Tag Archives: smásögur

Skiptir lengd rafbóka máli?

Bækur hafa lengst mjög á undanförnum árum. Hvort sem það er fyrir sakir hinnar þýsku epísku sögu eða hvaða annarra áhrifa, þá er þetta sérstaklega merkjanlegt í kringum jólin hérlendis. Söluhæstu bækurnar telja nokkur hundruð blaðsíður, eru vandlega innbundnar og með pappírskápu sem er jafnvel með upphleyptri mynd. Sem sagt, eigulegur hlutur sem gaman er að gefa og þiggja.

Að vori koma svo oft bækurnar frá liðnu jólabókaflóði út sem kiljur, en ásamt þeim eru gefnar út nýjar sögur í sama formi. Lesendur margir njóta þess að lesa þessa doðranta og sökkva sér ofan í þá heima sem í bókunum er að finna. Fyrir nokkru þótti góð lengd á skáldsögu vera um 250-300 blaðsíður prentaðar og voru ekki margar sögur sem fóru langt umfram þá lengd. Nærtækast er að benda á muninn á lengd fyrstu og síðustu Harry Potter bókanna. Í dag hika höfundar ekki við að skila af sér 400-600 blaðsíðna verkum.

En skiptir lengd máli þegar um rafbækur er að ræða?

Það gerir svo að vissu leyti. Þegar lesendur notast við lesbretti á borð við Kindle, iPad eða álíka tæki, þá missa þeir oft tilfinningu fyrir því hversu þeim gengur í lestrinum, hversu langt þeir eru komnir inn í bókina enda hafa þeir ekki blaðsíður prentaða eintaksins sem viðmið fyrir framan sig. Hins vegar hafa þeir t.d. mælistikuna neðst á skjá Kindle og hættan er sú, sé bók mjög löng, að stikan færist afar hægt þrátt fyrir ítrekaðar flettingar. Þá geta sumir lesendur upplifað lesturinn sem kvöð og verður hann þá fyrir vikið ekki jafn gefandi og áður.

Auðvitað er það misjafnt milli einstaklinga hvernig þeir upplifa þetta, en þetta er engu að síður nokkuð sem rithöfundar ættu að hafa í huga. Langar rafbækur geta verið lýjandi í lestri, þrátt fyrir að vera áhugaverðar engu að síður.

Reynsla okkar af því að gefa út stakar smásögur og nóvellur er sú, að áhugi rafbókalesenda fyrir slíku efni er talsverður. Selst hvort form fyrir sig ágætlega enda þægilegt að geta gripið í eina smásögu eða stutta skáldsögu, stikan færist hratt yfir skjáinn og hugsanlega má spyrja, hvort rafbókavæðingin feli í sér að form sem hingað til hafa verið í jaðri útgáfustarfsemi forlaga (smásögur, ljóð, nóvellur), bókmenntaform sem allajafna henta ekki vel í jólabókaflóðið, eigi sér bjargvætt í rafbókinni?


Myrkfælni

Nýtt íslenskt hrollvekjusafn hefur litið dagsins ljós. Bókin Myrkfælni hefur að geyma ellefu stuttar hrollvekjur sem allar fá hárin til að rísa. Sögurnar eru mjög ólíkar, allt frá þjóðsagnakenndum ævintýrum að fantasíum.

Eins og segir á kápu bókarinnar þá er „Myrkfælni smásagnasafn sem hefur að geyma ellefu hrollvekjur þar sem lesendur rekast á ýmsar furður og fólk, jafnt úr fortíð sem nútíð. Sumt má útskýra, annað ekki. Draugar og hvers kyns óvættir birtast mönnum, leiða þá á villgötur og vekja óhug.“ Þó svo allar sögurnar séu hrollvekjur er þær afar ólíkar, allt frá því að hafa nánast þjóðsagnakenndan ævintýrablæ að því að teljast hreinræktaðar fantasíur.

Myrkfælni er fyrsta bók höfundarins Þorsteins Mars sem þó hefur fengið þónokkrar sögur birtar í tímaritum á undanförnum árum. „Ég hef lengi gengið með þennan draum í maganum og reynt að koma skrifum mínum á framfæri,“ segir Þorsteinn. „Hrollvekjur hafa ekki fengið mikla athygli hér á landi og mér fannst kominn tími til að bæta úr því. Ég hef sjálfur mjög gaman af hrollvekjum, og þá ekki síður að lesa þær en skrifa.“ Hann einskorðar sig þó ekki við þess lags bókmenntir og má nefna að hann bar sigur úr býtum í ástarsagnakeppni Vikunnar síðasta sumar, með sögunni Rósu.

Þorsteinn Mar er 33 ára gamall. Hann er menntaður íslenskufræðingur og kennari og starfaði sem slíkur um nokkurst skeið. Undanfarin ár hefur hann hins vegar sinnt starfi vefstjóra hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni.

Myrkfælni er gefin út af nýrri útgáfu, Rúnatý. Þar er ætlunin að leggja áherslu á útgáfu bókmennta sem alla jafna hafa lítið sést hérlendis. Einkum er um að ræða hrollvekjur, fantasíur og vísindaskáldsögur, svokallaðar genre bókmentir. Þess má geta að Rúnatýr merkir guð rúnanna, eða sá sem valdið hefur yfir rúnum, sem verður að teljast skemmtilegt nafn á bókaútgáfu.


H.P. Lovecraft

Ef ég man rétt, þá var ég nýbúinn með grunnskóla þegar ég komst fyrst í kynni við H.P. Lovecraft. Á þeim tíma vorum við nokkrir félagar duglegir að spila spunaspil og ákvað einn okkar að stjórna kerfi sem heitir Call of Cthulhu. Við spiluðum nokkur ævintýri og út frá þeim fór ég að kynna mér kerfið betur og komst að raun um að það væri byggt fyrst og fremst á skáldskap þessa höfundar. Ég sá að félagi minn, þessi sem ákvað að stjórna þessu kerfi, átti bækur eftir Lovecraft í bókahillunni hjá sér og fékk ég þær lánaðar.

Eftir það varð ekki aftur snúið. Ég hef lesið nær allan skáldskap hans og ýmislegt meira til, þó ég hafi hingað til ekki haft það í mér að fara í gegnum öll bréfaskrif hans. Vissulega er Lovecraft ekki besti rithöfundur sem Bandaríkin hafa alið af sér, en arfleifð hans er hins vegar mikil og margir, ef ekki flestir, nútímahrollvekjuhöfundar nefna hann sem einn af áhrifavöldum sínum. Sögur hans hafa náð kannski meiri hylli á síðustu árum og t.d. skilst mér að kvikmynd sé í undirbúningi sem gera á eftir einni af lengri sögum hans, At the Mountains of Madness. Reyndar hafa verið gerðar kvikmyndir eftir sögum hans en fæstar þeirra náð vinsældum. Einna helst virðast myndir sem vísa óbeint til hans verða vinsælar, t.d. Event Horizon og In the mouth of madness, báðar með Sam Neill í aðalhlutverki.

Af hverju ætli sögur hans lifi svona góðu lífi meðal hrollvekjuunnenda? Ég tel að fyrir því séu tvær ástæður. Í fyrsta lagi þá var Lovecraft með afar frjótt ímyndunarafl og virðist hafa átt auðvelt með að sjá hið hryllilega fyrir sér. Það voru hvorki vampírur, varúlfar, draugar eða nokkur af hinum þjóðsagnakenndu verum sem jafnan einkenndu klassískar og gotneskar hrollvekjur þess tíma, heldur var hryllingur hans upphaflega meira í ætt við Poe og Algernon Blackwood. Svo þegar hann tekur að þróa Wierd-fiction þá breyttist hið hryllilega í ævafornar og illgjarnar verur utan úr geimnum, sbr. Cthulhu. Þannig gátu runnið saman í einni sögu hrollvekja, fantasía og vísindaskáldskapur. Ég held að hann, ásamt Poe o.fl., hafi þannig skapað nútímahrollvekjunni rými til að verða byggðar á einhverju öðru en klassískum og þjóðsagnakenndum hryllingi, hið hryllilega gat komið að innan (sbr. Tell-tale heart eftir Poe og Dr. Jekyll & Mr. Hyde eftir Stephenson), verið utanaðkomandi (sbr. Call of Cthulhu) eða eitthvað sem maðurinn hafði sjálfur skapað (sbr. Frankenstein eftir Shelley) og þaðan af verra.

Í öðru lagi þá eru sögur hans í senn myndrænar og frásagnarstíllinn góður. Ég held að fæstir sem lesa t.d. Call of Cthulhu eigi erfitt með að sjá fyrir sér litlu leirmyndina, trylltan dans sértúarsafnaðarins í mýrlendinu við New Orleans eða heimsókn norska sjómannsins til R’lyeh. Lesandanum er sagt frá þessu í marglaga frásögn, þannig hann fer sífellt dýpra inn í frásögnina (nokkuð sem kvikmyndaunnendur ættu að kannast við úr myndinni Inception), þ.e. fyrst heyrum við af prófessornum, sem heyrði frásögn Legrasse rannsóknarlögreglumanns. Síðan fær aðalpersónan dagbók í hendur og þar leynist næsta frásögn. Þannig kynnist lesandinn hryllingnum í gegnum tvær frásagnir, fyrst af rannsakandanum og svo því sem hann les. Og allt sett frá á þann máta, í gegnum ríkan orðaforða og ofhlaðinn texta, að auðvelt er að sjá atburðina renna fyrir hugskotum sér.

Sú saga sem ég held hvað mest uppá eftir Lovecraft er The Thing on the Doorstep. Í þeirri sögu er hann ekki fást við illar geimverur, heldur manneskjuna sjálfa. Sagan er kannski öllu hefðbundnari miðað við annað sem hann hefur lét frá sér, en þar koma fyrir illur seiðskratti, femme fatale og aðalpersóna sem hefur framið morð, en er að reyna réttlæta það fyrir sjálfum sér. Sjálf er hún á geðsjúkrahúsi, dæmd til að eyða árum sínum þar. Ef þú hefur ekki lesið söguna, mæli ég eindregið með henni.

Lovecraft, sem átti afmæli í gær, þann 20. ágúst, hefur haft mikil áhrif á mig sem höfund. Ég held að það dyljist engum sem les sögurnar mínar og kannast eitthvað við Lovecraft. Mér þykir vænt um sögurnar hans og þrátt fyrir að hafa lesið þær margar aftur og aftur, þá kemur enn fyrir að ég dragi fram einhverja sögu eftir hann og lesi áður en ég fer að sofa, sérstaklega þegar tekur að hausta og nóttin fer aftur að verða dimm og drungaleg.


Hverdagslegur hryllingur

Hið hryllilega er margslungið fyrirbæri og það getur verið svolítið erfitt að henda reiður á því hvað er hryllilegt og hvað ekki. Bæði er það persónubundið en eins getur það verið ólíkt milli menningarheima, samfélaga eða jafnvel kynja. Sem sagt, það sem fær hárin til að rísa hjá mér getur verið eitthvað allt annað en fær hárin til að rísa hjá þér. Fyrir þann sem skrifar hrollvekjur þá er það endalaus eltingarleikur að finna atriði sem höfða til sem flestra eða hafa sem víðtækasta skírskotun.

Fyrir vikið er algengt að þess háttar höfundar taki fyrir þekkt þemu. Vampírur, varúlfar, uppvakningar og aðrar þjóðsagnakenndar verur birtast reglulega á síðum hryllingssagna. Poe og fleiri höfundar tóku hið yfirnáttúrulega til umfjöllunar, nokkuð sem Lovecraft útfærði enn frekar í wierd fiction sögum sínum. Stephen King, Shirley Jackson, Peter Wier og fleiri höfundar hafa síðan útfært hið yfirnáttúrulega enn frekar, sem og hið hversdagslega. Við þekkjum hið yfirnáttúrulega og þjóðsagnakennda úr mýmörgum verkum, t.d. úr bókunum Dracula, Darker than you think, I am legend og kvikmyndum á borð við Sleepy Hollow, Event Horison og An American werewolf in London. Auk þessara hryllingssagna ber að nefna þær sem kalla mætti sálartrylla (e. pshyco-thrillers), sögur á borð við Dr. Jekyll & Mr. Hyde, Pshyco o.s.frv.

Þó svo að yfirnáttúruleg fyrirbæri hafi hvað víðtækasta skírskotunina, þá held ég að hverdagslegur hryllingur sé nokkuð sem tali mun sterkar til lesandans. Og í nútímahrollvekjunni, þá tel ég að hið hversdagslega sé að verða sterkara. Höfundar eru farnir að vinna þjóðsagnakennda og yfirnáttúrulega hrylling með öðrum hætti, jafnvel farnir að gera hvort um sig hversdagslegt. Hitchcock fjallaði sérstaklega vel um hið hversdagslega, t.d. í kvikmyndinni Birds. Stephen King hefur einnig gert í sínum bókum, en þar rennur oft saman hið hverdagslega og hið yfirnáttúrulega, t.d. í sögunum 8 gata Buick og Cell, hið sama gildir um margar japanskar hryllingsmyndir, t.d. The Ring. Eitthvað hefur einnig borið á því, að menn hafi reynt að gera hið yfirnáttúrlega eða þjóðsagnakennda hversdagslegt, þar fáum við að lesa eða sjá sögur t.d. sagðar af vampíru (t.d. Interview with a vampire eða sjónvarpsþáttaserían True Blood) en persónulega er ég á þeirri skoðun að slík yfirfærsla þarf að vera afar vel unnin til að ganga upp. Besta slíka yfirfærsla er að mínum dómi að finna í Frankenstein, þ.e. hvernig við fáum að kynnast því mannlega í sköpunarverkinu. Það í sjálfu sér er hryllilegt, að vera sem er fær um voðaverk og vera tilkomin af því er virðist af gott sem yfirnáttúrulegum ástæðum skuli vera fær um mannlegar kenndir en vera hafnað af samfélaginu (nokkuð sem enginn lesandi vill lenda í sjálfur).

Við Íslendingar höfum ekki ríka hefð fyrir hinu hversdagslega í okkar annars fáu hrollvekjum í skáldsagnarlengd. Vissulega má finna sögur þar sem hið hversdagslega er hrollvekjandi eða það rennur saman við hið yfirnáttúrulega, t.d. Hrotur eftir Halldór Stefánsson eða Flugur eftir Þóri Bergsson. Í Börnunum í Húmdölum réð hið yfirnáttúrulega ferðinni, nokkurs konar Lovecraftískur hryllingur þar á ferð og í sögu Yrsu Sigurðardóttir, Ég man þig, er sagan meira í ætt við klassískar draugahússögur á borð við The hunting of House Hill eftir Shirley Jackson og The Shining eftir Stephen King. Sjálfur reyndi ég að nálgast þetta fyrirbæri á minn hátt í sögunni Dýrið, þar sem einföld sunnudagsmáltíð tekur óvænta stefnu.

Þó svo að hversdagslegir hlutir hafi ekki jafn víðtæka skírskotun og yfirnáttúrulegir eða þjóðsagnakenndir, þá held ég að þeir hafi engu að síður sterk áhrif, sérstaklega á þann hóp sem getur hvað best sett sig í spor aðalpersónunnar. Vissulega er hættan sú, að slík saga missi marks hjá þeim sem ekki sjá sig í aðalpersónunni, en á slíkt hið sama ekki við um allar sögur?