Tag Archives: Lovecraft

Stafrænar furðusögur

Þetta erindi var flutt á Nexus Furðusagnahátíðinni föstudaginn 23. nóvember sl.

Kastali Otrantos eftir Horace Walpole er talin vera fyrsta gotneska sagan, en hún kom út árið 1764. Í sögunni mættust annars vegar hefðir riddarabókmennta og rómantísku stefnunnar og hins vegar hið framandlega og forboðna. Walpole sagði, að markmið hans hafi verið að sameina rómantík miðaldabókmennta, sem hann taldi of framandi, og hins vegar nútímabókmennta, sem honum fannst of raunsæislegar.[1] Þessi nýja tegund bókmennta heillaði marga og þá sérstaklega kvenkyns höfunda, – höfunda á borð við Klöru Reeve, sem skrifaði m.a. Old english Baron, Ann Radcliffe, sem skrifaði Leyndardómar Údolfós, og síðar Brönte systra.

Þegar líða tók á 19. öld voru margir höfundar sem tóku að skrifa gotneskar sögur og útfærðu stefnuna enn frekar, höfundar á borð við Edgar Allan Poe, Bram Stoker, Robert L. Stevenson og Mary Shelley. Í Frankenstein eða Hinum nýja Prómoþeus, sem er eftir síðastnefnda höfundinn og kom út árið 1818, renna saman vísindaskáldsaga og sú gotneska, og hefur m.a. rithöfundurinn Brian Aldiss haldið því fram að sú saga sé fyrsta vísindaskáldsagan, þó finna megi verk allt frá 2. öld eftir Krist sem innihalda einkenni vísindaskáldskapar.[2] Síðar, með tilkomu nýrra uppfinninga, skrifuðu H. G. Wells og Jules Verne slíkar sögur og færðu það form áfram nær því sem við þekkjum í dag. Wells skrifaði m.a. með George MacDonald, skoskum höfundi en hann skrifaði einkum fantasíur og er talinn einn af forvígismönnum slíkra bókmennta og er talinn hafa haft mikil áhrif á J. R. R. Tolkien og C. S. Lewis.

Fantasíur, vísindaskáldsögur og hrollvekjur áttu það helst sameiginlegt að vera í andstöðu við hina raunsæislegu skáldsögu, þar sem í þeim sögum gerðist eitthvað framandi sem var ekki hægt að útskýra með þekktum vísindalegum aðferðum þess tíma, sbr. framvindu hinnar þekktu Leyndardómar Snæfellsjökuls eða Ferðin að miðju jarðar eftir Jules Verne.

Úr þessum frjóa jarðvegi spretta furðusögur eins og við þekkjum þær í dag. H. P. Lovecraft, Robert E. Howard, Clark Asthon-Smith og Henry Whitehead mynduðu hinn upprunalega Lovecraft hring, sem hafði síðan svo sterk áhrif á furðusöguna. Sögur þeirra, sem voru að mestu leyti smásögur og nóvellur, birtust á síðum svokallaðra pulp tímaríta á borð við Weird Tales og Wonder Stories. Margir tóku við af þeim, t.d. Roberth Bloch og Fritz Lieber. Furðusagan varð þannig til í höndum þessara rithöfunda, í skrifum þeirra fyrir áðurnefnd tímarit, þar sem mættist hið framandlega og fantatíska, áþreifanlegur og yfirskilvitlegur hryllingur, sem og einkenni vísindaskáldskapar.

Hér heima fór framan af ekki mikið fyrir furðusögum. Valdimar Ásmundsson þýddi stórverk Stokers, Dracula, og var sú þýðing birt árið 1900 undir titlinum Makt myrkranna sem neðanmálssaga í hálfsmánaðarlega ritinu Fjallkonunni. Fleiri sögur birtust þannig, m.a. Tímavélin eftir H. G. Wells, en sú þýðing var birt 22 árum síðar en Makt Myrkranna. Þórbergur Þórðarson þýddi nokkrar sögur Poes ásamt því að skrifa sjálfur nokkrar smásögur í svipuðum stíl, t.d. Morð – Morð! Jules Verne birtist fyrst á íslensku árið 1906, þegar sagan Í kringum jörðina á 80 dögum var þýdd og kom Dularfulla eyjan út árið 1913.

Af íslenskum furðusögum er lítið að segja fram á 9. áratug síðustu aldar og má segja að útgáfa slíkra geirabókmennta sé í skötulíki framan af 20. öld. Það voru aðallega kvenkyns höfundar sem tóku fantasíuna upp á sína arma og skrifuðu slíkar sögur fyrir börn, helsta ber að nefna Iðunni Steinsdóttur. Hins vegar, ef vel er að gáð, má finna ýmsar bækur sem innihalda eiginleika furðusagna en hafa ekki verið kynntar eða skoðaðar mikið í því ljósi, t.d. Vikivaki eftir Gunnar Gunnarsson. Jafnvel höfum við nærtæk dæmi um slíkar sögur, t.d. Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur, sem vel má flokka til hryllingssagna, en var markaðssett sem sálfræðilegur spennutryllir. Eins mætti flokka sum skáldverka Guðrúnar Evu Mínervudóttur sem furðusögur, þá einkum Yosoy og Allt með kossi vekur, eða að minnsta kosti segja að þær innihaldi ákveðna eiginleika þeirra.

Þar höfum við hins vegar í sjónmáli eitt allra helsta vandamál furðusögunnar, þ.e. að hún hefur ekki og situr jafnvel enn ekki við sama borð og hin raunsæislega nútímalega skáldsaga. Í gegnum tíðina hafa gagnrýnendur, og í sumum tilfellum líka útgefendur, litið niður á hana sem bókmenntaform, þar sem um er að ræða léttmeti eða afþreyingu sem ber ekki að taka alvarlega sem slíka. En hvaða skáldskapur er ekki lesin sem afþreying að mestu leyti? Geirabókmenntir, sama hvaða nafni þær nefnast; ástarsögur, furðusögur, vestrar og svo mætti lengi telja, hefur þannig verið stillt upp sem mótvægi við hinum bókmenntalegu verkum, svo jafnvel hefur verið rætt um að lestur geirabókmennta sé, svo ég vitni í Úrsúlu K. Le Guin, „guilty pleasure.“ Enn fremur segir hún:

Critics are ever more clearly aware that a lot of literature is happening outside the sacred groves of modernist realism. But still the opposition of literature and genre is maintained; and as long as it is, false categorical value judgment will cling to it, with the false dichotomy of virtuous pleasure and guilty pleasure.

Eins og Le Guin bendir á, eru sífellt fleiri að átta sig á þeirri sköpun, því hugmyndaflugi og þeim skáldskap sem gerast utan við þröngan sjóndeildarhring borgaralegra raunsæisbókmennta. Á það við hérlendis, sem annars staðar. Og það sem er enn gleðilegra, er að sífellt fleiri lesendur eru að uppgötva furðusöguna og aðrar geirabókmenntir. Okkur nægir að horfa til velgengni Harry Potters, vinsælda Game of Thrones og Twilight bókaflokkanna. Hringadróttinssaga og Narníu sögurnar hafa verið kvikmyndaðar og í sjónvarpi er boðið upp á fjölmarga þætti sem eiga rætur sínar að rekja til furðusagna, t.d. Merlín sem sýndur er á laugardagskvöldum á RÚV. Við sjáum það einnig í ríkulegri útgáfu þessa árs á titlum sem flokka má sem furðusögur.

Úr grasi er að vaxa ný kynslóð lesenda, kynslóð sem ólst upp við að lesa Harry Potter, Sverðbera Ragnheiðar Gestsdóttur, sögurnar um Blíðfinn og Söguna af bláa hnettinum. Slíkir lesendur hafa auk þess aldrei kynnst heiminum án þess að hafa internet, tölvur og farsíma. Þessi hópur er byrjaður eða mun tileinka sér stafræna nálgun á bókmenntir, með hvaða hætti hún kann svo sem að verða. Rafbækur eru einn angi þeirrar nálgunar.

*

Rafbók er um margt merkilegt fyrirbæri. Ekki er tiltölulega langt síðan hún kom fram en á skömmum tíma hefur sala á rafbókum aukist með hverju ári í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þetta útgáfuform á bókmenntum, sem er í raun ekkert annað en HTML skjal sem geymir texta og kóðaðar upplýsingar, er þannig á vissan hátt að breyta útgáfustarfsemi í heiminum. Útgáfa bóka er orðin umtalsvert einfaldari eftir tilkomu rafbókarinnar og hefur fjöldi þeirra rithöfunda sem gefa sjálfir út eigið efni margfaldast á örfáum árum. Nægir að fletta í gegnum vörulista rafbóka í vefversluninni Amazon til að komast að raun um hve mikið er gefið út af slíkum bókum.

Og skyldi nokkurn undra? Jafnvel hér á okkar fámenna landi eru fjölmargir sem hafa gaman af því að skrifa, leggja í alla þá vinnu sem felst í að koma sögu á blað í skikkanlegu ástandi og ganga síðan á milli forlaga í von um að fá handrit sitt útgefið. Hins vegar er ekki auðvelt að komast að þar á bæ, enda margir um hituna og því skiljanlegt að sumir bregði á það ráð að gefa út rafbók, í stað þess að láta prenta ágætt upplag með ærnum tilkostnaði. Hægt er að komast af með að kosta tiltölulega litlu fé í útgáfu rafbóka hafi menn grunnfærni í tölvum og því fjárhagsleg áhætta höfunda ekki mikil og síst í samanburði við þann kostnað sem fellur til við prentunina, en að sjálfsögðu koma til aðrir hefðbundnir kostnaðarliðir, svo sem prófarkarlestur, kápugerð og markaðssetning.

Í ritgerð sinni, Supernatural horror in Literature[3], sagði Lovecraft: „THE OLDEST and strongest emotion of mankind is fear, and the oldest and strongest kind of fear is fear of the unknown.“ Um margt má heimfæra þessa yfirlýsingu á útgáfu rafbóka hérlendis, sem er enn sem komið er skammt á veg komin. Fáanlegir eru á fimmta hundrað titlar, í heildina talið, og af samtölum mínum að dæma við útgefendur þá eru margir þeirra óöryggir með hið nýja form og þar sem útgáfa rafbóka hérlendis er ekki þekkt stærð, ef svo mætti að orði komast, þá er auðvelt að líta framhjá henni. Eins er ýmislegt sem letur útgefendur til að tileinka sér rafbækur, t.d. krafa neytenda um álíka verðlagningu á rafbókum og fyrirfinnst hjá Amazon sem og óttinn við ólöglega dreifingu og þannig tapaðar tekjur. Í bransa sem er jafn rótgróinn og íhaldssamur og útgáfustarfsemi, þá ætti það að koma fáum á óvart þó farið sé varlega í jafn stórvægilegar breytingar og rafbækur eru. Í raun fjarlægja rafbækur grundvöll og ástæðu þess að útgáfustarfsemi hófst á sínum tíma, þ.e. uppfinning gullsmiðsins Jóhannesar Gutenbergs er ekki lengur nauðsynleg til þess að gefa út bók, nokkuð sem útgáfur og forlög hafa stuðst við allt frá miðri 15. öld. Og þegar sýnt hefur verið fram á að útgáfur geta í raun einnig verið óþarfar, s.s. þegar skoðuð er velgengni sjálfútgefinna rithöfunda á borð við Heather Killough-Walden og J. R. Rain, en báðar skrifa þær furðusögur, sem og þá staðreynd að síðan 2008 hafa komið út fleiri sjálfsútgefnar bækur en hjá forlögunum í hinum ensku mælandi heimi, er óhætt að ímynda sér að jafnvel forlögin sjálf og forráðamenn þeirra skuli hugsa með sér: Munu örlög okkar verða þau hin sömu og hjá prentverkinu? Þannig fela margar útgáfur sig á friðsælli eyju hefðbundinnar bókaútgáfu og hætta sér ekki til að kanna stafræna hafið sem umlykur hana, hugsanlega af ótta við að uppgötva sína eigin glötun.

Hin ofnotaða klisja, framtíðin er núna, á hins vegar ágætlega við í tilfelli rafbóka og nýrra kynslóðar lesenda, sem les af tölvuskjám, spjaldtölvum, lestölvum, snjallsímum og að sjálfsögðu hefðbundnar bækur. Sú kynslóð sem nú tekur við Spádóminum, Steinskrípunum og Hrafnsauga elst upp við að yfir 90% heimila landsins eru nettengd, snjallsímaeign verður sífellt algengari og spjaldtölvur teljast eðlilegar og jafnvel nauðsynlegur hluti á heimilum. Um athygli þeirra berjast fjölmargir miðlar, tölvuleikir, sjónvarpsþættir, kvikmyndir, samfélagsmiðlar. Aðgengi þeirra að efni á netinu verður sífellt auðveldara og það sem ekki er hægt að fá með löglegum, einföldum hætti er oft sótt eftir ólöglegum en einföldum leiðum. Í því felst vissulega ógn við eignarétt höfunda á hugverkum sínum, um það deila víst fæstir. Hins vegar geta líka falist í stafrænum bókmenntum styrkleikar, jafnvel, þótt ótrúlegt megi virðast,  í ólöglegri dreifingu, því hversu margir hafa ekki einmitt kynnst nýjum höfundum, jafnvel uppáhalds höfundi sínum, með því að fá lánaðar bækur hjá vinum, ættingjum og kunningjum? Með því að umbreyta þeim ógnum sem steðja að stafrænni útgáfu hugverka í styrkleika geta ráðsettar útgáfur, ung forlög og höfundar sem gefa sjálfir út verk sín fundið sér stað á nýrri, stafrænni öld, þar sem þjónusta við lesendur er höfð að leiðarljósi.

Framtíðin er vissulega núna. Á þessu ári telst mér til að amk. þrjár rafbókaverslanir hafi tekið til starfa; Emma.is, Skinna.is og Ebækur.is. Fyrir voru Forlagid.is, lestu.is, eymundsson.is og rafbokavefur.is, en sú síðastanefnda býður einkum og aðallega upp á verk sem komin eru úr höfundarrétti og fást þar gefins. Þannig er megináhersla marga forlaga á að gefa út afritunarvarin ePub skjöl, sem hefur mælst misjafnlega fyrir meðal neytenda, og þó sala fari almennt hægt af stað, til samanburðar við bókabúðir með prentaða titla, er vissulega vaxtabroddur fólginn í rafbókaútgáfu hérlendis og sérstaklega fyrir útgefendur og höfunda furðusagna.

*

Í fyrsta tölublaði Furðusagna, og því eina hingað til, í ritstjórn þeirra Alexanders Dans Vilhjálmssonar og Hildar Knútsdóttur, segir í ávarpi ritstjóra:

Ég vona að með þessu tímariti finnir þú eitthvað sem vekur upp duldar kenndir sem leynast í dýpstu fylgsnum hugans. Að okkur takist að færa þér eitthvað einstakt, eitthvað nýstárlegt. Þetta tölublað er fyrsta skrefið í nýja átt, þar sem kynlegir vindar blása og á næturhimni sjást ókunnar stjörnur.

Tímaritið var gefið út í anda pulp-tímaritanna sem komu út í Bandaríkjunum við árdaga furðusögunnar og vísar nafn Furðusagna til þess tímarits sem var hvað duglegast að birta slíkar sögur, Wierd Tales. Þó svo, að Furðusögur hafi ekki endilega verið fyrst til að gefa út íslenskar sögur undir þessu geiraheiti, en t.d. kom áður úr Saga eftirlifenda, Baldur og Höður eftir Emil Hjörvar Petersen, þá tel ég að tímaritið hafi verið ákveðinn bautasteinn í útgáfu slíkra bókmennta hérlendis, óevíðklíðskur, rúnum ristur og slímugur bautasteinn en ákaflega merkilegur engu að síður. Því tímaritið, ásamt sögu Emils, virkaði sem eins konar uppvakning fyrir marga og drógu ekki aðeins fram í dagsljósið skrif óþekktra höfunda, heldur sýndi svart á hvítu að bæði var áhugi á svona bókmenntum og að íslenskan náði utan um tungutak og orðaforða furðusagna.

Fyrir daga tímaritsins höfðu furðusögur lítið náð upp á yfirborðið hérlendis, nema þá í þýðingum erlendra bókmennta, með fáum undantekningum þó, t.d. kom bókin Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson út snemma á þessari öld. Geirabókmenntir mættu  þó oftlega ákveðinni andstöðu hérlendis og virðist svo hafa verið allt frá upphafi, m.a. má finna eftirfarandi gagnrýni Benedikts Björnssonar á þýðingu Valdimars Ásmundssonar á Dracula í grein sem Björn skrifaði í Skírni árið 1906[4]:

 Fjallkonan flutti ýmislegt rusl og meðal annars langa sögu, „Makt myrkranna“. Hefði sú saga gjarna mátt eiga sig, og ég get ekki séð, að slíkur þvættingur hafi auðgað bókmenntir vorar.

Væri gaman að heyra hvaða skoðun Björn hefði haft þá á framtaki þeirra Alexanders og Hildar.

Þannig hafa furðusögur oft á tíðum verið settar í flokk með afþreyingarefni, eða „guilty pleasures“, eins og Le Guin orðar það. Og má sjá á útgáfu slíkra bókmennta hérlendis að ósjaldan hefur verið minna til lagt útgáfu þeirra, s.br. muninn á gæðum prentgripanna sjálfra. Þannig hefur verið áþreifanlegur munur á milli þeirra bókmennta sem hafa verið taldar þóknanlegar og þeirra sem eru minna svo. Slíkt mótar að sjálfsögur aðkomu lesenda að verkum, hver kannast ekki við vera lesa eitthvað sem maður hefur áhyggjur af að þyki ekki fínt? Ef við tökum nærtækt dæmi, þá væri hægt að skoða Fimmtíu gráa skugga í þessu ljósi. Bók sem selst eins og heitar lummur, en ég þekki ekki marga sem viðurkenna það að hafa lesið bókina, þeir fussa frekar og sveia yfir hallærislegheitum og lélegum bókmenntum. Um það skrifar Le Guin:

If we thought of all fictional genres as literature, we’d be done with the time-wasting, ill-natured diatribes and sneers against popular novelists who don’t write by the rules of realism, the banning of imaginative writing from MFA writing courses, the failure of so many English teachers to teach what people actually read, and the endless, silly apologising for actually reading it.

Furðusögur hafa þannig, á vissan hátt, verið í sömu sporum og því er mikilvægt að breyta, og ég tel að tímaritið Furðusögur hafi verið fyrsta skrefið í þá átt, þangað sem kynlegir vindar blása og á næturhimni sjást ókunnar stjörnur. Ég ímynda mér að ritstjórar Furðusagna hafi á vissan hátt staðið í sömu sporum og Horace Walpole fyrir svo mörgum árum, með hið sama að markmiði, að tengja saman nýja strauma og gamla, svo leið lesenda liggi inn á áður ókannaðar lendur ímyndunaraflsins.

Með tilkomu rafbóka hefur opnast enn annar slóði inn á þessi lönd. Slóði sem þarf ekki endilega að vera tugþúsund orða langar skáldsögur, heldur stendur höfundum nú sem aldrei fyrr til boða að feta í spor Roberts E. Howard og H. P. Lovecraft og skrifa smásögur, nóvellur og styttri skáldsögur. Hagkvæmiskröfur forlaga um lengd bóka eiga þannig ekki lengur við, því ekkert er því til fyrirstöðu að gefa út og selja staka smásögu. Form á borð við nóvelluna hafa heilt yfir ekki verið mikið gefin út hérlendis, til samanburðar við skáldsöguna, en er engu að síður afar merkilegt form og hentar ekki síður undir furðusögur, sbr. nóvellunna Við hugarfársins fjöll eftir Lovecraft. Hið sama gildir um smásöguna og hafa bæði þessi form, eins og áður segir, fallið í skugga skáldsögunnar hérlendis. Þannig hefur hún verið ríkjandi form íslenskra furðusagna á undanförnum árum, hvort sem um er að ræða fantasíur, vísindaskáldsögur eða hrollvekjur og þegar furðursögur í rafbókaformi eru sérstaklega skoðaðar er þar undantekningalítið um skáldsögur að ræða, en mér telst til að 22 titlar í furðusagnastíl eða hafi einkenni furðusagna standi nú lesendum rafbóka til boða eða eru væntanlegar á næstu vikum, að undanskildum smásögum og nóvellum.

Rétt eins og tímaritið Furðusögur kynnti fyrir lesendum áður óþekkta höfunda er rafbókin tilvalin til þess. Þar sem tilkostnaður þarf ekki að vera svo mikill gefst forlögum og höfundum sjálfum færi á að kanna áhuga lesenda á því efni sem um ræðir hverju sinni. Fyrir höfunda geirabókmennta er þetta sérstaklega áhugaverður vettvangur, sér í lagi þar sem hann getur stytt umtalsvert leiðina á milli höfundar og lesanda. Þannig er lítið því til fyrirstöðu að láta hlekk fylgja rafbók sem leiðir lesanda á aðdáendasíðu höfundar á Facebook. Nokkuð er um að íslenskir höfundar séu virkir á samfélagsmiðlum og er það vel, langar mig sérstaklega til að hrósa Stefáni Mána sem á í góðu sambandi, að mér sýnist, við lesendur sína og sinnir þeim af alúð. Þannig getur rafbókin stutt við markaðssetningu höfundar og komandi skáldverka.

Auk þess bjóða rafbækur upp á allt aðra nálgun á upplifun lesenda. Fyrir notendur spjaldtölva er hægt að ímynda sér að láta leikhljóð fylgja sögum, rétt eins og er nú þegar gert með bækur fyrir allra yngstu lesendur. Vissulega kann sumum að þykja það skemma eða draga úr sértækri upplifun hvers lesenda fyrir sig, en möguleikinn er engu að síður til staðar. Eins er hægt að hlekkja myndir inn í skjöl, t.d. gætu lesendur fantatískrar ferðasögu fylgst með framvindu ferðalagsins á korti, sem jafnvel er gangvirkt. Möguleikarnir eru óþrjótandi og mun án nokkurs vafa fjölga eftir því sem fram líða stundir og tækninni fleygir fram. Við stöndum við upphaf nýrrar aldar, eða eins og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir segir í grein sinni Kynlífsspunar kvenna og 50 gráir skuggar:

Bókaútgáfu hefur hingað til verið stjórnað af afmörkuðum hóp menningarvita og bókaforlaga. Við stöndum nú við upphaf nýrrar aldar þar sem skáldskapurinn stendur okkur öllum galopinn. Rafbókavæðingin og veraldarvefurinn gefa hverjum sem svo kýs tækifæri til að gefa út sínar eigin sögur, sínar eigin bækur. Og konur eru í miklum meirihluta þeirra sem skrifa bækur á netinu, lesa bækur á netinu, gefa út og kaupa bækur á netinu.

*

Í fölri birtu tölvuskjássins birtist okkur ljós nýrrar aldar. Á þessari netvæddu öld, leita kynslóðir furðusagnalesenda ekki að bókum, heldur finna bækurnar lesendur sína, m.a. í gegnum samfélagsmiðla og spjallsíður, á borð við Goodreads.com. Þessir notendur stýra því hvar, hvenær og hvernig þeir lesa bækur, þeir láta ekki forlög binda sig við ónáttúruvæn form fyrri tíma, heldur taka valdið í sínar hendur, því valdið er þeirra. Lesendur eru ekki lengur passívir meðtakendur hugarheims rithöfundar, eins og Brynhildur bendir réttilega á í grein sinni, heldur gefst þeim færi á að breyta og laga verkin eftir sínu höfði. Þannig tel ég að rafbókavæðingin eigi eftir að bjóða enn frekar upp á hvers kyns hermisögur eða aðdáendaspuna og munum við jafnvel fá að sjá í náinni framtíð einhvers konar bókamix, rétt eins og við höfum séð gerast í tónlistinni. Því hvað er sagan Hroki og hleypidómar og uppvakningar eftir Jane Austen og Seth Grahame-Smith annað en nokkurs konar bókamix? Munum við þá hugsanlega fá að sjá Sölku Völku í hlutverki blóðsugubana? Verður Ólafur ljósvíkingur að skikkjuklæddri ofurhetju sem berst við kapítalíska fauta og fúlmenni með maístjörnuna eina að vopni?

Uppgangur furðusögunnar á Íslandi hefur haldist nokkurn veginn í hendur við framrás rafbókarinnar og mikilvægt að við furðusagnahöfundar fylgjum því eftir, höfum augun opin fyrir þeim möguleikum sem stafrænt form býður upp á. Festum okkur ekki eingöngu við skáldsögur, notfærum okkur að geta boðið upp á annars konar form furðusagna. Látum ekki forlög og útgáfur girða okkur af innan múra snobbs og menningarelítu, færum okkur nær lesandanum og gefum af okkur. Þeir eru einstaklingarnir sem halda áfram að smíða við og jafnvel betrumbæta sköpun okkar í aðdáendaspunum sínum, og það er nokkuð sem við þurfum ekki að óttast eða líta niður á. Það ætti að vera markmið okkar, rétt eins og Walpoles og þeirra Alexanders og Hildar, að draga saman það gamla og hið nýja, þannig að úr verði eitthvað einstakt.

Framtíðin er svo sannarlega núna, hér blása kynlegir vindar og á næturhimni tifa ókunnar stjörnur.


[1] Punter, David, (2004), The Gothic, London: Wiley-Blackwell. bls. 178
[2] Aldiss, Brian W., (2005), On the Origin of Species: Mary Shelley. Speculations on Speculation: Theories of Science Fiction, ritstj. James Gunn and Matthew Candelaria. Lanham, Maryland: Scarecrow.
[3] Bloom, Clive (ritstjóri), (1998), Gothic Horror, St. Martin’s Press, New York, bls. 55
[4] Ásgeir Jónsson, (2011),  Makt myrkranna, Bókafélagið, Reykjavík, bls. 221


Fjallað um Kall Cthulhu í Morgunblaðinu

Fjallað var um þýðinguna á sögum Lovecrafts í Morgunblaðinu á fimmtudaginn var og sagði Árni Matthíasson að sögurnar væru ósvikin skemmtilesning. Einnig nefndi hann að Þorsteinn Mar hefði komist alla jafna vel frá þýðingunni, en hún væri á nokkrum stöðum stirðbusaleg og kannski full nálægt stíl Lovecrafts. Í heildina fær bókin þrjár og hálfa stjörnu.


Íslenskar hrollvekjur

Við Íslendingar eigum okkur langa bókmenntahefð, þó svo útgáfustarfsemi sem slík sé ekki ýkja gamalt fyrirbæri hérlendis. Og hrollvekjur hafa löngum verið sagðar hérlendis, enda skemmtileg bókmenntagrein. Við höfum frásagnir í Íslendingasögum sem eru af yfirskilvitlegum og hryllilegum atburðum, t.d. á borð við Fróðárundrin í Eyrbyggju. Þjóðsögur fjalla auk þess margar um þjóðsagnakenndar verur, á borð við drauga og uppvakninga, nykra og umskiptinga, og flokka mætti margar slíkar sögur sem hrollvekjandi. Á 20. öld hefur hrollvekjan svo sem ekki farið hátt í íslenskum bókmenntum og fæstir sem hafa tileinkað sér að skrifa þess háttar bókmenntir, ekkert frekar en þeir sem hafa tileinkað sér að skrifa fantasíur eða vísindaskáldsögur.

Nútímahrollvekjuna má rekja til gotneskra bókmennta. Talið er að fyrsta alvöru gotneska sagan hafi verið Castle of Otranto eftir Horace Walpole sem kom út 1764. Í kjölfar hennar fylgdu margar áþekkar sögur, t.d. The Monk eftir Lewis og Mysteries of Udolpho eftir Ann Radcliffe. Í gotneskum bókmenntum var oft hið forboðna kannað, hvort sem það var forboðin ást eða svartigaldur, sem og hið yfirskilvitlega. Komu fram svipaðar bókmenntir víða um Evrópu á þessum tíma og voru slíkar sögur kallaðar Schauerroman (hryllingssögur) í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið. The Monk hafði sérstaklega mikil áhrif á nútímahrollvekjuna, enda fjallar sagan um sadíska munka, afturgengnar nunnur og forboðnar ástir. Mikið af gotneskum bókum og hryllingssögum voru skrifaðar af kvenkyns rithöfundum og voru markaðssett fyrir þær.

Hrollvekjur sem komu fram á 19. öld sóttu mjög til gotneskra bókmennta. Á þeirri öld komu fram þrjár stærstu hrollvekjurnar, þ.e. Drakúla eftir Bram Stoker, Frankenstein eftir Mary Shelley og Dr. Jekyll og Mr. Hyde eftir Robert L. Stevenson. Enn er verið að gefa þessar sögur út, Drakúla er t.a.m. sú skáldsaga sem hefur hvað oftast verið endurprentuð. Ásamt þessum höfundum kom Edgar Allan Poe fram á sjónarsviðið og höfðu smásögur hans gríðarleg áhrif. Á 20. öld hafa margir höfundar komið fram, m.a. H. P. Lovecraft, M. R. James, Stephen King, Clive Barker og Shirley Jackson.

Nútímahrollvekjan sækir enn mjög í það form sem henni var sniðið strax á 18. öld. Hrollvekjum er ætlað að vekja ugg eða hroll með lesendum sínum, þar er skapað andrúmsloft furða og undra. Hið hryllilega getur verið bæði af þessum heimi eða yfirskilvitlegt. Ann Radcliffe skilgreindi hrollvekjur í byrjun 19. aldar og sagði m.a. að hryllingssögur þyrftu að vera annað hvort að vekja með lesanda sínum ugg eða ótta, eða hroll. Nema hvort tveggja sé. Uggur getur snúið að því að lesandinn óttast um þá atburði sem á eftir koma eða framundan eru. Hrollur getur komið fram vegna viðbjóðs eða viðurstyggðar á þeim atburðum sem hafa gerst. Þannig eru sumar hrollvekjur afar uggvekjandi og maður nagar neglur af eftirvæntingu um það sem gæti hent aðalpersónur, á meðan aðrar vekja með manni óhug vegna þeirra atburða sem hafa gerst. Dæmi um sögur sem falla í fyrri flokkinn er Ég man þig eftir Yrsu, en margar sagna Clive Barker fjalla í þann seinni. Sögur sem nota hvoru tveggja eru mýmargar, t.d. eftir Stephen King.

Íslenskar hrollvekjur eru ekki margar. Þær hafa flestar komið fram á síðari hluta 20. aldar. Vissulega má finna ákveða gotneska þætti í ýmsum sögum, t.d. í skáldsögu Gunnar Gunnarssonar Sælir eru einfaldir. Drakúla var þýdd lauslega í byrjun 20. aldar, kom þá út undir heitinu Makt myrkanna, en þýðingin var endurútgefin á síðasta ári. Flestar hryllingssögur sem hafa verið gefnar út hérlendis hafa þó verið smásögur, sögur eftir höfunda á borð við Þóri Bergsson, Þórberg Þórðarson og Ástu Sigurðardóttur. Þær hrollvekjur hafa þó verið nokkuð íslenskar, þ.e.a.s. að sótt er í íslenskan raunveruleika í bland við íslenskar þjóðsögur. Þannig fjalla margar þær hryllingssögur sem fram koma á 20. öld um þekkt minni í íslenskum bókmenntum, t.d. drauga.

Á 21. öld fara að koma fram rithöfundar sem opna nokkuð form íslenskra hryllingssagna. Sagan Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson kom út snemma á öldinni og Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur nokkrum árum síðar. Börnin í Húmdölum sækja í brunn Lovecrafts, þar sem óvætturin er framandlegur, ekki af þessum heimi og óskiljanlegur. Í sögu Yrsu er frekar sótt í íslensku hefðina. Hið sama má segja um Hálendi Steinars Braga og margar smásögurnar í safninu Myrkfælni. Eins eru margar sögurnar sem birtust í tímaritinu Furðusögum í ritstjórn Alexanders Dans skrifaðar undir áhrifum frá þessum íslenska skóla, ef svo mætti kalla.

Hrollvekjan er í sókn hérlendis og verður spennandi að sjá hvernig hún þróast á næstu árum. Við munum halda áfram að vinna að því að koma þeim á framfæri, ásamt vísindaskáldsögum og fantasíum.


Fréttir af litlu útgáfunni

Jæja, við erum í óða önn að undirbúa komandi vor. Handritin sem við ætlum að koma í kiljuform eru í prófarkarlestri og verið er að vinna að hönnun á kápum þeirra. Við fengum til liðs við okkur frábæran hönnuð og miðað við það sem hann hefur sýnt okkur hingað til erum við ákáflega spennt að sýna ykkur hvernig bækurnar munu koma til með að líta út. Eitt er þó víst, að þær verða mjög flottar. Hlökkum við til að sjá hvernig viðtökur verða við sögum Lovecrafts á íslensku, en rafbókin Kall Cthulhu er sú rafbók sem oftast hefur verið halað niður hérna hjá okkur. Einnig mun koma hrollvekjandi skáldsaga eftir Þorstein Mar, undirritaðan, sem gerist í Reykjavík 1981.

Að sjálfsögðu stefnum við á gefa út allar okkar bækur sem rafbækur á þessu ári. Við höfum verið að leita leiða til að gera það á sem hagkvæmastan og þægilegastan máta fyrir okkur, en um leið án þess að kosta til miklu. Við erum jú lítið forlag með takmarkað fé og svo hægt sé að tryggja að rafbækur séu á eðlilegu rafbókaverði, ef svo mætti að orði komast, þá höfum við ekki treyst okkur til að notfæra okkur annars ágæta þjónustu þeirra hjá Emma.is og hins vegar rafbókaverslun Eymundssonar. Hins vegar horfir til betri vegar í þeim efnum og reiknum við með að á næstu vikum munum við geta fært ykkur fréttir um hvernig þessu verður háttað hjá okkur. Markmið okkar er að bjóða ekki bara upp á rafbækur í fullri lengd, heldur einnig stakar smásögur, eins og við höfum gert hingað til ókeypis hér á síðunni, en reikna með að við leggjum algjört lágmarksgjald á þessar sögur í framtíðinni, enda viljum við að höfundar fái eitthvað fyrir sinn snúð. Við viljum jú reyna að tryggja að aðstæðurnar séu jákvæðar fyrir alla, win-win situation, ef maður leyfir sér að sletta.

Annars erum við að vinna að tveimur spennandi handritum um þessar mundir, annars vegar fantasíu og hins vegar vísindaskáldsögu, en fyrsti kafli hennar hefur birst hérna sem rafbók og fengið góðar viðtökur. Verður áhugavert að sjá hvernig þessum verkefnum vindur fram.

Að lokum langar okkur til að benda bókaormum á vefinn Goodreads.com. Það er samfélagsvefur sem gengur allur út á lestur bóka og er mjög skemmtilegur. Þó nokkuð er komið inn af íslenskum titlum og má m.a. finna Myrkfælni þar.

 


2011 og 2012

Síðasta ár var viðburðaríkt. Við ákváðum að slá til og stofna útgáfu. Eftir vandlega leit að góðu og lýsandi heiti enduðum við á Rúnatý, sem er gamalt Óðinsheiti. Það merkir sá sem hefur stjórn á rúnunum og okkur fannst vel við hæfi að útgáfan bæri það nafn, enda ágætis lýsing á því sem rithöfundar þurfa m.a. að fást við. Við lögðum grunn að því starfi sem við vildum vinna, skilgreindum hvernig bókmenntir við vildum gefa út fyrst og fremst, ásamt því að hefja vinnu við að koma Myrkfælni á prent.

Við lærðum gríðarlega margt á því ferli, eiginlega miklu meira en við gerðum okkur í grein fyrir í upphafi. Ekkert okkar hafði áður komið að útgáfu bóka og þurftum því að læra allt um leið og hlutirnir gerðust. Sölusamningar voru gerðir við N1, Hagkaup, Nexus og Eymundsson og kom Myrkfælni út síðastliðið vor. Salan gekk ágætlega, bókin stóð undir sér, sem var jú fyrir mestu. Það var ýmislegt sem við hefðum viljað gera betur en lærum af þeim mistökum og gerum vonandi ekki þau hin sömu á þessu ári. Það sem mestu máli skipti var þó, að við vorum trú okkur sjálfum og hikuðum hvergi í að markaðssetja bókina sem genre bókmenntir, nánar tiltekið hrollvekju.

Í haust tókum við síðan upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á ókeypis rafbækur einu sinni í hverju mánuði á hér á síðunni okkar. Þetta teljum við vera frábæra leið til að kynna annars vegar höfunda og ná til fleiri lesenda, og hins vegar að kynna enn frekar fyrir lesendum að genre bókmenntir eru skrifaðar á íslensku og eru margar hverjar býsna frambærilegar. Í það heila hefur rafbókum Rúnatýs verið halað niður hátt í 400 sinnum og vonum við innilega að lesendur okkar njóti þessa framtaks.

Auk þess gengu tveir frábærir einstaklingar til liðs við ritstjórn félagsins, Kjartan Yngvi Björnsson og Unnur Heiða Harðarsdóttir, og hafa þau svo sannarlega komið sterk inn. Litla útgáfan er því að vaxa og mun vonandi dafna enn frekar á þessu ári.

Í vor stefnum við á að gefa út tvær bækur. Annars vegar hrollvekjandi skáldsögu eftir Þorstein Mar. Sagan gerist í Reykjavík á 9. áratuginum og sver sig í ætt við furðusögur, um leið og aðalpersónur þurfa að leysa úr flóknum gátum og ráða forna leyndardóma fer einhver um stræti og fremur hryllileg morð. Hin bókin sem koma mun út í vor er þýðing á nokkrum smásögum H. P. Lovecrafts, en hann er af mörgum talinn einn frumlegasti rithöfundur furðuskáldskaparins. Þeir sem vilja geta ráðið í hver meginsagan verður í þeirri þýðingu með því að skoða myndina sem fylgir þessari færslu.

Auk þess erum við að vinna að fleiri verkefnum, þ. á m. verkefni sem tengist Íslendingasögum, tveimur fantasíum og vísindaskáldsögu. Fyrsti kaflinn úr síðastnefnda verkefninu hefur birst hér í formi rafbókar og fengið góðar viðtökur. Við vonum að eitthvað af þessum verkefnum ljúki á þessu ári svo hægt verði að koma þeim í útgáfu.

Ákveðið hefur verið að allt efni Rúnatýs verði einnig gefið út í rafbókaformi á þessu ári og lögð verður áhersla á, að efnið verði aðgengilegt á öllum rafbókalesurum. Verðlagningu rafbóka verður stillt í hóf og munu rafbækur Rúnatýs ekki bera prentkostnað, dreifingarkostnað eða annan kostnað sem fellur til vegna umsýslu sem tengist prentuðum bókum beint.

Við hlökkum til þess að takast á við ný verkefni á þessu ári og vonumst til að þið eigið eftir að njóta þess sem frá okkur kemur.


Ný rafbók

Nýjasta rafbók okkar inniheldur tvær sögur eftir H. P. Lovecraft. Annars vegar er það sagan Kettirnir í Ulthar, en Lovecraft sjálfur hélt mjög upp á þá sögu. Hún var skrifuð í júní 1920 og fjallar um atburði sem gerast í ímynduðum heimi, í þorpi sem heitir Ulthar. Á þessum tíma var Lovecraft mjög undir áhrifum írska rithöfundarins Lord Dunsanny og telja margir bókmenntafræðingar sig sjá skýr tengsl við sögur hans í skrifum Lovecrafts frá þessum tíma. Segir sagan frá því þegar undarleg vagnalest kemur til þorpsins Ulthar og ástæðu þess að lög gegn kattadrápum voru sett þar.

Seinni sagan heitir Hinir guðirnir og gerist í sama heimi og Kettirnir frá Ulthar. Hún var skrifuð í ágúst 1921 og segir frá Barzai hinum vísa, en hann þráði mjög að berja guðina augum. Hann leggur því í ferðalag og fjallgöngu en hún á eftir að hafa skelfilegar afleiðingar. Í þessari sögu kemur fyrst fyrir fjallið Kadath, en frá því er sagt í sögunni The Dream-Quest for Unknown Kadath. 

Í báðum þessum sögum kemur fyrir sama aukapersónan, Atal, en hann kemur einnig fyrir í síðastnefndu sögunni. Atal þessi er lítill drengur í Kettirnir í Ulthar en er að lærisveinn Barzais í seinni sögunni. Í The Dream-Quest of Unknown Kadath er hann orðinn æðstiprestur, 300 ára gamall og vís eftir því, og leiðbeinir Randolph Carter í leit sinni að guðunum.

Allar þessar sögur gerast, eins og áður segir, í ímynduðum heimi Lovecrafts, hinum svokölluðu Draumlöndum (e. Dreamlands). Hann skrifaði þó nokkrar sögur sem gerast í þessum heimi, t.d. Celephais og The Doom that came to Sarnath, en skv. sumum sögum átti að vera hægt að komast til þessa heims í draumum sínum. Eftir því sem næst verður komist koma Draumlöndin fyrir í 28 sögum eftir Lovecraft, hvort sem vísað er til þeirra eða sögusviðið er þar.

Smelltu hér til að lesa Kettirnir í Ulthar og Hinir guðirnir. 


Kall Cthulhu

Call of Cthulhu eða Kall Cthulhu er smásaga eftir H.P. Lovecraft og kom hún fyrst út árið 1928 í tímaritinu Wierd Tales. Reyndar skrifaði Lovecraft söguna sumarið 1926 og er þetta eina sagan eftir hann þar sem lesa má um óvættina Cthulhu, sem á að hafa komið utan úr geimnum en sofi nú dauðasvefni í borginni R’lyeh, sem hvílir á hafsbotni langt undir öldutoppum Kyrrahafsins. Upphaflega var sögunni hafnað af Wierd Tales en vinur Lovecraft ræddi við ritstjóra blaðsins og lét í veðri vaka að Lovecraft ætlaði að senda söguna í annað tímarit, sem varð til þess að ritstjórinn skipti um skoðun.

Í sögunni er sagt frá Francis Wayland Thurston sem þarf að gera upp dánarbú frænda síns, Angells prófessors, en þar finnur hann nokkra hluti sem koma honum á slóð hryllilegs trúarsafnaðar og óvættarinnar Cthulhu. Frásagnarmátinn er í nokkurs konar skýrslustíl, Francis segir söguna og nálgast frásögn sína á svipaðan hátt og vísindamaður, reynir að segja hlutlægt frá rannsókn sinni og uppgötvunum en, eins og gefur að skilja, leggur vissulega eigið gildismat á þær persónur sem tengjast frásögninni. Frásögnin skiptir í þrjá hluta, Hryllileg leirmynd (e. Horror in the Clay), Frásögn Legrasse rannsóknarlögreglumanns (e. The Tale of Inspector Legrasse) og Martröð á hafi út (e. The Madness from the Sea). Fyrsti hlutinn er frásögn Thurstons af því sem hann hefur lesið úr skýrslu Angells prófessors, sem og segir frá því er hann hittir ungan listamann að nafni Wilcox, en sá bjó til leirmynd sem olli prófessornum miklu hugarangri. Í næstu köflum verður frásögnin marglaga, þ.e. sögð er saga innan sögu. Í fyrsta lagi er það frásögn Legrasse og hins vegar endursögn úr dagbók norsks stýrimanns.

Textinn er mjög Lovecraftískur, ef svo mætti að orði komast. Hann nýtir sér vel ríkan orðaforða sinn og eru myndlýsingar oft á tíðum hlaðnar og huglægar. Setningar eru oft langar og flóknar, eflaust til að draga enn frekar fram vísindalega nálgun aðalpersónunnar. Koma fyrir orð og orðtök sem kalla má forn eða óalgeng, jafnvel á þessum tíma, en eflaust má rekja það til áhuga hans á grískum goðsögum enda ber máls hans þess merki (þess má til gamans geta að afi Lovecraft var duglegur að halda slíku efni að barnabarni sínu og að segja honum furðusögur hvers konar, sem og gotneskar hryllingssögur í óþökk móður hans). Einnig eru vísanir í samtímalistamenn á borð við Clark Asthon Smith, Arthur Machen og jafnvel ýmsar fræðibækur, t.d. The Witch-Cult in Western Europe eftir Margaret A. Murray, en skrif hennar hafa haft áhrif á Wicca trúarbrögðin.

Sjálfur var Lovecraft gagnrýninn á söguna, fannst hún hvorki alslæm né sérstaklega góð. Robert E. Howard, höfundur Conan, tók hins vegar sögunni fagnandi og sagði hana meistaraverk sem ætti eftir að hljóta sess meðal helstu bókmennta. Lítill vafi leikur þó á, að sagan hefur haft gríðarleg mikil áhrif, hvort sem um ræðir bókmenntir eða aðrar þætti menningarinnar. Gerð hafa verið útvarpsleikrit upp úr sögunni, hún hefur verið myndskreytt og gefin út með þeim hætti, einnig var á sínum tíma gerð kvikmynd eftir sögunni. Þungarokkshljómsveitir hafa vitnað óspart í söguna, t.d. Metallica og Cradle of Filth, en sú fyrrnefnda hefur t.d. gert lag sem heitir Call of Ktulu. Einnig hafa verið gerð spunaspil sem byggja m.a. á sögum Lovecraft en bera nafn sögunnar, ásamt því að tölvuleikir hafa verið gerðir með þessu nafni. Áhrifin hafa því verið býsna víðtæk, þá sérstaklega í Bandaríkjunum.

Sagan er vel þess virði að lesa, hafirðu ekki gert það nú þegar. Hið hryllilega í henni er smátt og smátt lætt að lesanda og hann áttar sig á að hið hryllilega er hvorki goðsögulegt (t.d. vampírur eða varúlfar) né persónulegt (t.d. myrkfælni, geðveiki) heldur stjarnfræðileg óvætt sem ógnar öllu mannkyni.

Smelltu hér til að lesa íslenska þýðingu á sögunni.  Einnig er hægt að fá söguna sem rafbók hér á síðunni.