í sókn hérlendis og verður spennandi að sjá hvernig hún þróast á næstu árum. Við munum halda áfram að vinna að því að koma þeim á framfæri, ásamt vísindaskáldsögum og fantasíum.


Furðusögunni vex ásmegin

Á undanförnum þremur árum hefur furðusagan orðið sýnilegri í íslenskum bókmenntum. Bækur á borð við Ég man þig, Sögu Eftirlifenda, Meistara hinna blindu og Myrkfælni hafa verið gefnar út og oftast nær markaðssettar sem furðusögur, þ.e. hrollvekjur, vísindaskáldsögur eða fantasíur. Auk þess eru sífellt fleiri höfundar að koma fram sem leggja áherslu á slík skrif og enn fleiri sem skrifa en fá ekki gefið út. En hvað hefur breyst?

Ekki er sérstaklega langt síðan við Íslendingar hófum skáldleg textaskrif af einhverju viti, þó vissulega megi færa rök fyrir skáldskapahneigð í ákveðnum Íslendingasögum, t.d. Hávarðar sögu Ísfirðings. Margir telja að skáldsagnaskrif hefjist hérlendis með Jóni Thoroddsen en í raun hefst hún af einhverju viti í byrjun 20. aldar. Ekki er mikið skrifað af furðusögum framan af öldinni. Þórbergur þýðir örfáar sögur Poes, Gunnar skrifaði Sælir eru einfaldir en í henni má finna ákveðin gotnesk og hrollvekjandi einkenni, Kristmann Guðmundsson skrifaði vísindaskáldsögur sínar og fantasíur, þær fáu sem gefnar voru út, voru aðallega skrifaðar fyrir börn.

Nú eru hins vegar að vaxa úr grasi kynslóðir sem hafa alist upp við að lesa furðusögur. Kynslóðir sem lesið hafa Harry Potter sögurnar, bækur Philips Pullmans, Twilight bækurnar og horft hafa á Hringadróttinssögu í bíóhúsum. Þessar kynslóðir sækja síðan í Hungurleikana, Neil Gaiman, George R. R. Martin og álíka höfunda. Þetta eru framleiðendur sjónvarpsefnis auk þess að uppgötva, því ekki nóg með að Game of Thrones hefur verið framleitt heldur er einnig stefnt á að framleiða þætti sem gerast í Star Wars heiminum, þættir um Merlin hafa verið sýndir á Rúv og svo mætti lengi telja.

Við hjá Rúnatý sjáum þessa þróun einnig verða í íslenskum bókmenntum. Lesendur eru tilbúnir fyrir genre bókmenntir á íslensku. Við höfum gefið út smásögur og stærri verk eftir lítt þekkta höfunda og selt sem rafbækur. Hefur velgengni þeirra komið okkur í opna skjöldu, t.d. hefur smásagan Epli Iðunnar eftir Jóhann Þórsson selst býsna vel á Skinna.is. Við erum auk þess að vinna með tveimur upprennandi höfundum, annars vegar að fantasíu og hins vegar vísindaskáldsögu. Verður mjög spennandi að sjá hvernig þeim verður tekið þegar þær koma út.

Við hlökkum til að sjá hvernig þróunin verður á næstu árum. Rúnatýr mun áfram starfa að því að gefa út furðusögur, bæði á rafbókaformi og prentuðu.


Ný rafbók – Svartárkot

Í dag kemur út ný rafbók á vegum Rúnatýs. Hana má finna, eins og allar rafbækur útgáfunnar, hér á síðunni. Sagan sem um ræðir er hrollvekja og gerist um miðbik síðustu aldar á norðurlandi. Segir þar maður sögu sína, en hann hefur verið dæmdur fyrir að myrða á hrottafengin hátt dætur sínar tvær. Þó er meira sem liggur að baki sögu hans og ljóst að ekki er allt sem sýnist.

Annars er það að frétta af útgáfunni að handrit eru nú í prófarkarlestri sem og verið er að vinna við hönnun á kápum. Við hlökkum mikið til að sýna ykkur afraksturinn og munum eflaust leyfa ykkur að sjá kápurnar áður en þær fara í prentun, svona upp á að heyra hvað ykkur finnst. Auk þess erum við á fullu við að leita að góðum lausnum, svo við getum einnig selt nýju titlana sem og Myrkfælni sem rafbækur. Við erum, eins og einhverjir hafa eflaust gert sér grein fyrir, mjög spennt fyrir rafbókamarkaðinum en erfiðlega gengur að finna leiðir sem henta okkar litlu útgáfu.

Markmið okkar með rafbókaútgáfu er í senn að gera flott íslenskt genre efni aðgengilegt á rafbókaformi og eins að það sé á ásættanlegu verði.


2011 og 2012

Síðasta ár var viðburðaríkt. Við ákváðum að slá til og stofna útgáfu. Eftir vandlega leit að góðu og lýsandi heiti enduðum við á Rúnatý, sem er gamalt Óðinsheiti. Það merkir sá sem hefur stjórn á rúnunum og okkur fannst vel við hæfi að útgáfan bæri það nafn, enda ágætis lýsing á því sem rithöfundar þurfa m.a. að fást við. Við lögðum grunn að því starfi sem við vildum vinna, skilgreindum hvernig bókmenntir við vildum gefa út fyrst og fremst, ásamt því að hefja vinnu við að koma Myrkfælni á prent.

Við lærðum gríðarlega margt á því ferli, eiginlega miklu meira en við gerðum okkur í grein fyrir í upphafi. Ekkert okkar hafði áður komið að útgáfu bóka og þurftum því að læra allt um leið og hlutirnir gerðust. Sölusamningar voru gerðir við N1, Hagkaup, Nexus og Eymundsson og kom Myrkfælni út síðastliðið vor. Salan gekk ágætlega, bókin stóð undir sér, sem var jú fyrir mestu. Það var ýmislegt sem við hefðum viljað gera betur en lærum af þeim mistökum og gerum vonandi ekki þau hin sömu á þessu ári. Það sem mestu máli skipti var þó, að við vorum trú okkur sjálfum og hikuðum hvergi í að markaðssetja bókina sem genre bókmenntir, nánar tiltekið hrollvekju.

Í haust tókum við síðan upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á ókeypis rafbækur einu sinni í hverju mánuði á hér á síðunni okkar. Þetta teljum við vera frábæra leið til að kynna annars vegar höfunda og ná til fleiri lesenda, og hins vegar að kynna enn frekar fyrir lesendum að genre bókmenntir eru skrifaðar á íslensku og eru margar hverjar býsna frambærilegar. Í það heila hefur rafbókum Rúnatýs verið halað niður hátt í 400 sinnum og vonum við innilega að lesendur okkar njóti þessa framtaks.

Auk þess gengu tveir frábærir einstaklingar til liðs við ritstjórn félagsins, Kjartan Yngvi Björnsson og Unnur Heiða Harðarsdóttir, og hafa þau svo sannarlega komið sterk inn. Litla útgáfan er því að vaxa og mun vonandi dafna enn frekar á þessu ári.

Í vor stefnum við á að gefa út tvær bækur. Annars vegar hrollvekjandi skáldsögu eftir Þorstein Mar. Sagan gerist í Reykjavík á 9. áratuginum og sver sig í ætt við furðusögur, um leið og aðalpersónur þurfa að leysa úr flóknum gátum og ráða forna leyndardóma fer einhver um stræti og fremur hryllileg morð. Hin bókin sem koma mun út í vor er þýðing á nokkrum smásögum H. P. Lovecrafts, en hann er af mörgum talinn einn frumlegasti rithöfundur furðuskáldskaparins. Þeir sem vilja geta ráðið í hver meginsagan verður í þeirri þýðingu með því að skoða myndina sem fylgir þessari færslu.

Auk þess erum við að vinna að fleiri verkefnum, þ. á m. verkefni sem tengist Íslendingasögum, tveimur fantasíum og vísindaskáldsögu. Fyrsti kaflinn úr síðastnefnda verkefninu hefur birst hér í formi rafbókar og fengið góðar viðtökur. Við vonum að eitthvað af þessum verkefnum ljúki á þessu ári svo hægt verði að koma þeim í útgáfu.

Ákveðið hefur verið að allt efni Rúnatýs verði einnig gefið út í rafbókaformi á þessu ári og lögð verður áhersla á, að efnið verði aðgengilegt á öllum rafbókalesurum. Verðlagningu rafbóka verður stillt í hóf og munu rafbækur Rúnatýs ekki bera prentkostnað, dreifingarkostnað eða annan kostnað sem fellur til vegna umsýslu sem tengist prentuðum bókum beint.

Við hlökkum til þess að takast á við ný verkefni á þessu ári og vonumst til að þið eigið eftir að njóta þess sem frá okkur kemur.


Myrkfælni í jólapakkann

Okkur langar til að minna á hve góð jólagjöf bók er. Í raun er verið að gefa heilan heim út af fyrir sig og fátt betra á jólanótt en að sökkva sér ofan í góða bók. Hið sama gildir um smásögur, sem stundum er lítill gaumur veittur að. Að lesa góða smásögu er í engu síðra en að lesa góða skáldsögu og eflaust mætti gera meira af því að kynna þá bókmenntagrein betur, sérstaklega fyrir unglingum sem nenna kannski ekki að lesa þykkan doðrant. Myrkfælni er safn 11 hrollvekjandi smásagna, þar sem renna saman minni úr ýmsum þjóðsögum og wierd-fiction. Hið yfirnáttúrulega er ríkjandi í mörgum sögum og stutt í hrollinn. Bókin fæst í Hagkaupum og Eymundsson, kostar 2490 kr. en hana er að finna meðal kiljanna í báðum verslunum.

Úr umsögn Rithrings.is:
***
Þorsteinn Mar er hugmyndaríkur og efnilegur höfundur sem á framtíðina fyrir sér…Myrkfælni er fullkomin í sumarbústaðinn, sérstaklega þegar fer að hausta og dimma og mýsnar fara að reyna að koma sér aftur inn. Það má grípa í hana og lesa eina og eina sögu, og þar sem þær eru þeim mikla kosti gæddar að vera tímalausar á bókin eftir að eldast vel. Forðist bara að lesa hana ein.

JÞ/Rithringur

Úr umsögn á Bokmenntir.is:
 Í heildina séð varð ég ekki fyrir vonbrigðum…tekst Þorsteini hvað eftir annað að skapa verulega hrollvekjandi stemningu.
ÚD/Bokmenntir.is

Úr umsögn Morgunblaðsins:
***
Myrkfælni, hrollvekjusafn Þorsteins Mars Gunnlaugssonar, er skemmtileg nýbreytni og höfundur fer vel af stað með sinni fyrstu bók…eru flestar sögurnar vel skrifaðar, vel upp byggðar og spennuþrungnar…Í stuttu máli er Myrkfælni góð tilraun og það er ekki slæmt að lesa draugasögur í björtu, ekki síst fyrir myrkfælna.
SÞ/Morgunblaðið

Á vef Eymundsson fær bókin yfir fjórar stjörnur í umsögn lesenda.

Smelltu hér til að kaupa bókina.


Ný rafbók

Nýjasta rafbók okkar inniheldur tvær sögur eftir H. P. Lovecraft. Annars vegar er það sagan Kettirnir í Ulthar, en Lovecraft sjálfur hélt mjög upp á þá sögu. Hún var skrifuð í júní 1920 og fjallar um atburði sem gerast í ímynduðum heimi, í þorpi sem heitir Ulthar. Á þessum tíma var Lovecraft mjög undir áhrifum írska rithöfundarins Lord Dunsanny og telja margir bókmenntafræðingar sig sjá skýr tengsl við sögur hans í skrifum Lovecrafts frá þessum tíma. Segir sagan frá því þegar undarleg vagnalest kemur til þorpsins Ulthar og ástæðu þess að lög gegn kattadrápum voru sett þar.

Seinni sagan heitir Hinir guðirnir og gerist í sama heimi og Kettirnir frá Ulthar. Hún var skrifuð í ágúst 1921 og segir frá Barzai hinum vísa, en hann þráði mjög að berja guðina augum. Hann leggur því í ferðalag og fjallgöngu en hún á eftir að hafa skelfilegar afleiðingar. Í þessari sögu kemur fyrst fyrir fjallið Kadath, en frá því er sagt í sögunni The Dream-Quest for Unknown Kadath. 

Í báðum þessum sögum kemur fyrir sama aukapersónan, Atal, en hann kemur einnig fyrir í síðastnefndu sögunni. Atal þessi er lítill drengur í Kettirnir í Ulthar en er að lærisveinn Barzais í seinni sögunni. Í The Dream-Quest of Unknown Kadath er hann orðinn æðstiprestur, 300 ára gamall og vís eftir því, og leiðbeinir Randolph Carter í leit sinni að guðunum.

Allar þessar sögur gerast, eins og áður segir, í ímynduðum heimi Lovecrafts, hinum svokölluðu Draumlöndum (e. Dreamlands). Hann skrifaði þó nokkrar sögur sem gerast í þessum heimi, t.d. Celephais og The Doom that came to Sarnath, en skv. sumum sögum átti að vera hægt að komast til þessa heims í draumum sínum. Eftir því sem næst verður komist koma Draumlöndin fyrir í 28 sögum eftir Lovecraft, hvort sem vísað er til þeirra eða sögusviðið er þar.

Smelltu hér til að lesa Kettirnir í Ulthar og Hinir guðirnir.