Tag Archives: Þorsteinn Mar

Rafbækur, ebækur, netskinnur og tölvuskruddur

Um síðustu helgi var opnuð ný rafbókaverslun, ebækur.is, og auglýsir hún sig sem stærstu rafbókaverslun landsins. Gaman er að sjá að meira fjör er að færast í þennan markað og óhætt að segja, að þegar forráðamenn tónlist.is taka sig til og fara inn á einhvern markað þá er það gert með látum. Hins vegar hefur það leitt til þess að enn kemur upp umræða um rafbækur, þá sérstaklega um verðlagningu þeirra en eins um aðgengi.

Þessi stærsta rafbókaverslun landsins býður upp á fjölbreytt úrval erlendra titla, yfir 200 þúsund titlar og eftir því sem við komumst næst, allt á ePub sniði. Hins vegar eru notendum færð rausnarleg gjöf stofni þeir aðgang á vefnum. Enn er þó úrval íslenskra titla hjá þeim heldur fáborið (aðeins tæplega 80 íslenskar rafbækur), miðað við emma.is og skinna.is, og einhverra króna verðmunur, sem sjaldnast er nógu mikill að það skipti í raun einhverju máli.

Við hjá Rúnatý stöndum fast á stefnu okkar. Við viljum bjóða upp á rafbækur á eins hagstæðum kjörum og mögulegt er, sem og að aðgengi að þeim sé með besta móti. Í dag kosta nær allir titlar okkar um og undir þúsund krónum í rafbókaformi og eru fáanlegir fyrir alla rafbókalesara. Við treystum lesendum okkar, rétt eins og við treystum þeim til að fjölfalda ekki prentuð eintök þeirra bóka sem við höfum gefið út.

Um verðlagningu og kostnað við gerð rafbóka hefur nokkuð verið skrifað. Gísli Ásgeirsson hefur skrifað um þetta málefni tvær greinar (sjá hér og hér). Óli Gneisti Sóleyjarson fjallaði um sama mál (sjá hér) og af ummælum og svörum við færslum þeirra að dæma þá sýnist sitt hverjum. Hvert forlag verður að svara fyrir sig, en við hjá Rúnatý leggjum okkur fram við að halda kostnaði við gerð rafbóka lágum.

Við erum í óða önn að vinna að fleiri rafbókum og væntanlegar frá okkur á næstu mánuðum eru amk. tvær sögur, annars vegar vísindaskáldsaga og hins vegar gufupönksaga eftir tvo unga og efnilega höfunda. Hvort tveggja eru spennandi verkefni sem eru vel á veg komin og við hlökkum til að segja ykkur nánar frá þeim á komandi vikum og mánuðum.

Í síðustu viku settum við annars vegar Stolnar stundir eftir Ágúst Borgþór Sverrisson og smásöguna Rósu á sölu hjá rafbókabúðinni Skinna.is. Stolnar stundir er eitt af allra bestu verkum Ágústs og fékk góða dóma þegar hún kom út í prenti á sínum tíma. Við vonum að hægt verði að koma fleiri smásögum eftir Ágúst í rafbókaform og höfum auk þess heyrt í fleiri rithöfundum sem vilja gera efni sitt aðgengilegt á þessu formi. Smásagan Rósa eftir Þorstein Mar er ástarsaga og vann ástarsagnakeppni Vikunnar 2010. Stolnar stundir kosta 799 kr en Rósa 329 kr.


Fjallað um Þoku í Morgunblaðinu

Skáldsagan Þoka var tekin til umfjöllunar í Morgunblaðinu og fékk þar hálfa þriðju stjörnu.

Segir svo í umfjölluninni:

[…]
Persónusköpun er fín og vel tekst til við að gefa mynd af persónum sögunnar, bæði með með gerðum þeirra sem og lýsingum. Auðvelt er að tengjast þeim enda raunsæjar annað en söguþráðurinn, enda um yfirnáttúrulega sögu að ræða. Söguheimurinn er að sama skapi skemmtilegur og Reykjavík á níunda áratugnum sjaldan verið jafn nöturleg.
[…]
Þoka er ágætis afþreying og auðvelt að lesa hana í einum rykk.
Bendir gagnrýnandinn á helstu galla sögunnar, sem felast að hans mati í að sagan mætti vera frumlegri og dulúðin ekki nægilega öflug.

Fjallað um Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur í Víðsjá

Í gær var fjallað um H.  P. Lovecraft og þýðinguna á sögum hans, Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur, í Víðsjá á Rúv. Umfjöllunin var í senn afar fróðleg og skemmtileg og kom Björn Þór Vilhjálmsson inn á marga áhugaverða fleti er tengjast höfundinum sjálfum, áhrifum hans á rithöfunda 20. aldar en auk þess gagnrýndi hann þýðinguna og sagði m.a.:

Og nú hafa valdar sögur Lovecrafts birst í íslenskri þýðingu Þorsteins Mar undir nafninu Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur, en í safninu er að finna, auk titilsögunnar, þrjár stuttar sögur og eina nóvellu, sú síðastnefnda nefnist Við hugarfársins fjöll, en þessi prýðilega þýðing á titlinum, en á ensku nefnist sagan At the Mountains of Madness, gefur tóninn fyrir það sem mér sýnist, eftir að hafa borið frumtexta saman við þýðingu á nokkrum vel völdum stöðum, vera afskaplega vel unnar þýðingar.

Fyrir lítið forlag sem Rúnatý vegur þungt að fá umfjöllun sem þessa og þá sem Árni Matthíasarson birti í Morgunblaðinu. Að auka veg og efla virðingu fyrir furðusögum væri erfitt, ef ekki óhugsandi, án aðkomu fjölmiðla og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir að taka bækur okkar til rýni.

Hægt er að hlýða á umfjöllunina í heild sinni með því að smella hér.


Fjallað um Kall Cthulhu í Morgunblaðinu

Fjallað var um þýðinguna á sögum Lovecrafts í Morgunblaðinu á fimmtudaginn var og sagði Árni Matthíasson að sögurnar væru ósvikin skemmtilesning. Einnig nefndi hann að Þorsteinn Mar hefði komist alla jafna vel frá þýðingunni, en hún væri á nokkrum stöðum stirðbusaleg og kannski full nálægt stíl Lovecrafts. Í heildina fær bókin þrjár og hálfa stjörnu.


Fréttir af útgáfunni

Vorið er annasamur tími hjá okkur. Við höfum verið á fullu við að koma bókunum okkar á framfæri, auglýsa og önnum kafin við allt það sem tengist slíkri starfsemi. Auk þess hefur okkur verið að berast sífellt fleiri handrit og eru mörg þeirra afar áhugaverð.

Rafbókin sækir í sig veðrið

Það hefur verið mjög gaman að fylgjast með sölunni á rafbókunum okkar. Hún hefur aukist viku frá viku og hefur ekki liðið sú vika, að ekki hafa verið einhverjir titlar frá okkur á metsölulistum Skinnu. Því miður er úrval rafbóka á íslensku fábrotið en við ætlum okkur að breyta því. Sérstaklega er leiðinlegt hversu lítið úrvalið er fyrir notendur Kindle en við vonum að það breytist eftir því sem fram líða stundir.

Gaman er þó að sjá að sífellt fleiri útgáfur eru að vakna fyrir þeim möguleikum sem felast í rafbókinni. Við höfum nýverið tekið að okkur að útbúa og dreifa rafbókum fyrir annað lítið forlag, sem að mestu gefur út bækur fyrir allra yngstu lesendurna og munu þær bjóðast til sölu von bráðar.

Við munum í framtíðinni leggja mesta áherslu á útgáfu rafbóka og reyna þannig að leggja lóð okkar á vogarskálarnar í þeirri byltingu sem rafbókavæðingin er.

Tvær nýjar kiljur

Við gáfum út tvær kiljur nú í vor, annars vegar skáldsöguna Þoku eftir Þorstein Mar og hins vegar Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur eftir H. P. Lovecraft. Hafa þær hlotið ágætar viðtökur og báðar ratað inn á metsölulista sem rafbækur. Hægt er að kaupa þær í öllum betri bókaverslunum, t.d. Bókabúð Máls og menningar, Iðu og Eymundsson. Hins vegar hefur aðeins lítillega verið fjallað um hvorn titil í fjölmiðlum, helst hafa vinir okkar í Nörd Norðursins verið duglegir að segja frá bókunum, en þetta veldur okkur nokkrum áhyggjum. Hvað stýrir því um hvaða titla fjölmiðlar fjalla? Við höfum sent eintök á nær flesta þeirra, þ.a. þá sem hafa svarað og óskað eftir eintökum en ákveðnir fjölmiðlar hafa hunsað algjörlega tölvupósta frá okkur og jafnvel margsenda slíka.

Fullt af flottum handritum

Við erum á fullu þessa dagana að lesa yfir handrit og þau ekki af verri gerðinni. Nokkur hafa verið tekin inn í ritstjórnarferli, þ. á m. fantasía, vísindaskáldsaga, steam-punk saga og hrollvekja. Við hlökkum mikið til að koma þessum handritum í rafbókaform og vonandi prentað form í framhaldi af því. Stefna er sett á að fyrstu handritin séu klár á komandi ári, næsta vor ætti því að verða mjög áhugavert fyrir þá sem njóta furðusagna. Allt eru það handrit frá ungum og efnilegum höfundum sem við teljum vera með sögur sem eiga fyllilega erindi við lesendur.

Sumarið er frábær tími til að lesa bækur og hvetjum við því alla til að grípa aðra hvora kiljuna frá okkur eða skoða úrval titla frá Rúnatý á vef Skinna.is. Við vonum að þið eigið gott bókasumar.


Viðtal við Þorstein Mar í Morgunblaðinu


Alvöru hrollvekjur á íslensku

Tvær nýjar hrollvekjur komnar í verslanir. Annars vegar er það þýðing á hinu þekkta verki H.P. Lovecraft, Call of Cthulhu. Hins vegar ný íslensk skáldsaga, Þoka, eftir hinn efnilega Þorstein Mar.

Margir hrollvekjuunnendur þekkja verk H. P. Lovecrafts sem er einn af áhrifamestu höfundum hryllingsbókmennta samtímans. Hann er talinn vera einn af sporgöngumönnum furðusagna og í sögum hans mætast hrollvekjan og fantasían á skemmtilegan hátt. Núna hafa fimm af sögum hans verið þýddar á íslensku og eru fáanlegar, allar saman, í bókinni Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi smásögur sem gefin var út á dögunum.

Áhrif Lovecrafts ótvíræð

Í bókinni eru m.a. þýðingar á sögunum Call of Cthulhu og At the Mountains of Madness sem eru meðal þekktustu verka Lovecraft. „Ég hef alltaf dáðst að Lovecraft en ég byrjaði að lesa hann á unglingsárunum. Það sem gerir sögurnar hans góðar er sá veruleiki sem hann býr til, þar sem manneskjan er aðeins hverful tilviljun í ógnarstórum veruleika. Þetta hafa margir reynt að leika eftir en fáum tekist jafn vel upp að mínu mati,“ segir Þorsteinn Mar sem þýddi sögurnar. „Margir höfundar hafa leitað til Lovecrafts og nefna margir af helstu genre-rithöfundum samtímans hann sem einn helsta áhrifavald sinn, höfundar á borð við Stephen King, Brian Lumley og Neil Gaiman.“

Íslensk hrollvekja sem gerist í Reykjavík

En Þorsteinn skrifar líka sjálfur og var að gefa út sína aðra bók, skáldsöguna Þoku. „Sagan er hrollvekja, en þó ekki í anda Lovecraft þó í henni séu ákveðin einkenni weird-fiction,“ segir Þorsteinn. Í bókinni segir frá því þegar mannlaust skip finnst á Faxaflóa. Enginn veit hvaðan það kom, hvers lenskt það er eða hvernig það endaði við Íslandsstrendur. Eftir að lögreglan hefur rannsóknir á skipinu hefst hrina hryllilegra morða í Reykjavík og undarleg þoka leggst yfir borgina við Sundin.

Í fyrra sendi Þorsteinn frá sér smásagnasafnið Myrkfælni og fékk hún ágæta dóma gagnrýnenda. „Myrkfælni… er skemmtileg nýbreytni og höfundur fer vel af stað með sinni fyrstu bók.“ (SG/Morgunblaðið) „…tekst Þorsteini hvað eftir annað að skapa verulega hrollvekjandi stemningu.“ (ÚD/Bókmenntir.is).