Tag Archives: kindle

Rafbókaárið 2012

Rafbækur hafa svo sannarlega vakið athygli á árinu. Fjölmargar útgáfur og forlög hafa gefið út titla í því formi og er óhætt að segja að það hafi komið umræðunni vel af stað, eins og sjá má í fjölmörgum bloggum og blaðagreinum. Hins vegar er eins og ákveðnir þættir umræðunnar komist ekki til skila og virðist sama hversu oft umræðan fer í gang, oftast snýst hún um sömu atriðin, þ.e. verðlagningu, aðgengi eða afritunarvarnir og svo loks Kindle.

Verðlagning

Mörgum finnst rafbækur dýrar. Séu vinsælustu titlar jólabókaflóðsins skoðaðir þá kosta þeir á milli 3.000 og 4.000 kr. í rafbókaformi. Í prentuðu formi kosta þeir frá 3.500 kr og upp undir 6.000 kr. Í sumum tilfellum munar ekki nema nokkrum hundrað körlum á rafbók og innbundnu eintaki.

Það er hverjum útgefanda í sjálfsvald sett hvert heildsöluverð hann ákveður, með því ákveður hann í raun hvert útsöluverð bókar sé, hvort sem um rafbók er að ræða eða prentaða, því flestar verslanir eru með ákveðna prósentu sem þær leggja ofan á heildsöluverðið. Álagning rafbókaverslanna er oftast nær um helmingur af álagningu hefðbundinna bókaverslanna.

Oft er kvartað yfir of háu verðlagi, í ljósi þess að ekki leggist prentkostnaður á rafbókina. Það er alveg rétt, en þó er ágætt að hafa í huga, að annar kostnaður gerir það engu að síður og oftast nær er hlutur höfunda stærri af sölu rafbóka, t.d. þarf að markaðssetja og prófarkarlesa rafbækur. Vissulega má segja að sá kostnaður dreifist jafnt milli prentaða eintaksins og rafbókarinnar, en kostnaðurinn er engu að síður til staðar.

Hins vegar nálgast útgáfur verðlagningu rafbóka hver á sinn hátt og höfum við hjá Rúnatý nálgast hana á þann hátt, að við viljum frekar vera í neðri mörkunum og selja þá hugsanlega eilítið fleiri eintök, en að vera við efstu þolmörk notenda og missa þannig þá af sölu.

Aðgengi eða afritunarvarnir

Eins og flestir unnendur rafbóka ættu að vita, þá hafa nokkrar útgáfur hérlendis ákveðið að notast við afritunarvarin ePub skjöl, sem sniðmát fyrir rafbækur sínar. Slíkt er gert fyrst og fremst til að verja útgáfurnar fyrir mögulegu tapi af ólöglegri dreifingu verka þeirra. Ólögleg dreifing er, sama hvað fólki kann að finnast, raunverulegt vandamál á netinu og nokkuð sem allir útgefendur hugverka hafa áhyggjur af, enda getur hún kostað þá háar fjárhæðir.

Hins vegar hefur þetta leitt til þess, að aðgengi notenda, t.d. notenda Kindle, er ekki sem best og því miður hefur umræðu verið haldið á lofti sem er í senn villandi og röng, bæði af hálfu forsvarsmanna stórra forlaga og rafbókasala. Mikilvægt er að rangfærslur sem fram koma hjá viðkomandi aðilum séu leiðréttar, þannig þeir notendur sem ekki eru vel upplýstir fái sem réttastar upplýsingar í hendur hverju sinni.

Afritunarvarnir eru þannig hugsaðar fyrst og fremst til að verja hag útgefenda og rithöfunda. Hins vegar er ágætt að hafa í huga, að á öllum stærstu íslensku deilisíðum er stranglega bannað með öllu að dreifa íslensku efni. Auk þess verðum við títt vör við það hugarfar, að íslenskir notendur vilji ekki dreifa íslensku efni, einfaldlega af því viðkomandi vill styðja íslenska listamenn. Við reiknum með að svo sé í miklum meirihluta tilfella og ákváðum að líta á það sem ásættanlegan fórnarkostnað, væri verkum okkar dreift lítilllega ólöglega, ef tryggt væri að aðgengi væri með allra besta móti og notendur þannig ánægðir.

Afritunarvörnin og skilmálar sumra rafbókaverslanna eru hins vegar þannig úr garði gerð, að efast má um hvort löglegt sé að kalla það kaup, þegar rafbók er keypt eftir þeim leiðum. Það er nokkuð sem við teljum vera áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þess að hægt er að loka aðgangi notenda og loka þannig á að þeir geti notað rafbækur eða skjölin sem voru varin með þeim hætti. Þannig hefur notandinn ekki lengur fulla stjórn á eign sinni og er spurning hversu eðlilegt sé að kalla slíkt kaup. Hvetjum við notendur til að kynna sér vel í hverju afritunarvörn og skilmálar viðkomandi rafbókaverslana felast, áður en fest eru kaup á rafbók.

Kindle

Eftirfarandi spurningu eða svipaða sjáum við oft á spjallsíðum og samfélagsmiðlum og okkur er ljúft að svara þeim eftir bestu þekkingu okkar: Af hverju get ég ekki fengið íslenskar bækur á Kindle’inn minn?

Það er hægt og í dag selja emma.is og skinna.is rafbækur á mobi sniði. Nokkur af stærstu forlögum landsins hafa ákveðið að gefa ekki efni út á því sniði, því erfitt er að afritunarverja það. Það svar er oft gefið, að Amazon framleiðir og selur Kindle lesbrettin fyrst og fremst til að selja bækur á læstu Mobi sniði og hafi ákveðið að hafa kerfi sitt lokað utanaðkomandi aðilum. Það er í senn villandi og rangt, Amazon hefur gefið það út að öllum sé frjálst að gefa út efni fyrir Kindle. Hins vegar styðst Kindle Store við ákveðin skráarformöt (AZW, Mobi, PRC og KF8) sem eru afritunarvarin af þeirra hálfu, með afritunarvarnarkerfi Amazon, sem útgefendur bóka sem seldar eru í Kindle Store, ráða hvort notuð sé á rafbækur þeirra. Í raun er sú krafa, að hvaða rafbókasala sem er geti notað afritunarvörn Amazon álíka undarleg og ef við myndum ætlast til að geta selt rafbækur okkar með afritunarvörn Skinna.is á ebækur.is. Afritunarvarnir téðra fyrirtækja eru einkaeign þeirra og getur Amazon, líkt og Skinna, skilyrt notkun þeirra við eigin verslanir.

Það er því í raun lítið annað en pólitísk ákvörðun hvers forlags fyrir sig, hvort gefið sé út efni fyrir Kindle eða ekki. Svarið við þeirri spurningu endurspeglar, að okkar mati, hvaða augum útgáfurnar líta lesendur og notendur rafbóka. Það er vissulega erfiðara að afritunarverja rafbækur fyrir Kindle og kallar það því eftir að útgáfur leggi meira traust á notendur en ella. Sumar útgáfur gera það, m.a. Rúnatýr, og gefum við út allt okkar efni fyrir alla rafbókalesara, því við teljum að besta leiðin til að koma í veg fyrir ólöglega dreifingu er að tryggja að notendur eigi auðvelt með að nálgast efnið eftir löglegum leiðum.

Hins vegar er leiðinlegt að sjá, hvernig útgefendur hafa vísað ábyrgðinni á þessu vali yfir á Amazon, sem hefur ekki annað til sakar unnið en að neita að taka örmarkaði á borð við þann íslenska inn í Kindle store. Enn leiðinlegra er að sjá forsvarsmenn stórra rafbókaverslanna ítreka það í eyru notenda sinna en á sama tíma tala um að þeir vildu glaðir gefa út efni fyrir Kindle. Glöggir notendur sjá hins vegar fljótlega í gegnum slíkt, því marga þá titla sem fáanlegir eru á einum stað aðeins í afritunarvörðu ePub formi, eru fáanlegir á þeim næsta í Mobi formi. Þannig er eitt í orði en annað á borði og ljóst að sumar rafbókaverslanir ganga erinda útgefenda í stað þess að bera hag notenda fyrir brjósti.

Að lokum langar okkur til að þakka ykkur kærlega fyrir viðskiptin og samskiptin á árinu sem nú er að líða. Á næsta ári munum enn sækja fram og stefnum á að gefa út fleiri furðusögur, vonandi þær fyrstu strax á fyrstu mánuðum nýs árs. Eigið gleðileg áramót og farsælt komandi ár.

Advertisements

Vegna fréttar um rafbækur

Í kvöldfréttum RÚV var fjallað um rafbækur og kom þar forsvarsmaður Forlagsins. Sagði hann að ekki væri hægt að gefa út fyrir Kindle lesbrettið og sjáum við okkur knúin til að svara þessu, enda hefur Rúnatýr gefið út rafbækur í sniðmáti sem Kindle les á nokkurra vandkvæða undanfarið ár eða svo. Sendum við eftirfarandi til fréttamannsins, Jóhanns Hlíðar Harðarsonar.

Komdu sæll, Jóhann!

Ég sá frétt þína um rafbækur og komandi rafbókaflóð í fréttum í kvöld. Það er gaman að sjá aukna umfjöllun um rafbækur, enda þörf á því að upplýsa almenning um þann valkost. Hins vegar þótti mér leiðinlegt að heyra að haft var eftir forsvarsmanni Forlagsins um Amazon og möguleika til að selja íslenskar bækur fyrir Kindle, að ekki væri slíkt í boði þar sem Amazon hefði lokað á íslenskar bækur. Ég tel að þar sé aðeins hálf sagan sögð og spurning hvort verið sé að slá ryki í augu neytenda.

Rétt er að Amazon hefur enn sem komið er aðeins tekið lítið brot af heildarbókamarkaði heimsins inn í Kindle store, enda tekur það langan tíma að laga vefverslunina að kröfum hvers markaðar. Hins vegar er öllum frjálst að gefa út efni fyrir Kindle, hvort sem um er að ræða lesbrettið eða smáforrit hugsað fyrir síma og spjaldtölvur. Við hjá Rúnatý höfum gefið út efni sem Kindle les og selt nú í að verða hálft ár án nokkurra vandræða í vefversluninni Skinna.is. Einnig er hægt að nálgast efni fyrir Kindle í vefversluninni Emma.is fyrir utan allar þær erlendu rafbókaverslanir sem selja rafbækur fyrir þá tækni. Kindle lesbrettið les ákveðnar skráargerðir og er öllum frjálst að gefa út og selja rafbækur í þeim sniðmátum. Hins vegar notast Amazon Kindle store við tvö sérsniðin skráarsnið sem aðeins eru ætluð til sölu þar og þau snið eru aðeins ætluð útvöldum mörkuðum. Sjá http://en.wikipedia.org/wiki/Amazon_Kindle#Document_availability

Þau sniðmát sem Amazon notar eru varin með afritunarvörn, rétt eins og þær rafbækur sem Forlagið er að selja í dag. Hægt er að afritunarverja rafbækur sem seldar eru undir öðrum sniðmátum en þeim sem notuð eru í Amazon Kindle store. Hefur það verið gert með ágætum árangri hjá Skinna.is.

Það er því fyrst og fremst ákvörðun Forlagsins að selja ekki bækur fyrir Kindle lesbrettið eða hugbúnaðinn, því lítið vandamál er að útbúa rafbækur fyrir hvoru tveggja án aðkomu Amazon, eins og gert er á Skinna.is og Emma.is. Því er umhugsunarvert hvað valdi því að stærsta forlag landsins ákveði að sniðganga stóran hluta viðskiptavina með þeim hætti sem þeir gera. Er það gert með hagsmuni neytenda, rithöfunda eða útgáfunnar í huga?

Rúnatýr gefur út, eins og áður segir, rafbækur fyrir Kindle og öll önnur lesbretti. Stærsti hluti sölu okkar eru rafbækur í sniði fyrir Kindle. Þó svo að hentugt sé fyrir okkur að Forlagið skuli ekki vilja selja notendum slíkra lesbretta bækur (við seljum jú líklega meira fyrir vikið) þá teljum við mikilvægt að neytendur séu upplýstir um staðreyndir málsins, því það er okkur ekki til heilla að lesendum rafbóka sé talið í trú um að ekki fáist íslenskar bækur fyrir græjur þeirra, því það er langt frá hinu sanna. Fjöldi forlaga (flest í minni kantinum) selja nú þegar rafbækur fyrir Kindle, hægt er að sjá hvaða forlög á Skinna.is og Emma.is.

Við teljum því mikilvægt að neytendur séu upplýstir um að ekkert standi okkur íslenskum útgefendum fyrir þrifum í útgáfu á efni fyrir Kindle, heldur sé það ákvörðun hvers forlags fyrir sig hvort notast er við þau opnu skráarsnið sem standa til boða. Aðkoma Amazon Kindle Store og sú stefna þeirra að vera aðeins með allra stærstu markaði þar inni hefur þar lítið að segja, að okkar mati.

Fyrir hönd Rúnatýs útgáfu,
Þorsteinn Mar


Fréttir af útgáfunni

Vorið er annasamur tími hjá okkur. Við höfum verið á fullu við að koma bókunum okkar á framfæri, auglýsa og önnum kafin við allt það sem tengist slíkri starfsemi. Auk þess hefur okkur verið að berast sífellt fleiri handrit og eru mörg þeirra afar áhugaverð.

Rafbókin sækir í sig veðrið

Það hefur verið mjög gaman að fylgjast með sölunni á rafbókunum okkar. Hún hefur aukist viku frá viku og hefur ekki liðið sú vika, að ekki hafa verið einhverjir titlar frá okkur á metsölulistum Skinnu. Því miður er úrval rafbóka á íslensku fábrotið en við ætlum okkur að breyta því. Sérstaklega er leiðinlegt hversu lítið úrvalið er fyrir notendur Kindle en við vonum að það breytist eftir því sem fram líða stundir.

Gaman er þó að sjá að sífellt fleiri útgáfur eru að vakna fyrir þeim möguleikum sem felast í rafbókinni. Við höfum nýverið tekið að okkur að útbúa og dreifa rafbókum fyrir annað lítið forlag, sem að mestu gefur út bækur fyrir allra yngstu lesendurna og munu þær bjóðast til sölu von bráðar.

Við munum í framtíðinni leggja mesta áherslu á útgáfu rafbóka og reyna þannig að leggja lóð okkar á vogarskálarnar í þeirri byltingu sem rafbókavæðingin er.

Tvær nýjar kiljur

Við gáfum út tvær kiljur nú í vor, annars vegar skáldsöguna Þoku eftir Þorstein Mar og hins vegar Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur eftir H. P. Lovecraft. Hafa þær hlotið ágætar viðtökur og báðar ratað inn á metsölulista sem rafbækur. Hægt er að kaupa þær í öllum betri bókaverslunum, t.d. Bókabúð Máls og menningar, Iðu og Eymundsson. Hins vegar hefur aðeins lítillega verið fjallað um hvorn titil í fjölmiðlum, helst hafa vinir okkar í Nörd Norðursins verið duglegir að segja frá bókunum, en þetta veldur okkur nokkrum áhyggjum. Hvað stýrir því um hvaða titla fjölmiðlar fjalla? Við höfum sent eintök á nær flesta þeirra, þ.a. þá sem hafa svarað og óskað eftir eintökum en ákveðnir fjölmiðlar hafa hunsað algjörlega tölvupósta frá okkur og jafnvel margsenda slíka.

Fullt af flottum handritum

Við erum á fullu þessa dagana að lesa yfir handrit og þau ekki af verri gerðinni. Nokkur hafa verið tekin inn í ritstjórnarferli, þ. á m. fantasía, vísindaskáldsaga, steam-punk saga og hrollvekja. Við hlökkum mikið til að koma þessum handritum í rafbókaform og vonandi prentað form í framhaldi af því. Stefna er sett á að fyrstu handritin séu klár á komandi ári, næsta vor ætti því að verða mjög áhugavert fyrir þá sem njóta furðusagna. Allt eru það handrit frá ungum og efnilegum höfundum sem við teljum vera með sögur sem eiga fyllilega erindi við lesendur.

Sumarið er frábær tími til að lesa bækur og hvetjum við því alla til að grípa aðra hvora kiljuna frá okkur eða skoða úrval titla frá Rúnatý á vef Skinna.is. Við vonum að þið eigið gott bókasumar.


Rafbókavæðingin

Áhugavert hefur verið að fylgjast með umræðum á netinu í kjölfar opnunar rafbókaverslunarinnar Skinna.is. Ljóst er að margir neytendur eru ekki sáttir við það fyrirkomulag sem sumar útgáfur hafa á rafbókaútgáfu sinni, bæði veldur að verðlagning á sumum titlum er hærri en á kiljum og eins sú staðreynd að ekki er boðið upp á skráarsnið sem Kindle styður. Í ljósi þess að 59% niðurhala á síðasta ári af Rafbókavefnum var fyrir Kindle er skiljanlegt að margir eigendur slíkra lesbretta skuli vera pirraðir. Það er jú verið að sniðganga ansi stóran neytendahóp.

Rafbókavæðingin felur í sér gríðarleg tækifæri, ekki leikur nokkur vafi á því. Enda hefur það sýnt sig á Amazon, þar sem sjálfsútgáfur og minni forlög hafa blómstrað, enda geta þær boðið upp á verð sem stóru forlögin eiga erfitt með að keppa við. Hér á landi hefur Emma.is tekið þessa markaðshugmynd föstum tökum og má nálgast þar marga titla á verði sem er í lægri kantinum fyrir bækur. Hins vegar verður að teljast ólíklegt að hérlendis muni verða hægt að kaupa nýja titla á undir þúsund krónum, eins og er stundum hægt á Amazon. Við höfum útskýrt í hverju okkar verðlagning felst (sjá hér) og teljum að sanngjarnt sé að neytendur geti keypt okkar titla á verði sem inniheldur ekki prentkostnað.

Hérlendis er þessi markaður nokkur vanþróaður. Útgefendur óttast ólöglega dreifingu og leita því margir logandi ljósi eftir afritunarvörn sem þeir telja nógu góða. Sé úrvalið á Eymundsson, vef Forlagsins og Skinnu skoðað kemur í ljós að mörg af stærri forlögunum notast við Adobe ID afritunarvörnina. Í raun er ekkert út á það að setja að notuð skuli afritunarvörn, Skinna býður upp á slíkt sem og Amazon. Það er eðlilegt að við sem stöndum í því að gefa út hugverk reynum eftir fremsta magni að verja verkin gegn ólöglegri afritun. Sá galli fylgir þó gjöf Njarðar, að Adobe ID styður ekki skrársnið fyrir Kindle eins og er, heldur aðeins er hægt að lesa skrár varðar með þeim hætti í lesurum sem styðja vörnina.

Þegar við hjá Rúnatý vorum að fara af stað með rafbækur í sölu skoðuðum við þessi mál vandlega og í raun mætti segja að tvö sjónarmið vegi þarna salt, annars vegar þörfin fyrir afritunarvörn og hins vegar auðvelt aðgengi neytenda. Við rýndum í hvernig aðrar útgáfur hérlendis hafa hagað þessum málum, t.d. Forlagið, Ás útgáfan o.fl. Eftir gaumgæfilega íhugun komumst við að þeirri niðurstöðu að aðgengi neytenda væri okkur mikilvægara en afritunarvörn. Upp til hópa er fólk heiðarlegt og vill að ungir íslenskir listamenn fái greitt fyrir vinnu sína. Langflestir dreifa ekki efni með ólöglegum hætti og sérstaklega ekki efni sem er aðgengilegt og á sanngjörnu verði.

Um leið og markaðurinn er vanþróaður hérlendis, eru neytendur hins vegar orðnir nokkuð sjóaðir í kaupum og lestri rafbóka. Margir eru kúnnar Amazon eða iBooks og lesa mikið af rafbókum. Þeir neytendur þekkja lítið annað en fá nákvæmlega það sem þeir eru að leita eftir á góðu verði og fá það jafnvel sent beint í lesgræjur sínar. Hægt er að fá íslenskar rafbækur sendar beint í iPad eða álíka spjaldtölvur en enn sem komið er þurfa neytendur að tengja Kindle lesbretti sín við tölvur til að hlaða inn á þær íslenskum rafbókum keyptum í öðrum rafbókaverslunum en Amazon. Væri gaman ef lausn fyndist á því vandamáli.

Rúnatýr útgáfa leggur mikla áherslu á útgáfu rafbóka. Við erum lítið forlag, með sérhæfða útgáfustefnu og því er rafbókin sem himnasending fyrir okkur. Í okkar huga leikur enginn vafi á að á komandi misserum munu sífellt fleiri unnendur bókmennta færa sig yfir í þetta form og við viljum því tryggja að okkar titlar séu aðgengilegir og ódýrir. Eins sjáum við tækifæri í að bjóða upp á smásögur í stykkjatali, þar sem það gefur okkur færi á að kynna unga og upprennandi höfunda með tiltölulega lágum tilkostnaði.

Spennandi verður að fylgjast með þessari þróun komandi vikur. Ljóst er að neytendur fylgjast grannt með hvernig þessum málum er háttað og kalla eftir að stóru forlögin og rafbókaverslanir komi til móts við þá. Eins verður gaman að sjá hvort neytendur kaupi þá frekar ódýrari titla eða skoði frekar þær bækur sem hægt er að hlaða niður í Kindle, einkum á meðan stærri forlögin eru ekki að sinna þessum hópi. Tækifærin fyrir litla útgáfu eins og okkur eru því fjölmörg.