Monthly Archives: July 2012

Fréttir af útgáfunni

Vorið er annasamur tími hjá okkur. Við höfum verið á fullu við að koma bókunum okkar á framfæri, auglýsa og önnum kafin við allt það sem tengist slíkri starfsemi. Auk þess hefur okkur verið að berast sífellt fleiri handrit og eru mörg þeirra afar áhugaverð.

Rafbókin sækir í sig veðrið

Það hefur verið mjög gaman að fylgjast með sölunni á rafbókunum okkar. Hún hefur aukist viku frá viku og hefur ekki liðið sú vika, að ekki hafa verið einhverjir titlar frá okkur á metsölulistum Skinnu. Því miður er úrval rafbóka á íslensku fábrotið en við ætlum okkur að breyta því. Sérstaklega er leiðinlegt hversu lítið úrvalið er fyrir notendur Kindle en við vonum að það breytist eftir því sem fram líða stundir.

Gaman er þó að sjá að sífellt fleiri útgáfur eru að vakna fyrir þeim möguleikum sem felast í rafbókinni. Við höfum nýverið tekið að okkur að útbúa og dreifa rafbókum fyrir annað lítið forlag, sem að mestu gefur út bækur fyrir allra yngstu lesendurna og munu þær bjóðast til sölu von bráðar.

Við munum í framtíðinni leggja mesta áherslu á útgáfu rafbóka og reyna þannig að leggja lóð okkar á vogarskálarnar í þeirri byltingu sem rafbókavæðingin er.

Tvær nýjar kiljur

Við gáfum út tvær kiljur nú í vor, annars vegar skáldsöguna Þoku eftir Þorstein Mar og hins vegar Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur eftir H. P. Lovecraft. Hafa þær hlotið ágætar viðtökur og báðar ratað inn á metsölulista sem rafbækur. Hægt er að kaupa þær í öllum betri bókaverslunum, t.d. Bókabúð Máls og menningar, Iðu og Eymundsson. Hins vegar hefur aðeins lítillega verið fjallað um hvorn titil í fjölmiðlum, helst hafa vinir okkar í Nörd Norðursins verið duglegir að segja frá bókunum, en þetta veldur okkur nokkrum áhyggjum. Hvað stýrir því um hvaða titla fjölmiðlar fjalla? Við höfum sent eintök á nær flesta þeirra, þ.a. þá sem hafa svarað og óskað eftir eintökum en ákveðnir fjölmiðlar hafa hunsað algjörlega tölvupósta frá okkur og jafnvel margsenda slíka.

Fullt af flottum handritum

Við erum á fullu þessa dagana að lesa yfir handrit og þau ekki af verri gerðinni. Nokkur hafa verið tekin inn í ritstjórnarferli, þ. á m. fantasía, vísindaskáldsaga, steam-punk saga og hrollvekja. Við hlökkum mikið til að koma þessum handritum í rafbókaform og vonandi prentað form í framhaldi af því. Stefna er sett á að fyrstu handritin séu klár á komandi ári, næsta vor ætti því að verða mjög áhugavert fyrir þá sem njóta furðusagna. Allt eru það handrit frá ungum og efnilegum höfundum sem við teljum vera með sögur sem eiga fyllilega erindi við lesendur.

Sumarið er frábær tími til að lesa bækur og hvetjum við því alla til að grípa aðra hvora kiljuna frá okkur eða skoða úrval titla frá Rúnatý á vef Skinna.is. Við vonum að þið eigið gott bókasumar.