Tag Archives: Vísindaskáldsögur

Furðusögunni vex ásmegin

Á undanförnum þremur árum hefur furðusagan orðið sýnilegri í íslenskum bókmenntum. Bækur á borð við Ég man þig, Sögu Eftirlifenda, Meistara hinna blindu og Myrkfælni hafa verið gefnar út og oftast nær markaðssettar sem furðusögur, þ.e. hrollvekjur, vísindaskáldsögur eða fantasíur. Auk þess eru sífellt fleiri höfundar að koma fram sem leggja áherslu á slík skrif og enn fleiri sem skrifa en fá ekki gefið út. En hvað hefur breyst?

Ekki er sérstaklega langt síðan við Íslendingar hófum skáldleg textaskrif af einhverju viti, þó vissulega megi færa rök fyrir skáldskapahneigð í ákveðnum Íslendingasögum, t.d. Hávarðar sögu Ísfirðings. Margir telja að skáldsagnaskrif hefjist hérlendis með Jóni Thoroddsen en í raun hefst hún af einhverju viti í byrjun 20. aldar. Ekki er mikið skrifað af furðusögum framan af öldinni. Þórbergur þýðir örfáar sögur Poes, Gunnar skrifaði Sælir eru einfaldir en í henni má finna ákveðin gotnesk og hrollvekjandi einkenni, Kristmann Guðmundsson skrifaði vísindaskáldsögur sínar og fantasíur, þær fáu sem gefnar voru út, voru aðallega skrifaðar fyrir börn.

Nú eru hins vegar að vaxa úr grasi kynslóðir sem hafa alist upp við að lesa furðusögur. Kynslóðir sem lesið hafa Harry Potter sögurnar, bækur Philips Pullmans, Twilight bækurnar og horft hafa á Hringadróttinssögu í bíóhúsum. Þessar kynslóðir sækja síðan í Hungurleikana, Neil Gaiman, George R. R. Martin og álíka höfunda. Þetta eru framleiðendur sjónvarpsefnis auk þess að uppgötva, því ekki nóg með að Game of Thrones hefur verið framleitt heldur er einnig stefnt á að framleiða þætti sem gerast í Star Wars heiminum, þættir um Merlin hafa verið sýndir á Rúv og svo mætti lengi telja.

Við hjá Rúnatý sjáum þessa þróun einnig verða í íslenskum bókmenntum. Lesendur eru tilbúnir fyrir genre bókmenntir á íslensku. Við höfum gefið út smásögur og stærri verk eftir lítt þekkta höfunda og selt sem rafbækur. Hefur velgengni þeirra komið okkur í opna skjöldu, t.d. hefur smásagan Epli Iðunnar eftir Jóhann Þórsson selst býsna vel á Skinna.is. Við erum auk þess að vinna með tveimur upprennandi höfundum, annars vegar að fantasíu og hins vegar vísindaskáldsögu. Verður mjög spennandi að sjá hvernig þeim verður tekið þegar þær koma út.

Við hlökkum til að sjá hvernig þróunin verður á næstu árum. Rúnatýr mun áfram starfa að því að gefa út furðusögur, bæði á rafbókaformi og prentuðu.


2011 og 2012

Síðasta ár var viðburðaríkt. Við ákváðum að slá til og stofna útgáfu. Eftir vandlega leit að góðu og lýsandi heiti enduðum við á Rúnatý, sem er gamalt Óðinsheiti. Það merkir sá sem hefur stjórn á rúnunum og okkur fannst vel við hæfi að útgáfan bæri það nafn, enda ágætis lýsing á því sem rithöfundar þurfa m.a. að fást við. Við lögðum grunn að því starfi sem við vildum vinna, skilgreindum hvernig bókmenntir við vildum gefa út fyrst og fremst, ásamt því að hefja vinnu við að koma Myrkfælni á prent.

Við lærðum gríðarlega margt á því ferli, eiginlega miklu meira en við gerðum okkur í grein fyrir í upphafi. Ekkert okkar hafði áður komið að útgáfu bóka og þurftum því að læra allt um leið og hlutirnir gerðust. Sölusamningar voru gerðir við N1, Hagkaup, Nexus og Eymundsson og kom Myrkfælni út síðastliðið vor. Salan gekk ágætlega, bókin stóð undir sér, sem var jú fyrir mestu. Það var ýmislegt sem við hefðum viljað gera betur en lærum af þeim mistökum og gerum vonandi ekki þau hin sömu á þessu ári. Það sem mestu máli skipti var þó, að við vorum trú okkur sjálfum og hikuðum hvergi í að markaðssetja bókina sem genre bókmenntir, nánar tiltekið hrollvekju.

Í haust tókum við síðan upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á ókeypis rafbækur einu sinni í hverju mánuði á hér á síðunni okkar. Þetta teljum við vera frábæra leið til að kynna annars vegar höfunda og ná til fleiri lesenda, og hins vegar að kynna enn frekar fyrir lesendum að genre bókmenntir eru skrifaðar á íslensku og eru margar hverjar býsna frambærilegar. Í það heila hefur rafbókum Rúnatýs verið halað niður hátt í 400 sinnum og vonum við innilega að lesendur okkar njóti þessa framtaks.

Auk þess gengu tveir frábærir einstaklingar til liðs við ritstjórn félagsins, Kjartan Yngvi Björnsson og Unnur Heiða Harðarsdóttir, og hafa þau svo sannarlega komið sterk inn. Litla útgáfan er því að vaxa og mun vonandi dafna enn frekar á þessu ári.

Í vor stefnum við á að gefa út tvær bækur. Annars vegar hrollvekjandi skáldsögu eftir Þorstein Mar. Sagan gerist í Reykjavík á 9. áratuginum og sver sig í ætt við furðusögur, um leið og aðalpersónur þurfa að leysa úr flóknum gátum og ráða forna leyndardóma fer einhver um stræti og fremur hryllileg morð. Hin bókin sem koma mun út í vor er þýðing á nokkrum smásögum H. P. Lovecrafts, en hann er af mörgum talinn einn frumlegasti rithöfundur furðuskáldskaparins. Þeir sem vilja geta ráðið í hver meginsagan verður í þeirri þýðingu með því að skoða myndina sem fylgir þessari færslu.

Auk þess erum við að vinna að fleiri verkefnum, þ. á m. verkefni sem tengist Íslendingasögum, tveimur fantasíum og vísindaskáldsögu. Fyrsti kaflinn úr síðastnefnda verkefninu hefur birst hér í formi rafbókar og fengið góðar viðtökur. Við vonum að eitthvað af þessum verkefnum ljúki á þessu ári svo hægt verði að koma þeim í útgáfu.

Ákveðið hefur verið að allt efni Rúnatýs verði einnig gefið út í rafbókaformi á þessu ári og lögð verður áhersla á, að efnið verði aðgengilegt á öllum rafbókalesurum. Verðlagningu rafbóka verður stillt í hóf og munu rafbækur Rúnatýs ekki bera prentkostnað, dreifingarkostnað eða annan kostnað sem fellur til vegna umsýslu sem tengist prentuðum bókum beint.

Við hlökkum til þess að takast á við ný verkefni á þessu ári og vonumst til að þið eigið eftir að njóta þess sem frá okkur kemur.


2 nýjar rafbækur

Í tilefni jólanna ákváðum við að setja tvo kafla í bókum sem verið er að vinna að um þessar mundir. Annars vegar er um að ræða vísindaskáldsögu, sem Einar Leif Nielsen skrifar. Sagan er í anda film noir, minnir á Blade Runner en samt með sín séríslensku einkenni. Mjög spennandi verður að sjá hvernig sögunni vindur fram og vonandi fáum við að sjá þessa sögu á prenti.

Seinni sagan er fantasía, þar sem unnið er með gömlu norrænu goðafræðina. Sagan gerist í bæði Ásgarði og Miðgarði, teikn eru á lofti í Ásheimum um að Fimbulvetur sé í nánd og segir sagan frá nokkrum ungum hetjum sem takast á við þær breytingar. Sagan er ætluð ungum fullorðnum (e. young adult) og sækir í senn í heim klassískra fantasíusagna sem og Íslendinga- og fornsögur.

Birtast 1. kaflar beggja sagna. Endilega leyfið okkur að heyra hvað ykkur finnst.

Smellið hér til að sjá rafbækurnar.


Ertu rithöfundur?

Ritstjórnarteymi Rúnatýs vinnur um þessar mundir við að lesa yfir handrit sem senda hafa verið inn til útgáfunnar. Nú þegar er hafin vinna við að ritstýra nokkrum verkum, þ. á m. hrollvekju, vísindaskáldsögum og fantasíum, ásamt því að unnið er að tveimur þýðingum. Verið er að vinna að útgáfulista næsta árs og verður tekið við handritum allt fram til 1. nóvember nk. Hægt er að senda inn handrit á netfangið runatyr_hjá_runatyr.is


Upprisan

Á undanförnum árum hafa íslenskar útgáfur verið tregar til að gefa út efni eftir íslenska höfunda sem fellur ekki að hugmyndum manna um hina íslensku skáldsögu. Spennusagan náði sem betur fer loks í gegn og síðastliðin jól hafa þess háttar bókmenntir verið stór hluti sölunnar. Og sú bylting hefur gert það að verkum, að augu útgefenda eru smátt og smátt að opnast fyrir þeim möguleika að gefa út eitthvað annað en sveitarómansa eða raunsæislegar nútímadramabókmenntir.

Ég veit ekki hvort það er vegna þess að sífellt fleiri og betri höfundar eru farnir að halla sér að genrebókmentum. Kannski er sú raunin. Yrsa Sigurðardóttir skrifaði Ég man þig og seldist sú bók mjög vel. Reyndar var hún markaðssett sem spennubók en ég held að það dyljist engum sem lesi bókina að fyrst og fremst er um hrollvekju að ræða. Auk þess hafa tímarit á borð við Furðusögur gefið ungum höfundum færi á að sjá sögur sínar á prenti, sögur sem falla annars ekki inn í hinn fastmótaða ramma íslensku skáldsögunnar.

Gallinn er að mínu mati sá, að of lengi hefur skuggi Laxness hvílt á íslenskum rithöfundum. Hann var vissulega stórgóður rithöfundur á sínum tíma en ég held að alltof margir hafi reynt annað hvort að líkja eftir honum eða gert sitt best til að vera ekki eins og hann. Þannig hafi Laxness haft gríðarleg áhrif á menningu rithöfunda og það hafi í raun ekki verið fyrr en með tilkomu norrænu spennusögunnar hérlendis að höfundar og útgáfur sáu að hægt að var stíga fram undan skugganum og út í ljósið.

Fyrir nokkrum árum kom hrollvekjan Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson út, svo síðustu jól Ég man þig og nú í vor kom út safn hryllingssagna eftir mig. Ég veit að það eru fleiri sem eru að skrifa hrollvekjur eða spennusögur með hrollvekjandi ívafi. Auk þess hefur fantasíunni vaxið ásmegin, í síðasta sunnudagsblaði Moggans var viðtal við ungan norðlenskan rithöfundum sem hefur skrifað fantasíur og mun fyrsta bók hans verða gefin út af Sögum nú í haust. Rósa Grímsdóttir er auk þess að gefa sjálf út fyrstu bókina í fantasíubókaflokki sínum. Í gegnum tíðina hafa verið gerðar tilraunir með vísindaskáldsöguna, t.d. Lovestar eftir Andra Snæ, en persónulega sakna ég þess að sjá vísindaskáldsögu sem gengur alla leið.

Ég held, að við munum sjá meira af þessu á komandi árum. Þessar genrebókmenntir eru í raun að rísa upp sem gjaldgengar bókmenntir og fyrir vikið munu bæði forlög og lesendur smátt og smátt víkka sjóndeildarhring sinn hvað lestrarefni varðar. Enda sýna sölutölur frá löndunum í kringum okkur að lesendur þar vilja þess háttar efni, t.d. eru Stephen King og Terry Pratchett með mest seldu höfundum í sínum löndum. Upprisa genrebókmennta er fyrir löngu tímabær hérlendis og vonandi mun jólabókaflóðið í ár verða enn fjölbreyttara en áður.

Mig langar því til að hvetja sem flesta að gefa þeim bókum gaum sem út koma og falla ekki í hið klassíska form íslensku skáldsögunnar. Gefa ungum höfundum sem skrifa genre bókmenntir tækifæri. Meiri fjölbreytni í bókaskápnum getur ekki verið af hinu verra.