Tag Archives: rúnatýr

Notendur eða útgefendur?

Í gær fór fram ansi áhugaverð umræða á Facebooksíðu Rafbókavefsins um streymislausn Rafbókalagersins. Í stuttu máli gengur hugmyndin út á að notendur geti skráð sig inn á heimasíðu og keypt sér aðgang að bókum, sem þeir lesa síðan í vafra. Þessi lausn hentar vel þeim sem eru með spjaldtölvur, snjallsíma eða finnst gott að lesa af skjám borðtölva. Hugmyndin reiðir sig á að notandi sé nettengdur en þó gaf Egill, framkvæmdastjóri Forlagsins, því undir fótinn að verið væri að vinna að lausn sem vistar hluta efnisins í minni vafrans, þannig að þörfin á nettengingu væri ekki alger. Þessi hugmynd er um margt góð og ber að hrósa Forlaginu fyrir framtakssemina og áhugann sem þeir sýna rafbókum. Sá galli er þó á gjöf Njarðar, að þessi lausn hentar ekki fyrir notendur Kindle Wifi og eldri gerða Kindle, sem og að notendur eiga þannig séð ekki bækurnar og geta ekki skipst á bókum. Vonandi verður þó hægt að finna lausn á því.

Nokkuð margir notendur höfðu áhyggjur af nálgun forsvarsmanna Forlagsins og Rafbókalagersins að Kindle lesbrettinu og notendum þess. Var nokkuð rætt um hvers vegna Rafbókalagerinn styður ekki mobi skráarsniðið, þar sem margar rafbókaverslanir hérlendis gera það (emma.is, skinna.is og rafbokavefur.is). Því var svarað með því að ekki væri hægt að afritunarverja slíkar rafbækur, nema með félagslegri afritunarvörn, eins og Marínó, forsvarsmaður Rafbókalagersins komst að orði. Vildi hann meina að útgefendur treystu ekki slíkri afritunarvörn.Við getum ekki svarað fyrir aðrar útgáfur en okkar eigin, en við teljum að mikilvægast að notendur séu sáttir og eigi auðvelt með að nálgast rafbókina á þeim lesbrettum sem þeir kjósa að nota.

Við hjá Rúnatý lítum svo á, að afritunarvörn sé fyrst og fremst hugsuð fyrir útgefendur, svo við sofum betur á næturnar, þannig skapa þær ákveðna öryggiskennd hjá okkur. Ef við skoðum þær afritunarvarnir sem notaðar eru hérlendis þá eru þær eftirfarandi:

  • Rafbókavefur.is  notast ekki við afritunarvörn.
  • Emma.is notast ekki við afritunarvörn, treystir viðskiptavinum sínum fyrir því að dreifa ekki verkum ólöglega.
  • Skinna.is notast við félagslega afritunarvörn, þ.e. hver rafbók er merkt kaupanda sínum og viðkomandi er treyst fyrir því að dreifa ekki verkunum ólöglega. Einnig notast Skinna.is við þá afritunarvörn sem fylgir rafbókum af vef Rafbókalagersins, Adobe DRM, og þurfa notendur að hafa aðgang að Adobe ID.
  • Ebækur.is notast við sömu afritunarvörn og Rafbókalagerinn.
  • Eymundsson.is notast við sömu afritunarvörn og Rafbókalagerinn.
  • Forlagid.is notast við sömu afritunarvörn og Rafbókalagerinn.

Adobe DRM kallar á að settur sé upp sérstakur vefþjónn, sem kostar nokkur þúsund dollara auk árlegs gjalds, sem er um fjórðungur af upphaflegum kostnaði. Fyrir hvert niðurhal þarf síðan útgefandi að greiða nokkur sent. Við höfum ekki fengið reikning vegna félagslegrar afritunarvarnar Skinna.is en reiknum með að sá kostnaður sé hluti af álagningu þeirra. Eðli málsins samkvæmt kostar engin afritunarvörn Emma.is ekkert. Hjá Skinna.is er óverulegt skráningargjald, en ekkert hjá Emma.is, hins vegar munar lítillega á álagningu þessara aðila og þar er Skinna.is lægri. Hvað varðar skráningargjöld og kostnað hjá Rafbókalagernum, þá erum við ekki í viðskiptum við þá, þannig við getum ekki fjölyrt um þann kostnað. Hugsanlega getur einhver frætt okkur um það?

Félagslega afritunarvörnin er vatnsmerki. Hver sá sem kann að slá inn leitarorð í leitarvélar og hefur grunnþekkingu á tölvum og uppsetningu hugbúnaðar á þær (sem sagt, getur smellt á Accept o.s.frv.) getur auðveldlega fjarlægt nokkurn veginn hvaða afritunarvörn sem er. Það gildir um Adobe DRM, auðvelt er að finna hugbúnað sem fjarlægir afritunarvörnina, og á við um allar afritunarvarnir, líka þær sem eru á skjölum frá Amazon. Gallinn við afritunarvarnir er nefnilega sá, að fyrir suma virka þær bara eins og krefjandi heimaverkefni í skóla, þeim finnst þeir þurfa að dírka upp lásinn og búa til hugbúnað sem getur gert það. Sumar afritunarvarnir miðast auk þess við að þú notir ákveðinn hugbúnað til að lesa viðkomandi skjal, t.d. er ekki hægt að opna bækur varðar með Adobe ID í Kindle og iBooks. Bækur varðar með Amazon afritunarvörninni er bara hægt að opna í Kindle og svo mætti áfram lengi telja. Þannig eru notendur skikkaðir til að nota ákveðinn hugbúnað umfram að þeir kjósi sjálfir hvaða tæki eða hugbúnað þeir noti. Afritunarvörnin skapar hugsanlega þannig óþægindi hjá notendum.

Ef afritunarvarnir er hægt að fjarlægja með auðveldum hætti, hvað geta þá útgefendur gert? Í raun ósköp lítið. Þegar við setjum nýja bók á markað þá treystum við því að hún sé ekki ljósrituð og henni dreift þannig til fólks. Setjum jafnvel yfirlýsingu um að slíkt sé bannað nema með leyfi höfundar eða útgefanda á fyrstu síðurnar. Að öðru leyti treystum við lesendum. Við getum ekki fylgst með öllum sem kaupa bækurnar okkar, getum ekki séð til þess síður bóka séu ekki ljósritaðar. Hins vegar, líklega vegna þeirrar umræðu sem hefur verið um ólöglega dreifingu hugverka, vilja margar útgáfur, skiljanlega, koma í veg fyrir ólöglega dreifingu á rafbókum þeirra. Ef allt fer á versta veg, þá getur ólögleg dreifing kostað útgáfur umtalsverða fjármuni og því er ekkert óeðlilegt við að þær leiði hugann að og hafi áhyggjur af þessu vandamáli.

Við hjá Rúnatý erum í sömu sporum og margar útgáfur hvað þetta varðar. Við höfum þó reynt að gera okkar besta til að treysta notendum. Við teljum Íslendinga upp til hópa heiðarlega og trúum því að unnendur íslenskra bókmennta vilji efla veg þeirra, að höfundar fái greitt fyrir vinnu sína og að íslenskar útgáfur hafi starfsgrundvöll. Við höfum engu að síður áhyggjur af því að titlunum frá okkur sé dreift ólöglega, en vonum að gott verð og auðvelt aðgengi sporni gegn því.

Íslenskar útgáfur nálgast þetta vandamál hver með sínum hætti. Sum forlög selja bæði bækur með og án afritunarvarna, önnur bara án afritunarvarna og enn önnur aðeins með afritunarvörnum. Aðeins íslenskir notendur geta dæmt til um hvað hentar þeim best, við í útgáfugeiranum getum skipst á skoðunum út í hið óendanlega án þess að komast að niðurstöðu. Þannig er reynsla okkar hjá Rúnatý sú, að ef við værum með stífar afritunarvarnir, þá hefðum við líklega misst af um helming allrar sölu á rafbókum okkar. Eins og gefur að skilja, þá viljum við ekki fórna því, enda lítið forlag og hvert selt eintak skiptir okkur máli. Hvað finnst þér skipta máli? Hvernig telur þú að hægt sé að tryggja bæði útgefendur og notendur séu sáttir?

Advertisements

Grein í Morgunblaðinu svarað

Við hjá Rúnatý ákváðum að svara blaðamanni vegna greinar um rafbækur, sem birt var á mbl.is um helgina. Þar var m.a. gefið í skyn að allar íslenskar rafbækur séu aðeins fáanlegar á epub-sniði. Við viljum benda á að það er ekki rétt og um sé að ræða pólitíska ákvörðun hvers forlags fyrir sig, hvort gefið sé út efni fyrir Kindle notendur eða ekki.

Komdu sæl, Anna Lilja.

Það var áhugavert að lesa grein þína um rafbækur nú um helgina á mbl.is. Mikið hefur nú þegar verið skrifað um þetta áhugaverða málefni og sýnist sitt hverjum, sérstaklega þegar kemur að verðlagningu þeirra annars vegar og hins vegar ólíka nálgun forlaga á aðgengi notenda að rafbókum.

Eins og þú bendir á í greininni eru nokkrar íslenskar rafbókaverslanir sem selja íslenska titla. Það sem kemur hins vegar ekki fram í grein þinni er að fjölmargar útgáfur gefa nú þegar út fyrir Kindle lesbrettið, við í Rúnatý á meðal þeirra. Við höfum gefið út rafbækur frá því seint á síðasta ári, í fyrstu gáfum við út smásögur í rafbókaformi á heimasíðu okkar en með tilkomu emma.is og skinna.is hafa allar okkar bækur verið fáanlegar í rafbókaformi, bæði epub og mobi (skráarsnið sem Kindle les). Við erum langt frá því eina forlagið sem gerir svo, einnig Bókabeitan, Ugla, Urður bókafélag, Vestfirska forlagið, Salka, Sögur útgáfa og svo mætti lengi telja (þetta er auðvelt að sjá með því að skoða úrval rafbóka á skinna.is og emma.is).

Amazon bannar engum að gefa út fyrir Kindle lesbrettið. Hægt er að nálgast rafbækur fyrir Kindle t.d. á vef Gutenberg project, Gutenberg.org. Hins vegar hefur Amazon gefið það út að þeir hafi ekki áhuga á að taka örmarkaði inn í sína eigin vefverslun, á borð við íslenska markaðinn. Þó er íslenskum forlögum og bókaútgáfum ekkert til vanbúnaðar að gefa út bækur fyrir Kindle og selja í íslenskum rafbókaverslunum, rétt eins við minni forlögin gerum. Ef verið er að leita eftir afritunarvörn þá býður Skinna.is upp á ákveðna lausn í þeim málum. Þetta er því í raun lítið annað en geðþótta ákvörðun hvers forlags fyrir sig og mikilvægt að neytendur viti það.

Ég hvet þig eindregið til að halda áfram umfjöllun þinni um rafbækur og rafbókavæðinguna. Það er heilmargt í henni sem er afar áhugavert og þarfnast rýni fjölmiðla við.

Fyrir hönd Rúnatýs útgáfu,
Þorsteinn Mar


Ný rafbók – Svartárkot

Í dag kemur út ný rafbók á vegum Rúnatýs. Hana má finna, eins og allar rafbækur útgáfunnar, hér á síðunni. Sagan sem um ræðir er hrollvekja og gerist um miðbik síðustu aldar á norðurlandi. Segir þar maður sögu sína, en hann hefur verið dæmdur fyrir að myrða á hrottafengin hátt dætur sínar tvær. Þó er meira sem liggur að baki sögu hans og ljóst að ekki er allt sem sýnist.

Annars er það að frétta af útgáfunni að handrit eru nú í prófarkarlestri sem og verið er að vinna við hönnun á kápum. Við hlökkum mikið til að sýna ykkur afraksturinn og munum eflaust leyfa ykkur að sjá kápurnar áður en þær fara í prentun, svona upp á að heyra hvað ykkur finnst. Auk þess erum við á fullu við að leita að góðum lausnum, svo við getum einnig selt nýju titlana sem og Myrkfælni sem rafbækur. Við erum, eins og einhverjir hafa eflaust gert sér grein fyrir, mjög spennt fyrir rafbókamarkaðinum en erfiðlega gengur að finna leiðir sem henta okkar litlu útgáfu.

Markmið okkar með rafbókaútgáfu er í senn að gera flott íslenskt genre efni aðgengilegt á rafbókaformi og eins að það sé á ásættanlegu verði.


2011 og 2012

Síðasta ár var viðburðaríkt. Við ákváðum að slá til og stofna útgáfu. Eftir vandlega leit að góðu og lýsandi heiti enduðum við á Rúnatý, sem er gamalt Óðinsheiti. Það merkir sá sem hefur stjórn á rúnunum og okkur fannst vel við hæfi að útgáfan bæri það nafn, enda ágætis lýsing á því sem rithöfundar þurfa m.a. að fást við. Við lögðum grunn að því starfi sem við vildum vinna, skilgreindum hvernig bókmenntir við vildum gefa út fyrst og fremst, ásamt því að hefja vinnu við að koma Myrkfælni á prent.

Við lærðum gríðarlega margt á því ferli, eiginlega miklu meira en við gerðum okkur í grein fyrir í upphafi. Ekkert okkar hafði áður komið að útgáfu bóka og þurftum því að læra allt um leið og hlutirnir gerðust. Sölusamningar voru gerðir við N1, Hagkaup, Nexus og Eymundsson og kom Myrkfælni út síðastliðið vor. Salan gekk ágætlega, bókin stóð undir sér, sem var jú fyrir mestu. Það var ýmislegt sem við hefðum viljað gera betur en lærum af þeim mistökum og gerum vonandi ekki þau hin sömu á þessu ári. Það sem mestu máli skipti var þó, að við vorum trú okkur sjálfum og hikuðum hvergi í að markaðssetja bókina sem genre bókmenntir, nánar tiltekið hrollvekju.

Í haust tókum við síðan upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á ókeypis rafbækur einu sinni í hverju mánuði á hér á síðunni okkar. Þetta teljum við vera frábæra leið til að kynna annars vegar höfunda og ná til fleiri lesenda, og hins vegar að kynna enn frekar fyrir lesendum að genre bókmenntir eru skrifaðar á íslensku og eru margar hverjar býsna frambærilegar. Í það heila hefur rafbókum Rúnatýs verið halað niður hátt í 400 sinnum og vonum við innilega að lesendur okkar njóti þessa framtaks.

Auk þess gengu tveir frábærir einstaklingar til liðs við ritstjórn félagsins, Kjartan Yngvi Björnsson og Unnur Heiða Harðarsdóttir, og hafa þau svo sannarlega komið sterk inn. Litla útgáfan er því að vaxa og mun vonandi dafna enn frekar á þessu ári.

Í vor stefnum við á að gefa út tvær bækur. Annars vegar hrollvekjandi skáldsögu eftir Þorstein Mar. Sagan gerist í Reykjavík á 9. áratuginum og sver sig í ætt við furðusögur, um leið og aðalpersónur þurfa að leysa úr flóknum gátum og ráða forna leyndardóma fer einhver um stræti og fremur hryllileg morð. Hin bókin sem koma mun út í vor er þýðing á nokkrum smásögum H. P. Lovecrafts, en hann er af mörgum talinn einn frumlegasti rithöfundur furðuskáldskaparins. Þeir sem vilja geta ráðið í hver meginsagan verður í þeirri þýðingu með því að skoða myndina sem fylgir þessari færslu.

Auk þess erum við að vinna að fleiri verkefnum, þ. á m. verkefni sem tengist Íslendingasögum, tveimur fantasíum og vísindaskáldsögu. Fyrsti kaflinn úr síðastnefnda verkefninu hefur birst hér í formi rafbókar og fengið góðar viðtökur. Við vonum að eitthvað af þessum verkefnum ljúki á þessu ári svo hægt verði að koma þeim í útgáfu.

Ákveðið hefur verið að allt efni Rúnatýs verði einnig gefið út í rafbókaformi á þessu ári og lögð verður áhersla á, að efnið verði aðgengilegt á öllum rafbókalesurum. Verðlagningu rafbóka verður stillt í hóf og munu rafbækur Rúnatýs ekki bera prentkostnað, dreifingarkostnað eða annan kostnað sem fellur til vegna umsýslu sem tengist prentuðum bókum beint.

Við hlökkum til þess að takast á við ný verkefni á þessu ári og vonumst til að þið eigið eftir að njóta þess sem frá okkur kemur.