Tag Archives: Skáldskapur

Skáldskapur er aldrei pólitískt réttur

Þegar fyrstu skáldsögurnar komu út voru það fyrst og fremst afbakanir og satýrur á riddarasögur fyrri alda. Cervantes skrifaði t.d. Don Kíkóta í þeim anda. Skáldsögur hafa síðan þá þróast og dafnað, en þetta einkenni sem rekja má til upphafs skáldsagna má enn finna í nútímaskáldsögum, þó svo kannski ekki á sama hátt og í sögu Cervantes.

Þó vissulega megi finna skáldsögur sem afbaka skáldskap fyrri tíma, sögur á borð við Gerplu eftir Halldór Kiljan Laxness, þá birtist þessi afbökun á annan hátt í nútímanum og hugsanlega má rekja hluta þess til raunsæisstefnunnar. Þeir rithöfundar sem einna helst skrifuðu undir merkjum hennar litu margir hverjir á sig sem nokkurs konar lækna samfélagsins, þ.e. þeir bentu á þau mein sem þar er að finna. Margir höfundar skrifa í dag með þetta í huga, t.d. mætti lesa skandinavísku spennusögurnar út frá samfélagsrýni þeirra. Þannig getur skáldskapur opnað augu lesenda fyrir misrétti, hinu óréttláta og því sem er ekki í lagi, hvort sem um samskipti manna, viðmið samfélags eða hvaða annað er að ræða.

Oft hefur verið reynt að setja skáldskapnum skorður, oftar en ekki fyrir þær sakir sem hér að ofan eru nefndar. Yfirvöld, gagnrýnendur og allir þeir sem láta sig mál varða líkar oft ekki við hversu hreinskilinn og gagnrýninn skáldskapur getur verið. Þannig voru ákveðnir rithöfundar fangelsaðir í Sovétríkjunum á sínum tíma. Málið er bara, að skáldskapur er aldrei pólitískt réttur og má aldrei verða það. Alvöru rithöfundar láta ekki yfirvöld eða aðra þá sem gagnrýna þá halda aftur af sér, heldur halda áfram vegna þeirrar knýjandi þarfar að segja sögur.

It is impossible to discourage the real writers – they don’t give a damn what you say, they’re going to write. ~Sinclair Lewis

Ódysseifur eftir James Joyce er gott dæmi um svona sögu. Sagan sem kallast á við Ódysseifskviðu Hómers segir frá Leopold Bloom í Dublin og deginum sem hann fer á sitt fyrsta stefnumót með konunni sem hann giftist síðar. Í sögunni segir frá ýmsu sem er langt frá því upphafið enda kom á daginn að sagan var bönnuð í bæði Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem hún þótti of klámfengin. Sagan varð síðar meir leyfð og í dag held ég að fáir neiti því að Ódysseifur Joyce sé eitt af stórverkum 20. aldar.

Þetta á við um furðusögur sem annan skáldskap. Mikilvægi þess fyrir rithöfunda að vera trúir sjálfum sér, hafa trú á því sem þeir eru að gera og láta ekki hneppa hugsun sína í fjötra tísku, pólítísks rétttrúnaðar eða annarra viðmiða en sinna eigin er algjört. Um leið og þeir fara eltast við það sem yfirvöld, gagnrýnendur eða aðrir segja, þá er hættan sú að þeir séu í raun að berjast við vindmyllur.


Furðusögunni vex ásmegin

Á undanförnum þremur árum hefur furðusagan orðið sýnilegri í íslenskum bókmenntum. Bækur á borð við Ég man þig, Sögu Eftirlifenda, Meistara hinna blindu og Myrkfælni hafa verið gefnar út og oftast nær markaðssettar sem furðusögur, þ.e. hrollvekjur, vísindaskáldsögur eða fantasíur. Auk þess eru sífellt fleiri höfundar að koma fram sem leggja áherslu á slík skrif og enn fleiri sem skrifa en fá ekki gefið út. En hvað hefur breyst?

Ekki er sérstaklega langt síðan við Íslendingar hófum skáldleg textaskrif af einhverju viti, þó vissulega megi færa rök fyrir skáldskapahneigð í ákveðnum Íslendingasögum, t.d. Hávarðar sögu Ísfirðings. Margir telja að skáldsagnaskrif hefjist hérlendis með Jóni Thoroddsen en í raun hefst hún af einhverju viti í byrjun 20. aldar. Ekki er mikið skrifað af furðusögum framan af öldinni. Þórbergur þýðir örfáar sögur Poes, Gunnar skrifaði Sælir eru einfaldir en í henni má finna ákveðin gotnesk og hrollvekjandi einkenni, Kristmann Guðmundsson skrifaði vísindaskáldsögur sínar og fantasíur, þær fáu sem gefnar voru út, voru aðallega skrifaðar fyrir börn.

Nú eru hins vegar að vaxa úr grasi kynslóðir sem hafa alist upp við að lesa furðusögur. Kynslóðir sem lesið hafa Harry Potter sögurnar, bækur Philips Pullmans, Twilight bækurnar og horft hafa á Hringadróttinssögu í bíóhúsum. Þessar kynslóðir sækja síðan í Hungurleikana, Neil Gaiman, George R. R. Martin og álíka höfunda. Þetta eru framleiðendur sjónvarpsefnis auk þess að uppgötva, því ekki nóg með að Game of Thrones hefur verið framleitt heldur er einnig stefnt á að framleiða þætti sem gerast í Star Wars heiminum, þættir um Merlin hafa verið sýndir á Rúv og svo mætti lengi telja.

Við hjá Rúnatý sjáum þessa þróun einnig verða í íslenskum bókmenntum. Lesendur eru tilbúnir fyrir genre bókmenntir á íslensku. Við höfum gefið út smásögur og stærri verk eftir lítt þekkta höfunda og selt sem rafbækur. Hefur velgengni þeirra komið okkur í opna skjöldu, t.d. hefur smásagan Epli Iðunnar eftir Jóhann Þórsson selst býsna vel á Skinna.is. Við erum auk þess að vinna með tveimur upprennandi höfundum, annars vegar að fantasíu og hins vegar vísindaskáldsögu. Verður mjög spennandi að sjá hvernig þeim verður tekið þegar þær koma út.

Við hlökkum til að sjá hvernig þróunin verður á næstu árum. Rúnatýr mun áfram starfa að því að gefa út furðusögur, bæði á rafbókaformi og prentuðu.


2011 og 2012

Síðasta ár var viðburðaríkt. Við ákváðum að slá til og stofna útgáfu. Eftir vandlega leit að góðu og lýsandi heiti enduðum við á Rúnatý, sem er gamalt Óðinsheiti. Það merkir sá sem hefur stjórn á rúnunum og okkur fannst vel við hæfi að útgáfan bæri það nafn, enda ágætis lýsing á því sem rithöfundar þurfa m.a. að fást við. Við lögðum grunn að því starfi sem við vildum vinna, skilgreindum hvernig bókmenntir við vildum gefa út fyrst og fremst, ásamt því að hefja vinnu við að koma Myrkfælni á prent.

Við lærðum gríðarlega margt á því ferli, eiginlega miklu meira en við gerðum okkur í grein fyrir í upphafi. Ekkert okkar hafði áður komið að útgáfu bóka og þurftum því að læra allt um leið og hlutirnir gerðust. Sölusamningar voru gerðir við N1, Hagkaup, Nexus og Eymundsson og kom Myrkfælni út síðastliðið vor. Salan gekk ágætlega, bókin stóð undir sér, sem var jú fyrir mestu. Það var ýmislegt sem við hefðum viljað gera betur en lærum af þeim mistökum og gerum vonandi ekki þau hin sömu á þessu ári. Það sem mestu máli skipti var þó, að við vorum trú okkur sjálfum og hikuðum hvergi í að markaðssetja bókina sem genre bókmenntir, nánar tiltekið hrollvekju.

Í haust tókum við síðan upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á ókeypis rafbækur einu sinni í hverju mánuði á hér á síðunni okkar. Þetta teljum við vera frábæra leið til að kynna annars vegar höfunda og ná til fleiri lesenda, og hins vegar að kynna enn frekar fyrir lesendum að genre bókmenntir eru skrifaðar á íslensku og eru margar hverjar býsna frambærilegar. Í það heila hefur rafbókum Rúnatýs verið halað niður hátt í 400 sinnum og vonum við innilega að lesendur okkar njóti þessa framtaks.

Auk þess gengu tveir frábærir einstaklingar til liðs við ritstjórn félagsins, Kjartan Yngvi Björnsson og Unnur Heiða Harðarsdóttir, og hafa þau svo sannarlega komið sterk inn. Litla útgáfan er því að vaxa og mun vonandi dafna enn frekar á þessu ári.

Í vor stefnum við á að gefa út tvær bækur. Annars vegar hrollvekjandi skáldsögu eftir Þorstein Mar. Sagan gerist í Reykjavík á 9. áratuginum og sver sig í ætt við furðusögur, um leið og aðalpersónur þurfa að leysa úr flóknum gátum og ráða forna leyndardóma fer einhver um stræti og fremur hryllileg morð. Hin bókin sem koma mun út í vor er þýðing á nokkrum smásögum H. P. Lovecrafts, en hann er af mörgum talinn einn frumlegasti rithöfundur furðuskáldskaparins. Þeir sem vilja geta ráðið í hver meginsagan verður í þeirri þýðingu með því að skoða myndina sem fylgir þessari færslu.

Auk þess erum við að vinna að fleiri verkefnum, þ. á m. verkefni sem tengist Íslendingasögum, tveimur fantasíum og vísindaskáldsögu. Fyrsti kaflinn úr síðastnefnda verkefninu hefur birst hér í formi rafbókar og fengið góðar viðtökur. Við vonum að eitthvað af þessum verkefnum ljúki á þessu ári svo hægt verði að koma þeim í útgáfu.

Ákveðið hefur verið að allt efni Rúnatýs verði einnig gefið út í rafbókaformi á þessu ári og lögð verður áhersla á, að efnið verði aðgengilegt á öllum rafbókalesurum. Verðlagningu rafbóka verður stillt í hóf og munu rafbækur Rúnatýs ekki bera prentkostnað, dreifingarkostnað eða annan kostnað sem fellur til vegna umsýslu sem tengist prentuðum bókum beint.

Við hlökkum til þess að takast á við ný verkefni á þessu ári og vonumst til að þið eigið eftir að njóta þess sem frá okkur kemur.


Hvers vegna valdirðu þessa bók?

Við Íslendingar erum með svolítið sérstaka útgáfumenningu. Við stærrum okkur jafnan að því hversu mikil bókaþjóð við erum og miðað við hina sívinsælu höfðatölu gefum við út svo og svo margar bækur per haus. Margfaldast sala bóka um hver jól og er eins og stór hluti þjóðarinnar hafi ekki áttað sig á að bókabúðir séu opnar árið um kring. Hins vegar þegar við skoðum nánar út á hvað jólabókamarkaðurinn gengur, þá virðast flestir ekki vera kaupa bækur handa sjálfum sér, heldur sem jólagjafir. Og því hlýtur sú spurning að vakna, hvað stjórnar því hvað við lesum?

Metsölulistar

Birting metsölulista hlýtur að hafa áhrif. Margir lesendur vilja lesa það sem aðrir hafa lesið og bækur sem eru í umræðunni. Metsölulistar eru þannig mótandi fyrir áframhaldandi sölu þeirra bóka sem þangað rata. Hins vegar segir sala bókar ekkert til um gæði hennar, heldur aðeins um hvernig sala hennar hefur verið. Margar útgáfur nýta sér þessa staðreynd í markaðssetningu sinni, því þær auglýsa að bók sé í þessu eða hinu sæti á metsölulistum.

Gagnrýni

Neytendur líta oft til þess hvernig bók hefur verið gagnrýnd. Þannig getur þáttu eins og Kiljan eða bókmenntarýni í blöðum og öðrum miðlum haft afgerandi áhrif á sölu bókar. Við treystum því að þeir sem gagnrýna bækur hafi til þess þekkingu og viti um hvað þeir eru að tala. Hins vegar er ekki jafn oft fjallað um gagnrýnendurna sjálfa, hvaða fyrirfram mótuðu skoðanir þeir hafa. Þó hefur sú umræða komið upp nú þetta haustið og þá sérstaklega með tilliti til Páls og Bergþóru í Kiljunni. Gott er að hafa í huga að stjörnugjöf sú sem finna má í blöðum, birta skoðanir gagnrýnenda fyrst og fremst. Ekki má heldur gleyma að gagnrýnendur hafa mjög oft hagsmuna að gæta, stórar útgáfur eru oft öflugir auglýsingakaupendur hjá þeim miðlum þar sem gagnrýnendurnir starfa. Líklega er því best að treysta á algjörlega óháðar umfjallanir sem finna má m.a. á netinu, t.d. Druslubækur og doðrantar eða stjörnugjöf í vefverslun Eymundssonar.

Með hverju mæla fjölskylda, vinir og kunningjar?

Líklega er þetta einn öflugasti hvati til lestrar. Mæli einhver nákominn manni með bók, aukast jú líkurnar á því að maður lesi viðkomandi verk. Við treystum jú þessu fólki best og það ætti að vita hvers lags bókmenntir við viljum lesa. Vinir hafa oft svipaðan smekk og maður sjálfur og því getur það eitt að fá að vita hvaða bækur eru á náttborði viðkomandi haft áhrif á hvaða bækur maður sjálfur velur að lesa.

Framstilling og útlit

Þegar við erum að kaupa bækur þá skiptir vissulega framstilling máli sem og útlit. Við dæmum mjög oft bækur út frá kápunni. Við hjá Rúnatý fórum mjög sérstaka leið við hönnun á kápu Myrkfælni, höfum hana einfaldlega kolsvarta með hvítum stöfum. Hafði það áhrif á söluna? Eflaust hafa einhverjir dæmt bókina út frá kápunni, sem og hvar hún var í hillu og hvort mörg eintök af henni voru til. Allt hefur þetta áhrif. Eins þegar fram líða stundir og bókin stendur í bókahillunni.

Gjafir

Um jólin fá flestir að minnsta kosti eina bók í jólagjöf. Það eitt og sér er stýrandi í sjálfu sér, því ekki er ólíklegt að maður sé spurður um hvernig manni hafi þótt viðkomandi bók.

Bókaflokkar, bókmenntagreinar, höfundar

Margir legga það á sig að lesa heilu bókaflokkanna, t.d. Ísfólkið. Þannig kallar ný bók í flokknum á það að vera lesin. Eins hafa bókmenntagreinar áhrif, sumir keppast við að vera sem víðlesnastir í ákveðinni bókmenntagrein. Hið sama gildir um höfunda.

Verðlaun

Við tökum alltaf eftir því ef bók fær verðlaun. Einhverra hluta vegna eiga þau að vera staðfesting á gæði skáldverka. Í raun endurspegla verðlaun oftar en ekki mikið meira en gildismat þeirra sem sátu í dómnefnd. Þannig er oft lítill munur á þeim sögum sem koma til greina sem sigurvegarar í slíkum keppnum, enda bókmenntir þannig úr garði gerðar að þegar allt kemur til alls þá stýrir huglægt mat vali okkar.

Auðvitað er þetta ekki tæmandi upptalning. Hins vegar er ágætt að hafa þetta í huga. Sérstaklega í ljósi þess að það eru margar útgáfur sem eru að reyna brjótast undan oki jólabókaflóðsins. Hvað er það sem stýrir því hvað þú lest?


Mörk skáldskapar

Í umfjöllun um nýútkomna bók Hallgríms Helgasonar, Konan við 1000°, hefur verið bent á að nær allir þeir atburði sem gerast í sögunni eigi sér stoð í raunveruleikanum. Hið eina sem ekki sem ekki sé í raun sagnfræði er annars vegar nafn aðalpersónunnar og feðrun annarrar persónu, en jafnvel allar aukapersónur bera sama nafn og í raunveruleikanum. Ekki er langt síðan svipuð bók kom út, Enn er morgun, eftir Böðvar Guðmundsson en sú skáldsaga var byggð á ævi fyrrverandi eiginkonu hans, Helgu Kress. Báðar sögurnar eru ágætlega stílaðar og er ekki markmiðið að gagnrýna þær sérstaklega eða skoða.

Það sem óneitanlega kemur hins vegar upp í hugann er hvar mörk skáldskaparins liggja. Nægir að höfundur kalli verk sitt skáldsögu? Er nóg að breyta einu, tveimur nöfnum?

Í bandarískum kvikmyndum er hefðin sú að láta áhorfendur vita í upphafi að saga tiltekinna kvikmynda er byggð á sönnum atburðum. Ættu rithöfundar að gera slíkt hið sama eða myndi það draga úr listinni?

Við Íslendingar eigum okkur langa hefð ritunar samtíma- og ættarsagna. Í raun höfum við verið að segja slíkar sögur allt frá landnámi og þegar við tökum að skrifa sögur á skinn þá eru þær sem eru helst skráðar. Við höfum Íslendingasögurnar, sögur af biskupum og samtímasögur. Hugmyndir okkar um Sturlungaöldina væru líklega mjög ólíkar þeim sem við höfum í dag ef ekki væri fyrir Íslendingasögu Sturlu Þórðarssonar. Þegar líða tók á seinni hluta þess tímabils þegar verið var að skrifa Íslendingasögur fóru ritarar smátt og smátt að skálda meira og hefur verið sýnt fram á að töluverð skáldskaparhneigð sé að finna í t.d. Grettlu og Hávarðar sögu Ísfirðings. Sem sagt, skáldskapur var orðinn hluti af sögunum og fyrir vikið lítum við örlítið öðrum augum á þær sögur sem voru skrifaðar á þeim tíma.

Sögulegar skáldsögur hafa verið skrifaðar alla 20. öld, þar sem stuðst er við sögulega atburði, t.d. hafa Einar Kárason og Ólafur Gunnarsson báðar skrifað frábærar þess háttar sögur. Einar Már hefur skrifað sögu fjölskyldu sinnar í nokkrum bókum, þar ríst eflaust hæst Englar alheimsins, þar sem hann nýtir þekkta atburði og skáldar í kringum þá. Mörkin er því ekki ljós, hvar skáldskapurinn hefst og sagnfræðinni lýkur. Hins vegar hljótum við að staldra við þegar hið skáldlega er gott sem þurrkað út en þó er viðkomandi verk kynnt sem skáldsaga. Er verið að ögra lesendum eða vernda þá sem fjallað er um í bókinni? Myndum við kalla ljósmynd sem búið væri að mála lítið gult strik í eitt horn málverk?

Líklega skiptir þetta lesendur ekki öllu máli hvort útgefendur flokki eitthvað verk með ákveðnum hætti svo lengi sem þeir hafa gaman af lestrinum.