Tag Archives: jóhann þórsson

Furðusögunni vex ásmegin

Á undanförnum þremur árum hefur furðusagan orðið sýnilegri í íslenskum bókmenntum. Bækur á borð við Ég man þig, Sögu Eftirlifenda, Meistara hinna blindu og Myrkfælni hafa verið gefnar út og oftast nær markaðssettar sem furðusögur, þ.e. hrollvekjur, vísindaskáldsögur eða fantasíur. Auk þess eru sífellt fleiri höfundar að koma fram sem leggja áherslu á slík skrif og enn fleiri sem skrifa en fá ekki gefið út. En hvað hefur breyst?

Ekki er sérstaklega langt síðan við Íslendingar hófum skáldleg textaskrif af einhverju viti, þó vissulega megi færa rök fyrir skáldskapahneigð í ákveðnum Íslendingasögum, t.d. Hávarðar sögu Ísfirðings. Margir telja að skáldsagnaskrif hefjist hérlendis með Jóni Thoroddsen en í raun hefst hún af einhverju viti í byrjun 20. aldar. Ekki er mikið skrifað af furðusögum framan af öldinni. Þórbergur þýðir örfáar sögur Poes, Gunnar skrifaði Sælir eru einfaldir en í henni má finna ákveðin gotnesk og hrollvekjandi einkenni, Kristmann Guðmundsson skrifaði vísindaskáldsögur sínar og fantasíur, þær fáu sem gefnar voru út, voru aðallega skrifaðar fyrir börn.

Nú eru hins vegar að vaxa úr grasi kynslóðir sem hafa alist upp við að lesa furðusögur. Kynslóðir sem lesið hafa Harry Potter sögurnar, bækur Philips Pullmans, Twilight bækurnar og horft hafa á Hringadróttinssögu í bíóhúsum. Þessar kynslóðir sækja síðan í Hungurleikana, Neil Gaiman, George R. R. Martin og álíka höfunda. Þetta eru framleiðendur sjónvarpsefnis auk þess að uppgötva, því ekki nóg með að Game of Thrones hefur verið framleitt heldur er einnig stefnt á að framleiða þætti sem gerast í Star Wars heiminum, þættir um Merlin hafa verið sýndir á Rúv og svo mætti lengi telja.

Við hjá Rúnatý sjáum þessa þróun einnig verða í íslenskum bókmenntum. Lesendur eru tilbúnir fyrir genre bókmenntir á íslensku. Við höfum gefið út smásögur og stærri verk eftir lítt þekkta höfunda og selt sem rafbækur. Hefur velgengni þeirra komið okkur í opna skjöldu, t.d. hefur smásagan Epli Iðunnar eftir Jóhann Þórsson selst býsna vel á Skinna.is. Við erum auk þess að vinna með tveimur upprennandi höfundum, annars vegar að fantasíu og hins vegar vísindaskáldsögu. Verður mjög spennandi að sjá hvernig þeim verður tekið þegar þær koma út.

Við hlökkum til að sjá hvernig þróunin verður á næstu árum. Rúnatýr mun áfram starfa að því að gefa út furðusögur, bæði á rafbókaformi og prentuðu.


Ný rafbók

Nýverið settum við nýja rafbók á vefinn okkar. Þar eru á ferðinni tvær smásögur eftir þá Jóhann Þórsson og Kjartan Yngva Björnsson, báðar stórgóðar.

Fyrri sagan, Epli Iðunnar, er urban fantasía, þar sem goðafræði rennur saman við nútímalegar aðstæður. Sagan segir frá tveimur rannsakendum á vegum Fimbulversla, sem er sérstök stofnun og sér um að rannsaka það sem myndi flokkast sem yfirnáttúruleg fyrirbæri. Ekki er allt sem sýnist og kemur endirinn á óvart. Sagan er spennandi allt frá upphafi til enda og er sögusviðið einnig skemmtilegt. Jóhann er 33 ára gamall, faðir búsettur í Kópavogi en hefur í gegnum tíðina búið víðsvegar um heiminn. Hann skrifar smásögur bæði á ensku og íslensku og hafa nokkrar þeirra birst í blöðum hérlendis. Einnig hefur hann fengið birtar sögur á erlendum vefsíðum, t.d. á everydayfiction.com .

Seinni sagan, Hylur, er öllu óhugnanlegri. Segir þar frá manni sem þarf að kljást við fortíð sína. Í senn er sagan draumkennd og hrollvekjandi, er óhætt að segja að manni renni kalt vatn milli skinns og hörunds við lestur hennar. Kjartan er 27 ára meistaranemi í bókmenntafræði.

Góða skemmtun!

Smelltu hér til að skoða rafbækur Rúnatýs.