Tag Archives: rafbók

Fréttir af útgáfunni

Vorið er annasamur tími hjá okkur. Við höfum verið á fullu við að koma bókunum okkar á framfæri, auglýsa og önnum kafin við allt það sem tengist slíkri starfsemi. Auk þess hefur okkur verið að berast sífellt fleiri handrit og eru mörg þeirra afar áhugaverð.

Rafbókin sækir í sig veðrið

Það hefur verið mjög gaman að fylgjast með sölunni á rafbókunum okkar. Hún hefur aukist viku frá viku og hefur ekki liðið sú vika, að ekki hafa verið einhverjir titlar frá okkur á metsölulistum Skinnu. Því miður er úrval rafbóka á íslensku fábrotið en við ætlum okkur að breyta því. Sérstaklega er leiðinlegt hversu lítið úrvalið er fyrir notendur Kindle en við vonum að það breytist eftir því sem fram líða stundir.

Gaman er þó að sjá að sífellt fleiri útgáfur eru að vakna fyrir þeim möguleikum sem felast í rafbókinni. Við höfum nýverið tekið að okkur að útbúa og dreifa rafbókum fyrir annað lítið forlag, sem að mestu gefur út bækur fyrir allra yngstu lesendurna og munu þær bjóðast til sölu von bráðar.

Við munum í framtíðinni leggja mesta áherslu á útgáfu rafbóka og reyna þannig að leggja lóð okkar á vogarskálarnar í þeirri byltingu sem rafbókavæðingin er.

Tvær nýjar kiljur

Við gáfum út tvær kiljur nú í vor, annars vegar skáldsöguna Þoku eftir Þorstein Mar og hins vegar Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur eftir H. P. Lovecraft. Hafa þær hlotið ágætar viðtökur og báðar ratað inn á metsölulista sem rafbækur. Hægt er að kaupa þær í öllum betri bókaverslunum, t.d. Bókabúð Máls og menningar, Iðu og Eymundsson. Hins vegar hefur aðeins lítillega verið fjallað um hvorn titil í fjölmiðlum, helst hafa vinir okkar í Nörd Norðursins verið duglegir að segja frá bókunum, en þetta veldur okkur nokkrum áhyggjum. Hvað stýrir því um hvaða titla fjölmiðlar fjalla? Við höfum sent eintök á nær flesta þeirra, þ.a. þá sem hafa svarað og óskað eftir eintökum en ákveðnir fjölmiðlar hafa hunsað algjörlega tölvupósta frá okkur og jafnvel margsenda slíka.

Fullt af flottum handritum

Við erum á fullu þessa dagana að lesa yfir handrit og þau ekki af verri gerðinni. Nokkur hafa verið tekin inn í ritstjórnarferli, þ. á m. fantasía, vísindaskáldsaga, steam-punk saga og hrollvekja. Við hlökkum mikið til að koma þessum handritum í rafbókaform og vonandi prentað form í framhaldi af því. Stefna er sett á að fyrstu handritin séu klár á komandi ári, næsta vor ætti því að verða mjög áhugavert fyrir þá sem njóta furðusagna. Allt eru það handrit frá ungum og efnilegum höfundum sem við teljum vera með sögur sem eiga fyllilega erindi við lesendur.

Sumarið er frábær tími til að lesa bækur og hvetjum við því alla til að grípa aðra hvora kiljuna frá okkur eða skoða úrval titla frá Rúnatý á vef Skinna.is. Við vonum að þið eigið gott bókasumar.

Advertisements

Ný rafbók – Svartárkot

Í dag kemur út ný rafbók á vegum Rúnatýs. Hana má finna, eins og allar rafbækur útgáfunnar, hér á síðunni. Sagan sem um ræðir er hrollvekja og gerist um miðbik síðustu aldar á norðurlandi. Segir þar maður sögu sína, en hann hefur verið dæmdur fyrir að myrða á hrottafengin hátt dætur sínar tvær. Þó er meira sem liggur að baki sögu hans og ljóst að ekki er allt sem sýnist.

Annars er það að frétta af útgáfunni að handrit eru nú í prófarkarlestri sem og verið er að vinna við hönnun á kápum. Við hlökkum mikið til að sýna ykkur afraksturinn og munum eflaust leyfa ykkur að sjá kápurnar áður en þær fara í prentun, svona upp á að heyra hvað ykkur finnst. Auk þess erum við á fullu við að leita að góðum lausnum, svo við getum einnig selt nýju titlana sem og Myrkfælni sem rafbækur. Við erum, eins og einhverjir hafa eflaust gert sér grein fyrir, mjög spennt fyrir rafbókamarkaðinum en erfiðlega gengur að finna leiðir sem henta okkar litlu útgáfu.

Markmið okkar með rafbókaútgáfu er í senn að gera flott íslenskt genre efni aðgengilegt á rafbókaformi og eins að það sé á ásættanlegu verði.


Af komandi misserum

Á þessu ári gaf útgáfan Rúnatýr út sínu fyrsta bók, smásagnasafnið Myrkfælni. Þar sem útgáfan var ung, að mestu einyrkjastarfsemi, þá var reynt að stilla öllum kostnaði í hóf til að að tryggja að útgáfan stæði undir sér. Það ferli var afar lærdómsríkt og voru gerð fjölmörg mistök sem vonandi má læra af. Bókin fékk ágæta dóma, þrjár stjörnur að jafnaði. Var ýmislegt gagnrýnt, öðru hrósað og í heild voru bókadómar jákvæðari en neikvæðari. Markaðssetningu var reynt að sinna, einnig eftir ódýrum leiðum og lögðu margir þar hönd á plóg sem við erum afar þakklát fyrir.

Í sumar fjölgaði í ritstjórnarhópnum. Kjartan Yngvi Björnsson, meistaranemi í bókmenntafræði og ritlist, bættist í hópinn. Hið sama gerði Unnur Heiða Harðardóttir, meistaranemi í útgáfu- og ritstjórnarfræðum. Á fyrsta fundi hópsins var ákveðið að viðhalda þeirri stefnu að gefa út genre-bókmenntir, leggja áherslu á góðar og vandaðar hrollvekjur, fantasíur og vísindaskáldsögur. Var mikið rætt um mikilvægi góðrar ritstjórnar og lögð drög að því, að leggja sérstaklega mikla áherslu á slíka vinnu, gott samband rithöfundar og ritstjóra og reyna að tryggja að sem þeir sem væri efnilegir fengu stuðning, góð ráð og hvatningu til áframhaldandi skrifa. Ætlun ritstjórnarhópsins var, að Rúnatýr myndi marka sig sem útgáfa góðra bóka í þessum bókmenntageirum.

Útgáfan hefur einnig gefið út nokkrar styttri rafbækur. Útgáfan þeirra er með öllu einfaldari og ódýrari en prentaðra bóka, en þó var ætlunin að reyna viðhalda þeirri ritstjórnarstefnu sem ákveðin hafði verið. Við gefum út eina rafbók í mánuði, gildi einu hvort um þýðingu eða frumsamdan texta er að ræða. Lögð er sérstök áhersla á að bækurnar innihaldi sögur sem flokka megi sem hryllingssögu, fantasíu eða vísindaskáldskap og var ætlunin að þessar ókeypis bækur myndu ýta undir lestur slíkra bókmennta en um leið kynna nýja og spennandi höfunda eða klassíska fyrir lesendum.

Í dag er útgáfan að vinna að nokkrum verkum; hrollvekjur, fantasíur, vísindaskáldsaga, smásögur, skáldsögur, þýðingar; og er von okkar að eitthvað af því efni verði klárt fyrir komandi vor. Þar sem við erum lítið útgáfufélag er erfitt fyrir okkur að keppa í markaðssetningu við stóru forlögin, þar sem markaðsfé okkar eru aðeins lítið brot af þeirra, þá viljum við frekar forðast jólabókaflóðið. Einnig treystum við á, að þeir sem á annað borð lesa þess háttar bókmenntir leiti sér þær frekar sjálfir uppi, en að treysta á að fá þær í jólagjöf frá vinum og ættingjum.

Einnig mun tilkoma rafbókaverslana hjálpa okkur enn frekar við dreifingu á góðu efni. Okkur langar að nýta þetta tækifæri og óska emma.is hjartanlega til hamingju og góðs gengis. Rafbókavæðing íslenska bókamarkaðarins mun án nokkurs vafa hjálpa forlögum sem Rúnatý og verður spennandi að fylgjast með hvernig sá markaður þróast á næstu árum.


Ný rafbók

Nýverið settum við nýja rafbók á vefinn okkar. Þar eru á ferðinni tvær smásögur eftir þá Jóhann Þórsson og Kjartan Yngva Björnsson, báðar stórgóðar.

Fyrri sagan, Epli Iðunnar, er urban fantasía, þar sem goðafræði rennur saman við nútímalegar aðstæður. Sagan segir frá tveimur rannsakendum á vegum Fimbulversla, sem er sérstök stofnun og sér um að rannsaka það sem myndi flokkast sem yfirnáttúruleg fyrirbæri. Ekki er allt sem sýnist og kemur endirinn á óvart. Sagan er spennandi allt frá upphafi til enda og er sögusviðið einnig skemmtilegt. Jóhann er 33 ára gamall, faðir búsettur í Kópavogi en hefur í gegnum tíðina búið víðsvegar um heiminn. Hann skrifar smásögur bæði á ensku og íslensku og hafa nokkrar þeirra birst í blöðum hérlendis. Einnig hefur hann fengið birtar sögur á erlendum vefsíðum, t.d. á everydayfiction.com .

Seinni sagan, Hylur, er öllu óhugnanlegri. Segir þar frá manni sem þarf að kljást við fortíð sína. Í senn er sagan draumkennd og hrollvekjandi, er óhætt að segja að manni renni kalt vatn milli skinns og hörunds við lestur hennar. Kjartan er 27 ára meistaranemi í bókmenntafræði.

Góða skemmtun!

Smelltu hér til að skoða rafbækur Rúnatýs. 


Bókaþjóðin mikla

Við Íslendingar teljum okkur trú um að við séum mikil bókaþjóð, enda blundar rithöfundur í að minnsta kosti hálfri þjóðinni. Svona meira eða minna. Hins vegar kemst ég ekki hjá því stundum að hugsa um hversu mikið þessi ágæta þjóð les í raun og veru, og þá sérstaklega þær kynslóðir sem eru að vaxa nú úr grasi. Auðvitað eru einhverjar bókmenntir, valdar af kostgæfni sem aðeins gæðir bókmennta- og íslenskufræðinga, lesnar í grunn- og menntaskólum, en bók sem þú lest af skyldurækni, er hún jafn ítarlega lesin og bók sem þú velur þér sjálfur eða þér einfaldlega finnst þú þurfa að lesa? Er kannski formið, þ.e. prentuð bók, að deyja og mun nýtt form rafbóka og netbóka taka yfir?

Ég hef nefnilega á tilfinningunni að lestur bóka fari minnkandi, hef reyndar ekkert fyrir mér í þeim efnum, engar sölutölur eða þannig (enda er vart hægt að segja að seld bók sé lesin bók). Ástæðan fyrir þessari upplifun, tilgátu eða hvað menn vilja kalla það, er tvíþætt. Annars vegar er sú hneigð fjölmiðla að matreiða hlutina sífellt einfaldar og knappar, helst þannig að hægt sé að segja fréttir í 140 stafabilum (sem mér skilst að sé meðal SMS lengd og passar á twitter) og hins vegar sú, eftir að hafa starfað sem kennari í grunnskóla í nokkur ár, þá sýnist mér tilfinning fólks fyrir texta fara versnandi. Og það sem verra er, ekki bara ungs fólks, heldur líka þeirra sem eldri eru (ég undanskil ekki sjálfan mig).

Ef við byrjum á fyrra atriðinu, þessari SMS hneigð, þá hafa samfélagsmiðlarnir fært okkur margt ágætt, en þar hafa líka orðið ákveðin vatnaskil er varða samskipti fólks. Nær allir af þessum nýju miðlum; SMS, Facebook, Twitter, osfrv.; eru með staðlaða lengd á skilaboðum, t.d. stöðuuppfærslum. Fyrir fólk sem er ekki endilega að skrifa mikið meira á hverjum degi, en þá texta sem það lætur inn á slíka vefi eða í smáskilaboð, þá mótast mjög hugsunin og tilfinningin fyrir texta af því. Sér í lagi, ef það er einnig þeir nær einu textarnir sem lesnir eru. Þetta er farið að birtast manni í ýmsum myndum, t.d. eru leiðbeiningar orðnar mjög knappar oft á tíðum. Sem dæmi mætti nefna leiðbeiningar með spilinu Alias, þar er sérstaklega haft fyrir því að setja fram leiðbeiningarnar í styttri útgáfu og mér sýnist að þær myndu passa nokkurn veginn inn í Facebook status, eins undarlega og það hljómar. Ef framleiðendur þessa spils hefðu gengið út frá því, að tilvonandi leikmenn myndu lesa reglurnar, þá væri engin þörf á þessari styttu útgáfu af reglunum. Þess má til gamans geta, að reglurnar, sem eru mjög einfaldar, rúmast á hálfri annarri A4 blaðsíðu. Hið sama gildir um leiðbeiningar með hugbúnaði, t.d. bandarískum hugbúnaði, og maður finnur á netinu. Textinn er knappur og mjög einfaldur. Það er sem sagt í raun verið að venja málnotendur á þess háttar texta.

Þá er það seinna atriðið (hér kemur stutt heimur-versnandi-fer raus). Tilfinning okkar fyrir málinu fer versnandi. Ég held að flestir geti verið sammála um, að kröfurnar um hraðan fréttaflutning, sífelldar uppfærslur og meira krassandi fréttaefni í upphrópanastíl geri það að verkum, að þeir sem skrifa inn á vefi og í tímarit gæta oft ekki að því, að það sem þeir skrifa sé málfræðilega rétt. Og þetta á ekkert bara við um fréttavefi eða tímarit. Þó margt megi segja ágætt um marga þá vefi er prófarkarlestri þar tilfinnanlega ábótavant. Orðatiltæki, málshættir og blæbrigði málsins eru einhvern veginn að hverfa ofan í pitt meðalmennsku og ég hef áhyggjur af því, ef fram heldur sem horfir muni vaxa upp kynslóðir Íslendinga sem hafa orðaforða upp á kannski 3000-4000 orð. Til dæmi hefur nokkuð verið rætt um á undanförnum misserum um það, hvort viðtengingarháttur sé að hverfa úr málinu. Hvernig ætlar kynslóð sem ekki hefur tök á viðtengingarhætti að lesa bókmenntir frá okkar tímum eða eldri?

Og hvað verður þá um bókaþjóðina miklu? Munu einstaklingar sem hafa afar fábreyttan orðaforða nenna að lesa bækur þar sem þeir skilja ekki þriðja hvert orð? Bækur þar sem þeim líður eins og þeir séu að lesa annað tungumál? Mig grunar nefnilega, að það sé upplifun margra unglinga í dag er þeir lesa Íslendingasögurnar, þrátt fyrir að orðaforði þeirra sagna sé frekar takmarkaður. Ég get ekki séð hvernig það sé jákvætt. Auðvitað þarf tungumálið að fá að þróast, auðvitað þarf það að fá að dafna og vaxa eftir því sem samfélagið breytist, en ég fæ ekki séð hvernig það getur verið góð þróun þegar við erum hætt að geta lesið bækur sökum skilningsleysis og skorts á orðaforða. Það hlýtur þá að hafa í för með sér að annað hvort verða bækur skrifaðar með þetta litlum orðaforða eða að ör- og smásögur verði ríkjandi form sagnalistarinnar.

Ég er kannski bara forn í hugsun eða svona gamaldags, en ég vil vernda íslensku. Mér finnst ég verða of oft var við áhrif frá ensku, jafnvel þó að verið sé að reyna halda sig við okkar ylhýra, þá skín ensk hugsun, jafnvel ensk máltæki, í gegn. Um daginn var ég að ræða við mann sem hafði verið að gelta upp í rangt tré. Í starfi mínu fæ ég alltof oft að sjá afleitar þýðingar á enskum slagorðum og sannast sagna, hryggir það mig að sjá hversu lítil tilfinning virðist sitja eftir hjá okkur fyrir tungumálinu okkar. Af þessum sökum hef ég áhyggjur, ég held að þetta sé ekki góð þróun. Mér finnst, að við ættum að gefa gaum að þeim breytingum sem eru að verða á tungumálinu og ef fram heldur sem horfir, þá munu barnabörn okkar hafa yfir mun fábreyttari orðaforða að skipa.

Ég held að til að tryggja að bækur séu enn lesnar þá þurfi útgefendur að fara hugsa á nýjan hátt. Ekki gengur lengur að einblína á hið prentaða form bókmennta, enda hefur komið á daginn að notkun og framleiðsla á hljóðbókum fer vaxandi. Eins fer þeim sífellt fjölgandi sem lesa rafbækur, enda er tilkoma spjaldtölva og snjallsíma upplagt tækifæri fyrir bókaútgefendur að ná til yngri markhópa. Hins vegar hefur eitthvað minna verið að gerast í þeim efnum, sem bæði má rekja til þess að Alþingi er nýbúið að samþykkja breytingar á lögum um skattlagningu rafbóka en eins skilst mér að ekki hafi legið fyrir samkomulag milli rithöfunda og forlaga um skiptingu tekna (endilega leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál).

Hugsanlega þarf að endurhugsa þetta allt frá grunni. Eftir því sem spjaldtölvum fer fjölgandi, þær verða ódýrari þá er í raun ekkert því til fyrirstöðu að við förum að sjá þær kröfur koma frá grunn- og framhaldsskólum að nemendur hafi aðgang að slíkum tækjum. Og af hverju ekki? Það er umhverfisvænna og ódýrara þegar á heildina er litið að beina nemendum í þá átt. Rafbækur eru að mínu mati framtíðin og hún er komin erlendis. Hvenær tökum við þátt í henni?


Ný rafbók

Nýjasta rafbók okkar inniheldur tvær sögur eftir H. P. Lovecraft. Annars vegar er það sagan Kettirnir í Ulthar, en Lovecraft sjálfur hélt mjög upp á þá sögu. Hún var skrifuð í júní 1920 og fjallar um atburði sem gerast í ímynduðum heimi, í þorpi sem heitir Ulthar. Á þessum tíma var Lovecraft mjög undir áhrifum írska rithöfundarins Lord Dunsanny og telja margir bókmenntafræðingar sig sjá skýr tengsl við sögur hans í skrifum Lovecrafts frá þessum tíma. Segir sagan frá því þegar undarleg vagnalest kemur til þorpsins Ulthar og ástæðu þess að lög gegn kattadrápum voru sett þar.

Seinni sagan heitir Hinir guðirnir og gerist í sama heimi og Kettirnir frá Ulthar. Hún var skrifuð í ágúst 1921 og segir frá Barzai hinum vísa, en hann þráði mjög að berja guðina augum. Hann leggur því í ferðalag og fjallgöngu en hún á eftir að hafa skelfilegar afleiðingar. Í þessari sögu kemur fyrst fyrir fjallið Kadath, en frá því er sagt í sögunni The Dream-Quest for Unknown Kadath. 

Í báðum þessum sögum kemur fyrir sama aukapersónan, Atal, en hann kemur einnig fyrir í síðastnefndu sögunni. Atal þessi er lítill drengur í Kettirnir í Ulthar en er að lærisveinn Barzais í seinni sögunni. Í The Dream-Quest of Unknown Kadath er hann orðinn æðstiprestur, 300 ára gamall og vís eftir því, og leiðbeinir Randolph Carter í leit sinni að guðunum.

Allar þessar sögur gerast, eins og áður segir, í ímynduðum heimi Lovecrafts, hinum svokölluðu Draumlöndum (e. Dreamlands). Hann skrifaði þó nokkrar sögur sem gerast í þessum heimi, t.d. Celephais og The Doom that came to Sarnath, en skv. sumum sögum átti að vera hægt að komast til þessa heims í draumum sínum. Eftir því sem næst verður komist koma Draumlöndin fyrir í 28 sögum eftir Lovecraft, hvort sem vísað er til þeirra eða sögusviðið er þar.

Smelltu hér til að lesa Kettirnir í Ulthar og Hinir guðirnir.